Hafragrauturinn sem fór á HM uppskrift.
11.10.2017 | 17:55
Það vakti ansi skemmtilegt umtal þegar ljóst varð að við systur værum á leið í HM í hafragrautsgerð í skosku hálöndunum. Þannig fréttum við m.a. af því að dag eftir dag hefði hafragrauturinn verið aðal umtalsefnið í heitum pottunum á Nesinu. Ekki við. Heldur sjálfur grautrinn. Það þótti okkur skemmtilegt. Því þetta snýst ekki um okkur. Heldur holla hafragrautinn og hvað fólk borðar á morganna. Hvernig fólk fer af stað út í daginn? Hafragrauturinn á allt gott umtal skilið og líka að það sé keppt um hverjir gera þann allra besta. Hafrar eru í raun óendanleg uppspretta dásamlegrar hollustu og uppskrifta. Fleiri en ykkur órar fyrir. Því fengum við systur sannarlega að kynnast um helgina. Flestir vilja hann á morgnanna, sumir í hádeginu og aðrir á kvöldin. Hann getur verið súr, kryddaður, steiktur, soðinn og allskonar.
Okkar framlag til skosku hálandaleikanna í hafgrautsgerð, Golden Spurtle, eða Gullnu þvörunnar, var hugsað sem eftirréttur í morgunmat. Draumurinn um bragð sem ýtir okkur mettum og sælum út í daginn og nærir öll skilningavit.
Hitt er að það var magnað að bregða sér til Carrbridge í Skotlandi og fá að taka þátt í svona dúndur skemmtilegri keppni. Skotar eru frábært fólk og bestu gestgjafar sem hugsast getur. Við hittum einstaklinga frá mörgum löndum sem allt er ástríðufólk í matargerð. Þar á meðal Svía sem fengu allar Gullnu þvörurnar í ár, en þeir stóðu líka upp og klöppuðu, stöppuðu og sungu með Íslendingum. Það er skemmst frá því að segja að Svíar eru afar góðir í hafragrautsgerð og gera hann eingöngu með hjartanu. Það skilaði sér.
Hér er okkar framlag sem við nutum að deila með dómurum og gestum. Við fengum mikið lof fyrir frumlega, góða og skemmtilega hugsaða grauta.
HAFRAGRAUTURINN - GRUNNUR:
250 gr glútenlaus, spíraður og lífrænn hafragrautur (bestur frá Rude Health, þessi bleiki).
½ lítri vatn
½ tsk lífræn vanilla
½ tsk lífrænn kanill
½ til 1 tsk gott íslenskt salt
250 -500 ml möndlurís mjólk
ferskur rifinn og lífrænn engifer
Þessi uppskrift er ágæt fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem vill fara vel nærð út í daginn. Minnkið hlutföllin ef þið kjósið að gera minna í einu. Annars er hann líka góður daginn eftir.
Blandið öllu saman nema möndlurísmjólkinni og engifernum. Gott er að láta blönduna standa í klukkutíma (má líka gera kvöldinu áður) en það er alls ekki nauðsynlegt.
Sjóðið eins og stendur á pakkanum. Sumir kjósa að hafa grautinn al dente á meðan aðrir vilja hann lungamjúkan. Eitt af því sem skosku hafragrautarfræðin hafa kennt okkur er að það er lang best að hræra oft í í grautnum á meðan hann sýður við vægan hita með þvöru (ekki sleif heldur meira eins og þykku tréspjóti). Hrærið oft því hafrar eru um margt eins og risottó. Það er, því meira sem þið hrærið því meira drekka hafrarnir í sig að vökva og kryddum. Og því meira gefa þeir af sér að góðri næringu. Þegar hafragrauturinn þykknar og þarfnast meiri vökva bætið þá við möndlurís mjólkinni eftir þörfum. Sumir kjósa 250 ml, aðrir meira. Raspið út í vænan bita af ferskum engifer. Það sem er svo gott að hafa í huga með lífræna engiferinn er að þegar maður notar vel af honum er minni þörf á salti. Þegar ykkur finnst hafragrauturinn tilbúinn (við viljum hann heldur mjúkan) er gott að setja lokið á og láta hann standa í smá tíma.
DÖÐLU- OG KARDIMOMMUSÓSA
Mér hefur alltaf líkað samsetning af mjúkum döðlum og kardimommum. Grænum bragðmiklum kardimommum sem ég þarf að steyta sjálf og mala. Þær eru bragðbestar og mestar. Síðan má næstum segja að kardimommur séu pínu íslenskar. Þær eru jú í íslenskum pönnukökum og hver elskar ekki Kardimommubæinn?
Sósuna má vel geyma í ísskáp í lokuðu íláti í viku. Svo gerið meira heldur en minna (hún er líka frábær á ís):
400 ml kasjúhnetumjólk (Rude Health)
200 ml lírænar kasjúhnetur (sem hafa verið lagðar í bleyti í 4 tíma eða lengur).
8 mjúkar lífrænar medjoel döðlur
1 tsk grænar lífrænar heilar kardimommur
½ tsk salt.
Þetta er ekki flókið. Takið steina úr döðlunum og hellið auka vatninu af kasjúhnetunum. Takið hýðið af kardimommunum og steytið þær. Setjið allt saman í blandara og hrærið uns blandan verður silkimjúk. Gerið áður en þið byrjið á hafragrautnum. Það er gott að láta kardimommurnar taka sig í sósunni.
Annað sem til þarf til að fullkomna grautinn er krækiberjasafi, villt íslensk krækiber og sýrð kókosjógúrt eða grísk lífræn Bíóbújógúrt.
Setjið grautinn saman í þessarri röð. Færið graut í fallega skál. Hellið yfir vænum skammti af döðlu og kardimommusósunni, hellið yfir einum einföldum af krækiberjasafa frá Íslenskri hollustu, bætið við tveimur til þremur matskeiðum af vel sýrðri jógúrt (vegan eða ekki) og sáldrið svo yfir villtum íslenskum krækiberjum. Látið helst minna á jökla, fossa, ár og fjöll séð úr háloftunum (við þurfum líka að næra augun).
Verði ykkur að góðu.
Ps: Bláber koma ekki í stað krækiberja í þessum graut. Það skildu skosku dómararnir vel. Það er þetta með tannínið sem er svo gott á móti sætkrydduðu sósunni og sýrðu jógúrtinni.
Lifi hafragrauturinn!
18.9.2017 | 20:04
Líkt og þegar fitan hvarf svo gott sem úr mataræði okkar munaði mjóu að kornið hyrfi líka. Sem betur fer rataði sannleikurinn aftur til fólksins og kornið í hinum ýmsu myndum fær aftur að njóta sín á matardisknum. Vísindi nútímans hafa sannað að kornið er okkur lífsnauðsynlegt. Eitt af þeim allra mögnuðustu, sem næstum varð undir í kornfóbíunni, er hið kærkomna hafrakorn, sem er líklega einn magnaðasti orkugjafi náttúrunnar og styður að hafragrauturinn á ennþá mikið erindi.
Þegar við mörg hver hugsum um hafragraut kemur Skotland upp í hugann. Í það minnsta skoski hafragrauturinn (Scottich porridge). En hugurinn leitar líka til villtra rauðra hafra, tegundar sem vex víða í Afríku, Ástralíu og Asíu, þeirra sem upphaflega voru notaðir í lækningaskyni. Annars þrífast hafrar best í temrpuðu loftslagi Evrópu. Þar sem sumardagarnir eru langir, loftslag kalt og mikil rigning. Mikil rigning gerir það að verkum að hafrarnir þrútna út með náttúrulegum hætti og ná að mynda bústna gullna hafra.
Í samaburði við annað korn eru hafrar mjög mjúkir. Þeir innihalda mikið beta-glúkan, efni sem losnar úr læðingi þegar þeir eru lagðir í bleyti. Efnið sem gefur þeim þessa einstaka og nánast rjómakenndu áferð. Áferðin færir þeim líka sætleika sem minnir um margt á dökka bragðið af hlynsírópi.
Það eru margar aðferðir til að uppskera og vinna hafra. Þegar hýðið hefur verið fjarlægt situr kornið eftir. Það eru þessir heilu og ósnortnu. Þeir eru mjög vinsælir og í raun útbreiddari en valsaðir eða malaðir. Flögur sem við þekkjum sem haframjöl er kornið sem búið er að vinna í smærri einingar og fást ýmist fínir, grófir eða miðlungs malaðir. Til búa til hinn hefðbundna skoska hafragraut er notast við hafraflögur. Þær eru hægsoðnar í vatni og sjávarsalti og mikilvægt er að hræra í grautnum með spurtle (viðarsprota) réttsælis. Í þeim flokki (og öðrum) verður keppt á Golden Spurtle sem er hið eina sanna HM í hafragrautagerð í skosku hálöndunum í byrjun október.
Mest framleiddu hafrarnir í heiminum í dag eru hins vegar valsaðir hafrar, eða hafraflögur þar sem júmbó kornið hefur verið valsað í flögur. Þá er búið að margvinna hafranna, þ.e. þeir eru fyrst skornir og síðan valsaðir. Það er hins vegar nýrra undir sólinni að notast haframjöl til að baka úr, eins og kex og kökur og fleira til.
Hafrar eru í raun undursamlegt korn. Ríkir af trefjum, járni og steinefnunum magnesíum og sinki. Allt sem heldur líkama okkar gangandi og góðum. Beta glúkanið í höfrunum er vatnsleysanlegt og svo magnaðar trefjar að þær stjórna því hvernig kolvetnunum er skammtað út í blóðið. Þær hægja í raun á skömmtunarferlinu og færa líkamanum jafna og góða orku yfir lengri tíma. Eiginlega bestu orku sem hugsagt getur. Þetta einstaka ferli er í raun andsvar við öllu því sem nú er að gerast í mataræði nútímamannsins og hefur valdið okkur miklum vandræðum og jafnvel heilsubresti. Þessar einstöku trefjar draga einnig úr fitusöfnum í líkamanum. Í ljósi alls þessa styrkja (helst ekki of mikið unnir) hafrar ónæmiskerfið og auka hæfni þess til að vinna gegn sýkingum og slæmum bakteríum.
Glópulín er prótein sem aðeins er að finna í hafragrjónum í jurtaríknu. Það er einstakt og sama prótein og er að finna í kjöti, mjólk eða fiski.
Hafrar lækka kólesteról og draga úr blóðþrýstingi og minnka þannig þrýsting á hjartavöðvann.
Hafrar eru glútenlausir frá náttúrunnar hendi en geta smitast af öðru glútenríku korni ef þeim er t.d. sáð í sama farveg og hveiti (sem er mjög algengt). Þeim getur líka verið spillt í gegnum mölunarferlið t.d. þegar þeir eru settir í gegnum mölunarvél sem einnig malar annað korn sem inniheldur glúten.
Í lækningaskyni hafa hafrar líka verið notaðir á húð, til að draga úr t.d. exemi, í krem eða baðvatnið. Og ekki má gleyma að seyði af höfrum, gjarnan nefnt Avena sativa (sem þýðir hafrar) og er vinsælt náttúrulegt svefnmeðal.
Hafrar eru í raun óendanleg uppspretta næringar og undursamlegra uppskrifta.
Það er ærin ástæðan til að borða t.d. hafragraut daglega og jafnvel sem snakk fyrir svefninn.
Lífræn regnbogasilungsolía vekur athygli
3.9.2017 | 22:43
Nú mega Íslendingar fara að vara sig. Lífræn regnbogasilungsolía er komin á markað og hefur vakið umtalsverða eftirtekt enda eina sinnar tegundar í heiminum. Þessi regnbogasilungsolía er sögð skandinavísk en það eru í raun og veru Danir sem eiga uppsprettuna í vatnasilungi sem kemur úr ósnortinni lífrænni ferksvatnsuppsprettu.
Það er breska bætiefnafyrirtækið Virdian sem stendur að baki framleiðslu á regnbogasilingsolíunni en óhætt er að segja að það fyrirtæki sé eitt mest skapandi í sínum geira í dag. Til vitnis um það er fjöldi verðlauna og viðurkenninga fyrir frumlegar og vandaðar vörur. Á þessu ári hlotnaðist þeim m.a. viðurkenning fyrir besta heilsudrykkinn á Natural & Organic, stærstu evrópsku heilsusýningunni og árið 2016 var Virdian valið fyrirtæki ársins á sömu kaupstefnu.
Um regbogasilungsolíuna er áhugavert að upplýsa að vinnsla hennar hefur engin áhrif á lífríki vatnsins sem fiskurinn er veiddur í. Vistsporin er líka færri en gengur og gerist enda fiskurinn veiddur og unnin á saman stað. Framleiðslan byggir því á grænum stöðlum og ferskvatnsuppsprettan tryggir fullkomna gæðastýringu á umhverfisþáttum. Síðan fara fiskflökin að sjálfsögðu í matargerð til bestu veitingastaða á Norðurlöndum og annað sem til fellur er notað sem næring í lífrænan búsakap.
Við hreinsun á fiskiolíum er gjarnan notast við bleikiefni, efni til að eyða lykt, gerisneyðingu og eimingu sem raskar náttúrulegum fitusýrum fisksins. Því er frábært að sjá hvernig með metnaði og hugviti má auka gæði góðrar næringu. Útkoman er að fitusýrurnar eru seldar í neytendaumbúðum eins og þær koma fyrir í fisknum.
Regnbogasilungsolían frá Virdian er lífrænt vottuð af Soil Association, sem er eitt virtasta vottunarmerki heims. Olíunni er tappað á flöskur á innan við klukkustund eftir vinnslu. Niðurstaðan er lífræn jómfrúar regnbogasilungsolía. Semsé frábær uppspretta fitusýra. Og þar sem ferksvatnið er laust við eiturefni og þungamálma skilar það ennþá meiri gæðum. Því eins og gefur að skilja er ekki hægt að votta sjávarafurðir almennt vegna mikillar mengunar hafsins.
Heilsugæði góðrar fiskiolíu:
Eins og flestir vita er vönduð fiskiolía uppspretta lífsnauðsynlegrar næringar sem geta unnið gegn ýmsum krónískum sjúkdómum. Góð fiskiolía er einstök uppspretta omega 3, einómettaðra fitusýra, (ω-3 PUFA), eicosapentaenoic sýru (EPA) og docosahexaenoic sýru(DHA).
Við neyslu frásogast ω-3 PUFA strax frá meltingarveginum inn í frumuhimnurnar þaðan sem hún sinnir allskyns mikilvægum hlutverkum, þar með talið breytingum í frumumhimnum, genatjáningu, hjarta- og æðum, ásamt þvi að draga úr bólgum 1.
ω-3 PUFA gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum sem m.a. snúa að kynheilbrigði, þungun, brjóstagjöf, jafnvægi á blóðsykri, hjarta- og æðasjúkdómum, heilbrigði liða og húðar, vitsmunum, ofvirkni og athyglisbresti.
Í síðari tíma rannsóknum hefur komið fram mikill skortur á omega 3, einómettum fitusýrum í mataræði nútímamannsins á meðan ofgnótt er af omega 6. Það ýtir undir marga sjúkdóma þar með talið bólgusjúkdóma 2.
Vönduð omega 3, íkt og er að finna í regnbogasilungsolíunni sem neytt er reglulega getur dregið úr þessarri þróun og rétt af hlutföll sem eiga að vera 2 á móti 1, (2 af omega 3 og 1 af omega 6), en ekki öfugt.
Hér eru nokkur áhugaverð dæmi:
Hjarta- og æðaheilsa. Tengsl eru á milli neyslu á ω-3 PUFA og hjarta- og æðaheilsu í 25 vísindalegum rannsóknum. Þar kemur fram að skortur á ω-3 PUFA, sérstaklega í formi DHA, var tengd hættu á kransæðasjúkdómum. 3 Fjölmargar rannsóknir styðja að neysla fiskolíum í formi bætiefnist verndar okkur gegn hjartasjúkdómum.
Geðheilsa Skortur á ω-3 PUFAs og mikið mangn ω-6 vs ω-3, eða öfugt hlutfall omega 3 og 6 hefur verið tengt allskyns geðrænum vandamálum. Omega 3 hefur mikil áhrif á mannsheilann og leikur lykilhlutverk í virkni tauga, þar með talið viðheldur hún himnum taugunga, heilbrigðum taugaboðum, nægum taugavökva og sveigjan- og teygjanleika, að auki myndun rafvirkni tauga og frumuviðtaka. 4
Verkir og bólgur- Rannsóknir á mönnum hafa sýnt að of mikil neysla á omega 6 í formi ω-6 PUFA ríkra grænmetisolía eykur framleiðslu cytokine sem veldur bólgum í líkamanum. Á meðan ω-3 PUFA ríkar fiskiolíur draga úr bólgum í líkamanum. Þessar miklu bólgur stafa af vestrænni fæðu sem inniheldur hátt omega 6 og lágt í omega 3 ýta. Þannig samsett fæða ýtir undir króníska sjúkdóma sem eru flokkaðir eru sem bólgur, verkir og sem sálfsofnæmissjúkdómar. 5
Vandaðar fiskiolíur geta leiðrétt þetta ójafnvægi og dregið úr verkjum og bólgum. Undir þetta falla m.a. liðagigt, bólgur í meltingarfærum, lupus, slímkröm, astma, ofnæmi, sóríasis, MS og offita. 6
Húðheilsa. Sýnt hefur verið fram á að bæði EPA og DHA draga úr skemmdum af völdum skaðlegra geisla sólarinnar (UV) og bólgum í húðfrumum. 7
Krónískt bólguástand liggur að baki sóríasis og exemi. Inntaka á ω-3 PUFA dregur úr því. 8
Það liggja svo bæði faraldsfræðilegar og klínískar sannanir að baki þvi að ω-3 PUFA ríkar fiskiolíur draga úr unglingabólum. 9.
Heilsa barna: Niðurstöður rannsókna sýna að skortur á ω-3 PUFAs og/eða hátt hlutfall ω-6 vs ω-3 leika stór hlutverk í þróun margvíslegra vandamála, eins og einhverfu, ADD/ADHD, sykursýki 1 í börnun, offitu, endurteknum sýkingum í eyrum. 10. Sem fyrirbyggjandi aðgerð dregur inntaka á fiskiolíu á meðgöngu úr áhættu á ofnæmum í ungabörnum og síðar á ævinni. 11.
Þetta er bara brot af því sem góð og vönduð ω-3 PUFAs úr fiskiolíu hefur áhrif á. En það áhugavert að upplýsa að fátt slær meira á sykurþörf en næringarrík olía sem fyllir gjarnan í tómarúmið.
Heimildir:
Það er lógískt að borða jógískt
24.8.2017 | 20:37
Margar halda að það sé hundleiðinlegt að borða eins og jógi. Það er ekki rétt. Allmargir jógar eru grænmetisætur og þónokkrir vegan. En alls ekki allir. Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, dæma ekki fæðuna sem fólk borðar, þótt þau mæli vissulega með því að sem flestir borði fæðu sem gefur góða orku og nota má til uppbyggingar. En ekki fæðu sem skaðar og veldur orkuleysi. Ólíkt því sem margir kunna að halda er kjöt ekki á bannlista jóganna. Kannski leggja þeir ekki mikið upp kjötáti, en eins svo margt annað í jógafræðunum er litið á kjöt sem eina af lækningajurtunum / orkujurtunum fyrir þá sem nauðsynlega þurfa þá næringu á ákveðnum skeiðum í lífi sínu.
Jógafræðin snúast í fyrsta lagi um að hjálpa okkur að finna jafnvægi í lífinu, jafnvægi á milli anda og efnis. Í nútímnum nýtast þessi fræði líklega betur en nokkru sinni, þegar fólk þeysist úr einu í annað, úr þessu mataræði í hitt. Þannig getur gott jafnvægi og það að hvíla meltinguna með því borða mikið af grænmæti, að minnsta kosti tímabundið, komið á dásamlegu jafnvægi. Það hefur auðvitað aldrei verðið skemmtilegra en nú að tímum veganisma, grænmetisstefnunnar og flexiteríanna (þeir sem borðar grænmetisfæði nær undantekningalaust).
Jóga- og ayurvedafræðin má nálgast með ýmsu móti. Þau hvíla á grunni gúnanna þriggja sem kallast sattva, rajas og tamas. Gúnurnar koma við sögu allastaðar. Í mat, í náttúrinni og hvernig við högum okkur og í líkama og huga. Að þekkja eiginleika gúnanna í umhverfi okkar getur hjálpað okkur að ná hinu gullna jafnvægi.
GÚNURNAR ÞRJÁR:
Tamas er að segja má pönkgúnan og stendur fyrir myrkið og dauðann. Þetta er þung orka sem er m.a. talað um að geti fylgt miklu kjötáti, dúpsteiktum og þungum mat, hvítum sykri og áfengi. Þetta er líka orkan sem fylgir því að sofa of mikið eða vera sófakartafla. Of mikið tamas er í lífi okkar þegar við erum of þung, markmiðslaus, þunglynd og/eða gráðug.
Rajas er tvíbent orka sem getur verið góð en líka haft truflandi áhrif. Of mikið rajas getur birst í formi spennu, streitu og spennufíknar. Rajas getur leitt til ójafnvægis í blóðrás og taugakerfi sem getur af sér ótta, svefnleysi og þyngsli. Ofgnótt af rajas leiðir til tamas. En rajas í jafnvægi er sannarlega gott. Það færir okkur ástríðu (rgatmakam) og lífsþorsta. Gerir okkur mennsk. Rajas fæða er jafnan sú fæða sem er góð fyrir okkur flest öðru hverju en getur valdið ójafnvægi í of miklum mæli. Það er matur eins og kaffi og allskyns orkudrykkir, mikið kryddaður matur, ofsaltur ofl.
Sattva er björtust gúnanna þriggja og merkir í raun jafnvægi, heilbrigði, sannleikur og samkennd. Allt hið létta og um leið það sem gefur orku, jarðtengingu og frið og ró í líkama og sál. Sattva merkir í raun tenging við náttúruna og þegar við tengjum við eitthvað innra með okkur. Innan sattvískrar fæðu rúmast margar tegundir grænmetis, basmati hrísgrjón, adzuki baunir, grasker, kál, hunang, ghee, eða allt sem er uppfullt af lífsorku og næringu. Allt sem er upplífgandi en gefur um leið jarðtengingu. Á endanum veltur allt á hæfileika okkar til að melta matinn og nýta næringu hans. Þannig leiðir sattvísk fæða og hugarfar (kærleikur) okkur að jafnvægi og náttúrunni og þar með betri tengingu líkama og anda.
Í jógafræðunum er að finna uppsprettu þekkingar um hvernig við getum breytt líðan okkar sem birist ekki síst í að skoða hvaða líkams- og hugargerð við erum. Þar eru ráð um hvað kann að henta okkur og hvað ekki.
Með því að nýta okkur það sem þessi fornu fíngerðu fræði hafa fram að færa með þekkingu nútímans náum við að lifa lífinu til fulls. Ayurveda er ekki tæki til að telja hitaeiningar. Ef þú spyrð sérfræðing í jóga/ayurvedafræðinum um mataræði mun hann líklega skoða þína líkams- og hugargerð og beina þér inn á sattvíska braut, að fæðu og lífsstíl sem færir þér smátt og smátt jafnvægi.
Það er líka áhugavert að upplýsa að um leið og fólk fer að neyta sattívsks matar minnkar smám saman áhuginn þeim rajasíska og tamasíska. Það gerist fyrirhafnarlaust. Áhugi á athöfnun eins og spennuíþróttum sem flokkast sem rajas og glásglápi á sjónvarp sem flokkast sem tamas (sófakartaflan) kann að minnka líka. Með sattvísku líferni er hætt við að þú viljir heldur horfa á sólarlagið á kvöldin fremur en á langa og stranga sjónvarpsseríu. Rólegur hugur er ekki eins spennufíkin.
En allt er þetta auðvitað ágætt í bland. Það myndu jógarnir alltaf segja.
Svo má að gamni velta því upp hvernig gúnurnar þrjár birtast í persónuleika fólks:
Tamasískur persónuleiki er eigingjarn og ófær um að setja sig í spor annarra.
Rajasískur persónuleiki er ástríðufullur og dramatískur en um leið sjálfmiðaður.
Sattva persónuleika fylgir kyrrð, friður og hamingja.
Þó má geta þess að gúnurnar þrjár verða aldrei aðskildar. Þær eru síkvik, dínamísk og skapandi orka sem við getum haft áhrif á m.a. með fæðu og lífsstíl.
Vísindin veðja á engifer sem lausn við offitu
10.6.2017 | 14:15
Flestir vita að engifer er frábær lækningajurt með mikla sögu. Fáa óraði fyrir að vísindi nútímans væru í þann mund að leysa úr læðingi sönnun þess að engifer er líklega besta lausnin gegn offitufaraldrinum og tengdum sjúkdómum sem nú geysa um allan heim. Vitað er fyrir að engifer er bólgueyðandi, verkjastillandi, góður fyrir meltinguna og hitagefandi. Ný samantekt vísindarannsókna sem birtist í TIME fyrir fáeinum dögum bendir á að fátt vinni jafn vel á offitufaraldrinum og engifer. Vísindamenn hafa þó ekki ennþá gefið upp hversu mikils magns sé best að neyta við offitu og tengdum sjúkdómum en eru í óða önn að finna út úr því.
Greinin sem TIME leggur upp með er samantekt vísindarannsókna sem birt var í hinu virta vísindariti Annals of New York Academy of Sciences. Þar voru teknar saman 60 rannsóknir sem ýmist eru frumurannsóknir eða rannsóknir á mönnnum eða dýrum. Í það heila sýna niðurstöðurnar að engifer er ekki bara góður gegn offitu heldur meiriháttar góður við offitu, sykursýki (hjarta- og æðasjúkdómum) og öðru sjúkdómum tengdum offitu. Þessi orð eru höfð eftir einum af höfundum vísindagreinarinnar sem er starfsmaður kínverska landbúnaðarháskólans.
Íslensk börn mjög þung
Höfundar samantektarinnar í Annals eru nokkir og beindu sjónum sínum að ólíkum sjúkdómsmyndum (alls þremur) sem snúa að sykursýki 2 og hjartasjúkdómum. Efnaskiptasjúkdómar eru vaxandi vandamál sem má líkja við heimsfaraldur, rita höfundar greinarinnar og upplýsa um leið að þeir herji á fjórðung íbúa jarðar.
Offita er alheimsvandamál og eitt af helstu viðfangsefnum 21. aldarinnar. Offita getur haft alvarlegar afleiðingar, eins og háþrýsting, sykursýki af tegund tvö, hjarta- og æðasjúkdóma og margs konar krabbamein, segir Alma Björk Guttormsdóttir, MPH í lýðheilsuvísindum á vef hi.is en þar kemur líka fram að íslensk börn eru með þeim þyngri í Evrópu og að þróunin sé uggvænleg.
Engifer sem heildarúrræði
Af þessum sökum hefur vísindasamfélagið mikinn áhuga á mögulegu heildarúrræði gegn efnaskiptasjúkdómum, sem vel að merkja innihalda EKKI lyf. Og þar sem engifer er að verða þekkt stærð um allan heim, á sér langa og örugga sögu sem lækningajurt við ýmsum kvillum, líka efnaskiptasjúdómum er sú lausn bæði kærkomin og nærtæk. Þetta má þakka mörgum góðum plöntunæringarefnum og andoxunarefnum sem prýða vandaðan engifer.
Engifer virðist hafa margskonar virkni og nefna sérfræðingarnir hvaða hlutverki hann gegnir við fitubrennslu. Dæmi um það er að engifer ýtir undir brennslu kolvetna og stjórnar insúlínnæmi. Ennig hefur verið sýnt fram á að engifer dregur úr oxun af völdum streitu (semsé hann dregur úr öldrun), er bólgeyðandi, lækkar kólesteról og blóðþrýsting. Það eru líka vísbendingar um að engifer dragi úr æðakölkun.
Þó fremur fáar rannsóknir hafi verið framkvæmdar á mönnum en meira á tilraunastofum og dýrum, er ljóst að engifer brennir hitaeiningum og dregur úr hungri. Auk þess sem hann er tengdur lækkun kólesteróls, blóðsykurs, blóðþrýstingi, próteinum sem valda bólgum og lifrarheilsu.
Engifer í stað salts?Þær tilraunir sem hafa verið gerðar á fólki hafa ýmist verið í formi taflna, hylkja, eða drykkja. Marie-Pierre St-Onge aðstoðarprófessor í næringafræði við Kólumbía háskólann segir að vísindin séu enn ekki búin að finna út hvaða form engifers virki best né hvaða magn þurfi til. Rannsóknir á virkni engifers og öðrum lækningajurtum er að slíta barnskónum, segir St-Onge sem kom að rannsóknum á engiferi árið 2012 og er ein rannsóknanna sem er til grundallar samantektinni. En rannsóknir lofa mjög góðu, sérstaklega þær sem hafa verið gerðar á rannsóknarstofum og á dýrum, segir St-Onge.
Þar til meiri þekking liggur fyrir segir St-Onge að fólk ætti að vita að engifer er sannarlega andoxunarríkur og bólgueyðandi og það að hafa hann sem hluta af fæðunni sé afar gott. Jafnvel sé það ekki ekki galin hugmynd að byrja á því að minnka saltið og auka magn engifers í mataræði okkar.
En skammtastærðir koma innan skamms. Áhugavert.
Heimildir:
hi.is/offita_islenskra_barna_eykst_hratt
onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/nyas.13375/abstract
time.com
Ertu glútenlaus án þess að þurfa að vera það?
29.5.2017 | 20:49
Godhuma er orð sem kemur fyrir í Sanskrít. Go þýðir skynfæri og dhuma merkir að fjarlægja þokuna/skýið frá vitunum. Hin dýpri merking þessa er á þá leið af ef við höldum skynfærum/meltingarfærum okkar ekki hreinum þá þrífumst við ekki.
Dr. John Douillard sérfræðingur í Ayurveda, náttúrulæknir og höfundur einnar umtöluðustu heilsubókar samtímans, Eat Wheat, bendir á að í dag byggi margra billjóna dollara bisness á að segja okkur að hveiti sé eitur. Gott og vel. En hann er ósammála. Kafar aðeins dýpra. Máli sínu til stuðnings ber Douillard saman vísdóm Ayurvedafræðanna og 600 vísindalegar rannsóknir og kemst að þeirri niðurstöðu að í raun sé almennilegt hveiti mjög góð fæða fyrir manninn. Og ekki bara góð heldur líka lífsnauðsynleg. En hann er eins og flestir sérfrðæðingur um heilsu að tala um hreint og heilt korn, ekki unnið, bleikt, næringarsnautt, erfðabreytt eða dautt.
Þó liggur alveg ljóst fyrir að sumir eiga erfiðara með að borða hveiti/glúten en aðrir. Eða að minnsta kosti þangað til meltingarfæri þeirra eru komin í samt lag á ný. Douillard fullyrðir að það að tala niður hveiti séu mistök á pari við þau sem Vesturlandabúar gerðu fyrir 60 árum þegar á þeir -með rangar upplýsingar eða í besta falli ónóga þekkingu - kenndu kólesteóli um allt sem miður fór. Faraldrar á borð við sykursýki, offitu, jafnvel þunglyndi og alveg örugglega slæm melting séu rakin til þess að við tókum góða olíu úr fæðunni okkar. 5.
Vissulega létti það mörgum lífið að losa sig við hveitið úr daglegu mataræði. En í augum dr. Douillard er það of einföld lausn við flóknu vandamáli. Hann segir að mörgum skjólstæðinga sinna sannarlega hafa liðið afar vel í upphafi eftir að hafa losnað við glútenið en innan nokkura vikna eða mánaða hafi allt farið í sama farið aftur. Meltingaróþægindin, uppþemban, bjúgurinn, þreytan og heilaþokan komi gjarnan af fullum þunga aftur þótt glútenið hverfi úr mataræði þeirra. Það sé því löngu tímabært að ráðast í rótina en ekki bara fást við einkennin.
Góð melting og hreinsun haldast í hendurHafir þú einhvern tímann átt auðvelt með að melta hveiti en líður illa af hveiti í dag er mjög líklegt að þú þurfir að velta við fleiri en einum steini, segir Douillard.
Í amerísku mataræði sem Íslendingar hafa að miklu leyti tileinkað sér í gegnum árin er mikið af auka- og eiturefnum. Margar vísbendingar eru um að hluti þeirra geti verið afar skaðleg og jafnvel krabbameinsvaldandi 4.
Eitt þessarra efna er kvikasilfur sem kemur m.a. til vegna útblásturs og mengunnar, er mikið að finna í sjávarafurðum og vofir yfir allt og öllu. Hann telur mjög líklegt að kvikasilfur og aðra þungamálma sé að finna í of miklu magni í okkur mörgum. Ekki síst vegna notkunnar skaðlegra snyrtivara. Á vef Umhverfisstofnunnar (ust.is) segir Kvikasilfur er eitrað efni og getur í mjög lágum styrk skaðað tauga-, ónæmis- og hjarta- og æðakerfið auk starfsemi nýrna.
Rannóknir styðja að þungamálmar, þ.m.t. kvikasilfur og mörg önnur eiturefni í umhverfinu nái ekki að brotna alveg niður í meltingavegi okkar, að líkaminn losi sig ekki við þá og þeir safnist upp. Slík efni og önnur geti hindrað og telft í tvísínu náttúrulegum meltingarensímum okkar sem eiga að brjóta niður og melta glúten sem og önnur þungmelt prótein. 1.
Uppsöfnun eiturefna í líkamanum geti haft gríðarleg áhrif okkur og hindrað að fæða sem er okkur nauðsynleg næri okkur ekki sem skyldi og fari jafnvel að snúast gegn okkur.
Hveitikornið hefur verið hluti af fæðu mannsins í milljónir ára. Já, milljónir. Þótt sumir vilji meina að það séu ekki nema 10 þúsund ár.
Við erum rótgrónar hveitiætur
Ekki er langt síðan mannfræðingar framkvæmdu ísótópíska kolefnis rannsókn á beinum og tönnum manna sem voru uppi fyrir 3.4 til 4 milljónum ára. Það er skemmst frá því að segja að í þeirri rannsókn fundust greinileg merki um C3 sem er m.a. að finna í hveiti og byggi. Það styður það að maðurinn hefur borðið hveiti í milljónir ára, ekki bara þúsundir. Þessar rannsóknir gáfu jafnframt til kynna maðurinn hafi lifað á frá 40 upp í 70 % á kornmeti sem flest innihélt glúten. 2
Eftir að ísöld gekk yfir urðu regnskógar Afríku og álfan öll ein stór hitabeltisgresja þakin glútenríku korni, þar á meðal hveiti og byggi. Rannsóknir gefa til kynna að á þeim tíma hafi það tekið manninn allt að tvo tíma að safna mat fyrir átök dagsins og mest af því hafi verið heilt korn. Og af hverju ekki? Það að safna korni sem var vel falið og verndað innan um hátt grasið var sjálfsagt mun öruggara en að elta ljón eða gazellu í morgun-, hádegis og kvöldmat.
Fyrstu vísbendingarnar um að maðurinn hafi farið að borða sjálfdautt kjöt eru 2.5 milljón ára gamlar (semsé milljón árum síðar) og bara 500 þúsund ár eru liðin síðan veiðarnar hófust. Til upprifunnar hefur maðurinn verið hveitiæta í 3 til 4 milljónir ára. Við ættum því svona genetískt séð sannarlega að hafa hæfileika til að melta gott hveiti/glúten. Maðurinn býr nefnilega almennt yfir sérstökum glútenmeltingarensímum í munnvatni, vélinda, maga, ristli og smáþörmum, eða í öllum meltingarveginum. Þar þrífast líka fjöldi örvera sem styðja við meltingu glútens í öllum meltingarveginum.
Dr. John Douillard hefur skoðað meira og samkvæmt nýjum rannsóknum segir hann að fólk á glútenlausu fæði beri gjarnan í blóði sínu 4 sinnum meira af kvikasilfri og öðrum þungamálmum samanborðið við þá sem borða hveiti/glúten. Rannsóknir sýni að auki að þeir sem borði eingöngu glútenlaust búi yfir færri góðgerlum sem styrki ónæmiskerfið og meira af skaðlegum örverum, þ.e. að glútenleysið kunni að raska þarmaflórunni.
Þá bendi nýrri rannsóknir til að þessi tormelti matur, þ.e. korn, hveiti og baunir, styrki ónæmiskerfið. Án þeirra geti ónæmiskerfið farið að veikjast. 7,8,9.
Lykilinn að því að geta borðað gott hveiti á ný sé semsé að forðast kemískan mat, eða mat með kemískum efnum, hreinsa líkamann og forðast unna fæðu. Og enn og aftur; lífræn hrein fæða, miki grænt, umhverfisvitund og hreinsandi fæði af og til sé sennilega málið fremur en glútenleysið.
Ps. Fátt vinnur betur á þungamálum en græn lífræn fæða. Fremst meðal jafningja eru klórella og kóríander en gott lífrænt grænt garðagrænmeti er líka fyrirtak.
Heimildir:
1 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3988285/
2 http://archive.unews.utah.edu/news_releases/a-grassy-trend-in-human-ancestors-diet/.
3 http://donmatesz.blogspot.com/2011/06/gathering-wild-grains.html.
5 https://health.gov/dietaryguidelines/2015/guidelines/
6 http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4720344/
7 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3023594/
8 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/16377907
9 https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25802516
Hipparnir sigurðu
15.4.2017 | 22:19
Ég og systir mín skelltum báðar upp úr þegar bisnessmaður nokkur, nýfarinn að feta heilsustíginn, gerði sig breiðan og hóf að tala niður til jógahippana.
Það skyldi nefnilega aldrei vanmeta jógahippana, hvað þá gömu hippanna sem hafa í raun sigrað.
Horfum aðeins á heiminn sem við lifum og hrærumst í dag?
Granola (fátt er hippalegra). Nú selja súpermarkaðir granola fyrir 2 billjónir dala árlega. GTs, vinsæl ölgerð í Los Angeles bruggar meira en 1 milljón flaskna af kombucha á ári og selur m.a. í Walmart. Möndlumjólk er nú að finna á öllum Starbucks kaffihúsunum.
Við þurfum heldur ekkert að orðlengja um útbreiðslu jóga og hugleiðslu (eða Birkenstock).
Misó, tahini, döðlur, fræ, hnetur, túrmerik, engifer? Bara allra sérvitrustu hipparnir héldu það út að borða þennan mat. Á mörgum af best metnu veitingahúsum heims nú um stundir eru grænmeti og fornt korn í aðalhlutverki á matardisknum (og kannski kjöt sem meðlæti). Grænkerar með ýmsa titla eru hippar/uppar samtímans; Þeir sem kjósa grænmetisfæði, veganar og flexiterían (sem eru að stærstum hluta grænmetisætur) hafa lagt heiminn að fótum sér.
Þá má vera að hipparnir hafi ekki unnið margar kosningar, en þeir hafa sannarlega sigrað matardiskinn.
Í þessu samhengi er á áhugavert að upplýsa að ein af helstu ástæðunum þess að maður eins og Gonzales opnaði Lalito á Manthattan árið 2016, var sú að hann var búin að fá sig fullsaddann af karlrembumat , sem olli honum heilaþoku, mat sem samanstóð af kjöti, mjólkurafurðum og sterkju. Hann á örugglega nokkra bræður á Íslandi. Matseðill hans á Lalito inniheldur diska eins og eggaldin með sítrónu og japanskri gomasíó kryddblöndu og vegan útgáfu af chicharrones (sem er upprunalega svínamagi). Það er því óhætt að segja að nýjir litir og nýtt bragð séu að taka yfir matardisk Vesturlandabúa. Umami hefur bæst við, segja sumir, en aðrir líta svo á bragðgæðin sex í Ayurveda séu loks að komast í jafnvægi. Alltént eru ofsætt og ofsalt á undanhaldi.
Avócadó tóst hefur aldrei verið vinsælla, en vissuð þið að sú brauðsneið er andlegur afkomandi avócadósamlokanna frá áttunda áratugnum, sem gjarnan voru bornar fram með alfalafa spírum. Elegant franskur staður eins og Le Coucou býður upp á afar vinsæla avóadó tóst í morgun- og hádegismat og kallar það Le Californien.
HEIMABRUGG Ný kynslóð hefur fengið áhuga á heimagerjun. Þau umskipti eiga rætur í misvandaðri iðnaðarmatvælaframleiðslu. Dapurlegasta dæmið er brúneggjamálið en mörg brúneggjamál hafa skekið heimsbyggðina undanfarið. Og margt á enn eftir að koma fram. Þegar við fórum loks að spyrja gagnrýninna spurninga um hvernig allur þessi matur er framleiddur flaut margt misjafnt upp á yfirborðið. Eitt af því góða sem hefur komið út úr því er heimagerjun, sem er þó líka sannarlega tilkomin vegna að þess að vísindin eru að skila því í höfn að vitið býr raunverulega í þörmunum. Sú staðreynd að í líkama okkar eru 100 trilljónir baktería, sem eru tífalt fleiri en frumur líkamans, hefur ekki síður vakið fólk til vitundar um að sýra grænmetii sjálft og heimabrugga heilsudrykki. Vitundin um að góð heilsa og geðheilsa þrífst á að hlutfall góðu bakteríanna, góðgerlanna sé 85% er að ná í gegn. . Functional Food er eitt af heitustu leitarorðum Google. Ekki af ástæðulausu.
Í dag spretta fram veitingastaðir byggðir á straumum eins og beint frá býli, grænmetis, vegan eða á Ayurveda (jóga) lífsvísindunum. Líklega hefur maturinn sjaldan verið lit- og næringaríkari. Það sem truflar þó margt hugsjónafólkið í heilsubransum er hversu margir eru að reyna að húkka sér far með heilsulestinni án þess að eiga innistæðu fyrir því. Alice Waters , kölluð drottningin af Berkley í lífrænni heimaræktun og árstíðarbundinni matreiðslu (hún er alvöru hippi) segir þetta truflandi. Vissulega geti verið erfitt að svindla sig í gegnum lífrænu voittunina en að margir aðrir heilsustimplar séu misnotaðir í matvælaiðaninum í dag.
Hippisiminn er í raun ekki bara lífstíll heldur frábært vörumerki líka.
Ekki er bara verið að selja mat lengur heldur líka upplifun og visku.
Heimildir m.a. New York Times, MindBodyGreen.
Er ljóminn að hverfa og svitinn orðinn þurr?
29.3.2017 | 21:59
Aktívistinn og jógakennarinn Shiva Rea er mögnuð kona og eitt mest áberandi andlit jógaheimsins. Það lögðu því margir við hlustir þegar hún upplýsti að hún hefði nærri brennt upp lífsvökva sínum. Ástæðan? Hún gerði alltaf sömu jógaæfinganar án tillits til árstíða eða breytinga í lífi hennar. Þá kynntist hún Ayurveda sem umbylti sýn hennar á tilveruna og færði henni svitann, ljómann og lífsorkuna ný.
Lífsvökvi, ljómi, langlífi og hamingjaÞað er gott að segja sígilda dæmisögu sem þessa í gegnum jafn áhugaverðan jógakennara og Shiva Rea er, en margir íþróttamenn og jógar eru í hennar sporum í dag. Þegar Shiva Rea kynntist Ayurveda fræðunum, systurvísindum jógafræðanna, hafði hún þanið líkama sinn til hins ítrasta sem var við það að þorna upp. Og þótt hún hafi stundað jóga frá 14 ára aldri hafði hún ekki hugmynd um hvaða líkamsgerð (dosha) hún væri. Þannig var hún ómeðvituð um hvernig krefjandi æfingar sköpuðu ójafnvægi í líkama hennar og lífi öllu.
Jafnvel þótt Shiva Rea, sem í dag stendur á fimmtugu, hefði ávallt stundað jóga og hugleiðsu var vandinn sá að hún var alltaf að gera sömu æfingarnar allt árið um kring, án tillits til árstíða eða þeirra breytinga sem voru að verða í lífi hennar. Líkt og svo margir taldi hún að jóga gengi út á að kafa dýpra inn í jógastöðurnar til að öðlast skilning og hreinsa líkamann. Hitt vissi hún ekki að um leið var hún að brenna upp lífsvökva sínum eða, hinu dýrmæta ojas-i sem samkvæmt Ayurveda stjórnar lífsvökva, ljóma, langlífi og hamingju
Ójafnvægi íþróttafólks
Eitt af órækjum merkjum þess að hökt sé á lífsvökvanum er t.d. þegar þú ert liðug/ur í jóga en stíf/ur þess á milli og þegar svitinn er orðinn þurr.
En þrátt fyrir að vera sannarlega djúpur jógaiðkandi var það ekki fyrr en Shiva Rea kynntist Ayurveda að hún komst að því að hún væri í það sem kallað er pitta-vata ójafnvægi sem einmitt margt öflugt íþróttafólk glímir við. Í gegnum Ayurveda segist Shiva Rea loks hafa lært að virkja lífskraft sinn og nota náttúröflin til að ná jafnvægi og líka til þess að sjá hvar ójafnvægi hennar lægi. Í framhaldinu hóf hún að kanna sínar eigin æfingar og kennsluna sem hún bauð upp á. Hvernig hún myndi færa sig nær lífsorkunni til að tengja við innsæið. Þetta gjörbreytti hugmyndum hennar um jóga og varð uppspretta þess sem hún kennir í dag. Það eru jógaæfingar samofnar hinum fíngerða slætti lífsorkunnar sem býr innra með okkur, í takti við breytilega daga, vikur, árstíðir og tunglstöður.
Stórkostleg breyting
Nú segist Shiva Rhea alltaf vinna sitt jóga með Ayurveda sérfræðingum og það sé stórkostleg breyting á því hvernig hún upplifi jóga. Hún sé farinn að svitna aftur og ljóminn sé að færast yfir á ný.
Til að viðhalda lífsorkunni leggur Shiva Rea áherslu á eftirfarandi:
Þurrbursta líkamann daglega og bera á sig olíu, ásamt því að nota tungusköfu og nefpott.
Borða í takt við árstíðar og mikið af elduðu grænmeti og jurtum, og huga að eigin doshum sem stundum þurfi að fínstilla.
Passa upp á að halda í heilbrigða líkamsfitu. Að verða ekki of grönn.
Hennar lífsspeki er þessi:
Ayurveda er jóga lífsins megi allar verur verða hamingjusamar og djúsí.
Hér má lesa meira um þessa merkilegu konu http://www.shivarea.com/
Hvernig er best að losna við bólgur með túrmeriki
20.2.2017 | 18:43
Í þúsundir ára (bókstaflega) hefur hin djúpgula og fallega túrmerikrót (Curcuma longa) verið dásömuð sem eitt virkasta ráð náttúrunnar við hinni hvimleiðu liðagigt og almennt bólgum í líkamanum. Í dag taka nútímavísindin undir það. Fólk dásamar túrmerik um allan heim. Upprisa þess er undaverð og líkt og ég greindi frá í skrifum mínum um heitustu heilsustrauma ársins 2017 eru margir að öðlast dýrmæta reynslu af virkni túrmeriks. Engu að síður eru nokkrir ráðvilltir og finnst oft sem túrmerk í formi bætiefna virki ekki eins og rannsóknir segja til um. Á því kunna að vera nokkrar skýringar sem gjarnan snúa að vinnslu og gæðum þessarrar gjöfulu rótar. Í miðju bætiefnafárinu sem nú gengur yfir er ágætt að kunna skil á gæðum og styrk og vita að túrmerik er ekki endilega það sama og túrmerik. Það sama á raunar við um ýmis önnur bætiefni, jurtir og vítamín sem gjarnan er fjallað um af nokkurri vanþekkingu þessa daganna.
Í þessu samhengi er ágætt að að rifja upp viðamikla og vandaða vísindarannsókn sem framkvæmd var á fólki með slitgigt í hnjám. Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem tóku inn kröftugan túmerikkraft (1500 mg daglega sem gaf þeim 85% af kúrkúmu) reyndust fá alveg sömu virkni og þeir sem neyttu 1200 mg af verkalyfjum daglega. Utan þess að verkjalyfin höfðu óþægileg áhrif á meltinguna en túrmerikið ekki.
En þrátt fyrir þessa rannsókn og fjölmargar aðrar á hinum öfluga kúrkúmín krafti (virka efninu í túrmerki) vita sumir ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Hið snúna er að túrmerikið nýtist okkur ekki alltaf að fullu. Ástæðurnar eru ýmsar en aðallega þær að búið er að blanda við það svo mikið af óæskilegum efnum eða þynna það svo út að túrmerkið hefur misst allan kraft.
Þannig er að þegar vandaðar vísindarannsóknir eru framkvæmdar er það ávallt á jurtunum í sínu besta formi. Skiptir þá engu hvort þær eru heilar eða vel og vandlega unnar. Þetta getur skýrt muninn á upplifun fólks og því sem fram kemur í rannsóknum.
Það er líka gott fyrir okkur að vita að ómeðhöndlað túrmerk inniheldur margskonar jurtanæringarefni, ekki eingöngu virka efnið kúrkúmín. Þessi jurtanæring eru m.a. olía og fjölsykrur. Þess vegna skiptir máli að taka ekki bara kúrkúmín heldur er mikilvægt að kúrkímín kraftinum fylgi flestir ef ekki allir hans frábæru náttúrulegu ferðafélagar, jafnvel þótt kúrkúmín hafi verið unninn úr túrmerikrótinni. Það er ekki af ástæðulausu að hugtakið whole food er lykilorð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Rugla tengslin þig á milli túrmerkis og kúrkúmíns? Túrmerik er hluti af engiferfjölskyldunni. Rótin inniheldur kúrkúmínóíða, sem eru þau jurtanæringarefni sem gefa túrmerkinu hinn djúpa og fallega gula lit. Kúrkúmín er kraftmest í hópi kúrkúmínóíða. En breidd kúrkúmínóíða í túrmeriki er mikil og jurtanæringarefnin skipta hundruðum. Venjulegt túrmerikduft inniheldur 3-5 % kúrkúmínóíða á meðan unnið túrmerik (í formi góðs bætiefnis) inniheldur 85-95% kúrkúmínóða á móti túrmeriki.
7 leiðir til að losna við verki og bólgur með túrmeriki:
1/ Túrmerik er mun virkara og betra lífrænt (ekki bara fyrir okkur, líka jörðina).
2/ Stundum eru notuð leysiefni við úrvinnslu túrmeriks. Dæmi um það er asintón. Ekki fjárfesta í illa unnu túrmeriki.
3/ Túrmerik bætiefni innihalda alltof oft óþörf íblöndunarefni (t.d. titanium díoxíð, magnesíum sterat og tilbúin frásogsíblöndunarefni, eins og polysorbate-80. Þetta dregur úr virkni og gæðum túrmeriks.
4/ Hlutfall kúrkúmínóíða, (styrkileiki kraftsins high potency) í bætiefni ætti að vera að minnsta kosti 85%, þ.e. ef þú vilt taka inn almennilegt bætiefni sem virkar við liðagigt og bólgum. Restin ætti að vera hreint túrmerik og hylkin náttúruleg.
5/ Kúrkúmínóíðar eru alltaf mjög góð vísbending um styrk bætiefnis, hvort sem þú kýst að taka inn 200 mg eða 2000 mg á dag af túrmerki á dag.
6/ Kraftur túrmeriks er ólíkur venjulegu túrmerikdufti þar sem eitt hylki af krafti er sambærilegt við 20 hylki af venjulegu túrmeriki (notaðu endilega eins mikið og þú getur af túrmerki í mat, drekktu góða aukaefnalausa túrmerikdrykki og eða taktu inn hreint túrmerik með).
7/ Frá náttúrunnar hendi inniheldur túrmerik yfir 235 jurtanæringarefni, ekki bara kúrkúmín. Þegar þú velur bætiefni hafðu allt litrófið, eða í það minnsta 3 tegundir kúrkúmínóíða sem er vel að merkja blandað venjulegu túrmeriki. Besta blandan er hreint túrmerk og kúrkúmín.
Heimildir:
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3964021/
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/22407780
Bestu ráðin á tímum flensu og orkuleysis
29.1.2017 | 12:35
Ertu með flensuna, kvef, síhnerrandi og alltaf að snýta þér? Er hálsbólgan að hrjá þig eða bara almennur slappleiki? Margir glíma um þessar mundir við einhverja útgáfu af slappleika. Í besta falli orkuleysi. Þá er gott að vita að jógafræðin búa yfir mögnuðum ráðum sem geta létt fólki lífið og flýtt upprisu. Margar aðferðanna hafa vísindin þegar bakkað upp. En á meðan hin virta læknavísindastofnun Mayo clinic ráðleggur mikla vatnsdrykkju sem komi í veg fyrir ofþornun og losi um stíflur leggja hin fornu Ayurveda lífsvísindi til mikið af heitu vatni í sama og jafnvel ennþá áhrifaríkari tilgangi.
Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna, eru nefnilega ögn nákvæmari og segja líkamann eiga mun auðveldara með frásoga heitt vatn en volgt eða kalt.
Hér er rökstuðningurinn:
Heitt vatn skoli burtu ama (eiturefnun) sem létti á ónæmiskerfinu
Heitt vatn næri slímhúðina um leið og það losar okkur við umfram slím.
Heitt vatn róar vata frumefnin sem búa í okkur öllum (þó í misstórum hlutföllum). Ofan á það bætist að vata er kalt og þurrt, eins og veturinn á Íslandi. Því er tvöföld ástæða fyrir Íslendinga að hafa vatnið heitt fremur en kalt eða volgt.
Ef flensan er á fyrstu stigum ráðleggur Ayurveda fræðingurinn John Doullard nokkra sopa af heitu vatni á 10 til 15 mínútna fresti í þrjá daga. Það geti snúið á flensuna.
Larissa Hall Carlson, skólastjóri hins virta Kripalu Ayurveda skóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, ráðleggur okkur að láta fæðuna vera meðal okkar á flensutímum. Hún mælir með hreinun, heitum, léttum og einföldum mat og mikið af jurta- og grænmetisseyðum og teum. Og jafnframt mikið af vel elduðu grænmeti sem er á uppskerutíma. Forðist þunga og massíva fæðu sem erfitt er að melta. Það eru mjólkurvörur, kaldir djúsar, kjöt og sætabrauð. Forðist einnig kaldan, frosin og þurran mat og líka hráfæði sem getur verið erfitt að melta, segir Larissa á heimasíðu Kriplau.
Gott að væta kverkarnar upp úr saltvatni. Saltvatnið losar um slím og hreinsar burt bakteríur og sveppi úr hálsinum. Mayo Clinic tekur undir það og segir saltvatn róa sáran háls og draga úr kláða.
Leysið ¼ til ½ tsk af salti (helst himalaya insk: pistlahöfundar) upp í 1 bolla af heitu vatni, segir á vefsíðu Mayo Clinic. Að baki þessum ráðleggingum liggur rannsókn sem birt var í The American Journal of Preventive Medicine. Um var að ræða samaburðarrannsókn. Annar hópurinn sem skolaði háls sinn þrisvar á dag var 40% fljótari að jafna sig af sýkingum í hálsi vegna kvefs eða flensu í samburði við þá sem ekki skoluðu á sér hálsinn upp úr saltvatni.
Borðaðu eða drekktu engifer. Margar vísindalegar rannsókir sýna og sanna að engifer dregur úr flensueinkennum, sljóleika og flökurleika og jafnvel úr vöðva- og beinverkjum. Ayurvedafræðnum hafa einmitt alltaf vitað að engifer er eitt öflugasta meðalið við kvefi. Engifer er beiskur í eðli sínu, sem dregur úr kafa, þessu blauta og þunga, sem býr í okkur öllum en fer gjarnan úr jafnvægi þegar við veikjumst.
Hitt er annað mál að það er ekki skynsamlegt að taka margar tegundir verkjalyfja á sama tíma og engifer. Því engiferinn er líka blóðþynnandi.
Í remidíu bók Vasant Lad Ayurvedalæknis er frábært ráð sem gagnast hefur mörgum vel. En það snýst um að fara í engifer andlitsgufu sem léttir á ennisholum og lungum. Sjóðið 1 tsk af fínsöxuðum lífrænum engifer í ½ lítra af vatni í stutta stund. Takið af hellunni. Þegar vatnið hefur kólna örlítið er gott setja blönduna í hitaþolna skál og handklæði yfir hausinn. Andið að ykkur gufunni í nokkrar mínútur. Endurtakið ef þess þarf.
Og auðvitað ráðleggja jógarnir líka djúpa öndun. Það dregur úr stífleika í brjóstkassann. Larissa á Kripalu jógasetrinu segir Drigha Pranayama, eða þriggja hluta öndun, áhrifaríkasta. Hún hefur áhrif á sefkerfið okkar, eða parasympatíska taugakerfið. Hér lýsir Larissa öndunni vel.
Ef við erum ekki komin á bólakaf í flensuna er gott að fyrirbyggja og passa vel upp á D-vítamínið, C-vítamínið, fá sér olífulauf, góðar olíur, taka inn bólgeyðandi túrmerk og hafa engifer alltaf innan seilingar. Það er afskaplega gott að styrkja ónæmiskerfið á meðan harðasti veturinn gengur yfir. Í Ayruveda fræðunum er alltaf ráðlagt að passa upp á að matur, vítamín og bætiefni séu lífræn og án aukaefna eða nastís. Þau valda ama (uppsöfnun eiturefna) í líkamanum og geta sannarlega verið ein af undirrótum þess að flensan leggst harðar á suma en aðra. Best er að hafa agni eða meltingareldinn skíðlogandi, ama geti sannarlega verið til ama.
Heimildir m.a.:
https://kripalu.org/