Færsluflokkur: Bloggar

Ferskur, næringaríkur og óunnin biblíumatur!

Páskahátíðin er framundan sem að margra mati er notalegasta hátíð ársins. Minni streita, meira frí og margir nota tækifærið og bæta dögum við fríið. Páskarnir eru ekki síður nýttir til að gera vel við sig í mat og drykk. Það leiðir hugann að öllum þeim mat sem kemur við sögu í biblíunni en eins og önnur fæða sem neytt var til forna er biblíumatur eins mikil andstaða við skyndibita og hægt er að hugsa sér. Allt hráefni er ferskt og óunnið. Engin gjörunnin matvæli voru í boði. Eingöngu alvöru matur, hollur, einfaldur og oft mjög bragðgóður. Svo virðist sem biblíufæði hafi verið saðsamt, næringar- og orkuríkt og staðið vel með fólki. Líkt og fæðan úr hinum fornu ayurvedafræðum hefur verið undir smásjá nútímans undanfarið hefur maturinn sem kenndur er við biblíuna enn og aftur verið dreginn fram í dagsljósið.  Fljótt á litið rímar biblíumaturinn líkt og fæða jóganna fullkomnalega við óunnið heilsufæði nútímans.

Byrjum á olífuolíunni...
olífuolíaGyðingar voru mestu olífuolíu kaupmenn biblíutímans. Til forna var olífuolía notuð til lækninga, í lampa, fyrir sápur, snyrtivörur en líka sem gjaldeyrir. Olífuolían var að auki notuð til að smyrja konunga og presta. Um það vitnar m.a. hebreska orðið yfir Messías (Moshiach) sem þýðir smurður. Á sama hátt eru margar olíur hátt skrifaðar í indversku lífvísindunum (ayurvedfræðinum). Í Sanskrít kemur fyrir orðið snea sem hefur tvíþætta merkingu sem er annars vegar olía og hins vegar ást.
Nú þegar miklar nútíma rannsóknir hafa verði gerðar á olífuolíunni er ljóst að fornu fræðin standast og það sama á við um margar aðrar óunnar olíur sem þó hafa mismunandi mátt fyrir mannslíkamann. Allavega benda rannsóknir til að neysla á olífuolíu stuðli að góðri heilsu fyrir hjarta, heila, húð og liðheilsu og vinni líka gegn sykursýki og haldi blóðsykri í jafnvægi. Það er ennþá ástæða til að hafa ást á góðum olíum.

Granateplin
Þessi bragðgóðu sem er stundum erfitt að meðhöndla hafa náð miklum vinsældum undanfarin ár. Líklega megum þakka eðal kokkum eins og Yotam Ottolenghi að miklu leyti heiðurinn. Margar rannsóknir styðja frábæra kosti granatepla sem eru bólgueyðandi og búa yfir gnótt andoxunrefna. Vísindin segja að góðu áhrifin stafi af magni ellagínsýru, flavóníóða, jurtanæringar og trefja. Þau veiti okkur vörn og séu góð við þarmabólgu, offitu, veiti insúlínviðnám og vinni jafnvel gegn krabbameinum.

Gerjuð vínber
JesúvínKysstu mig kossi vara þinna,
atlot þín eru ljúfari en vín. (Ljóðaljóð 1:2)
Það er vart hægt að gera lista yfir helstu matvæli biblíunnar án þess að nefna vínber. Nokkrar faraldsfræðilegar rannsóknir fullyrða að hófleg áfengisneysla, einkum rauðvínsdrykkja (en þó umfram allt neysla á dökkum berjum), geti dregið úr hættu á hjartavandamálum af völdum æðakölkunnar. Þegar þrúgusafi er gerjaður myndast náttúruleg andoxunarefni og flavoníðar, t.d. resveratrol. Þar af leiðandi hafa vísindamenn lagt mikla áherslu á að meta heilsufarslegan ávinning af resveratroli á undanförnum árum, sem hefur verið tengt við varnir gegn langvinnum sjúkdómum og meðferð við sykursýki og offitu. En það þarf svosem ekki gerjuð vínber til að neyta góðs resveratols. Gott resveratol er í aðalbláberjum og kakóplöntunni, svo fátt eitt sé nefnt.

Hörinn
Hörinn er ein af mikilvægustu plöntutrefjum biblíunnar. Hör hefur verið uppspretta líns eins lengi og elstu konur muna. Þó að hörnum hafi að miklu leyti verið skipt út fyrir bómull (og annað) er hör enn ein mikilvægasta trefjaplantan og var sannarlega undirstaða helstu klæða og matvæla biblíunnar. Hörplantan á sér einnig ríka sögu sem náttúruluyf og nær sú saga allt aftur til Babýlonar 300 f. kr. Hörfræin eru ennþá mærð í nútíma lækningum. Það er vegna náttúrulegar uppsprettu omega 3, lignans og trefja. Að auki hafa rannsóknir metið hörfræ fyrir getuna til að hjálpað þeim sem eru að kljást við lungna- og hjartasjúkdóma og ekki síst meltingarvandmál.

Spírað kornbrauð
BrauðTaktu hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi,
láttu það all í eina skál og gerðu þér brauð úr því. (Esekíel 4:9).
Í Esekíelsbók segir frá að Guð hafi gefið spámanninum Esekíel uppskrift að því sem hefur reynst hið fullkomna brauð, þar eð nútímavísindin hafa nýlega sýnt okkur að það býr til „fullkomið prótein“ sem inniheldur allar nauðsynlegar amínósýrur. Aðalástæðan fyrir því að Esekíelar brauð er hollara en önnur brauð er sú að ef korn og belgjurtir eru lagaðar í bleyti og þær spíraðar, sem gerir það auðveldara að melta þau - og þar af leiðandi er það eina brauðið sem er á þessum lista yfir helstu matvæli biblíunnar
Hér er átt við að uppskera „spíraða kornsins“ eigi sér stað rétt eftir að fræið byrjar að spíra. Áður en það hefur þróast í fullvaxna plöntu. Í þessu mikilvæga vaxtarástandi meltir ungi sprotinn hluta af sterkjunni til að ýta undir vöxt hennar. Vegna þess að sterkja kornsins hefur verið nýtt, eykst magn mikilvægra næringarefna - þar á meðal próteina, vítamína og steinefna. Að auki hafa rannsóknir bent til þess að járn og sink frásogist mun auðveldara eftir spírun
Mörgum er misjafnlega lagið að búa til þetta brauð því vinnsluferlið er langt og ekki er auðvelt að nálgast kornið og braunirnar á þessu þroskastigi. En þar sem vel hefur tekist til er fólk stórhrifið. Hér er ein aðferð sem má kannski prófa. Uppskrift.

Hrá geitamjólk
Sé heyið hirt og háin tekin að spretta
og hafi jurtum fjallanna verið safnað
átt þú lömb þér til klæðnaðar,
geithafra til þess að kaupa fyrir akur
og nóga geitamjólk þér til fæðslu,
heimili þínu til matar og til viðurværis þernum þínum.
(Orðskviðirnir 27:26-27)

Óunninn mjólk eins og hún kemur beint geitinni (og kúnni) geymir gnótt af vítamínum og steinefnum sem stuðla að heilbrigðum beinum og tönnum. Slík mjólk er hlaðin kalsíum, K2 vítamíni, magnesíumi, fosfór og fituleysanlegum vítamínum. Að sjálfsögðu hefur verið framkvæmd samanburðarrannsókn á næringu kúamjólkur og geitamjólkur og um margt segir að geitamjólk gæti verið enn gagnlegri. Ólíkt kúamjólk, hafa t.d. vísindamenn frá háskólanum í Granada séð gögn um geitamjólk sem benda til þess að hún gæti komið í veg fyrir sjúkdóma eins og blóðleysi og beinþynningu. Að auki hefur geitamjólk eiginleika sem hjálpa til við meltingu og efnaskiptanýtingu steinefna eins og járns, kalsíums, fosfórs og magnesíums.

Lamb
Þannig skuluð þið neyta þess:
Þið skuluð vera gyrtir um lendar,
með skó á fótum og stafi í höndum.
Þið skuluð eta það í flýti.
(2. Mósebók 12:11)
Vegna mikilvægis páskalambsins og að leggja það hlutverk að jöfnu við Krist, eru lömb virtasta dýr sögunnar og mikilvægasti maturinn í biblíunni. Lambakjötið sem hér er átt við er kjöt af innan við ársgömlu. Það hefur minna fituinnihald og ríkt af próteini, B12 vítamíni, B6 vítamíni, níasíni, sinki og öðrum mikilvægum næringarefnum, það er án efa hollasta rauða kjötið á jörðinni, vilja margir meina, þ.e. ef það er grasfóðrað.

Beiskar jurtir (kóríander og steinselja)
Þeir skulu neyta kjötsins sömu nótt,
þeir eiga að eta það steikt við eld
með ósýrðu brauði og beiskum jurtum
(2. Mósebók 12:8)
KóríanderFræðimenn eru ekki algjörlega sammála um hvaða plöntur höfundar biblíunnar voru að vísa til þegar þeir skrifuðu um „beiskar jurtir,“ en kóríander og steinselja eru almennt á listanum.
Kóríander er fræ af “kraftmikla andoxunarefninu og náttúrulega hreinsiefninu kóríander”. Jafnvel hefðbundnin læknisfræði hefur merkt kóríander sem plöntu gegn sykursýki og vísindarannsóknir staðfesta gagnleg áhrif þess á blóðsykur. Kóríander virðist einnig gagnast gegn háum blóðþrýstingi, það hreinsar þungmálma úr líkamanum ásamt því að hafa önnur góð heilsufarsáhrif.
Raunar hefur kóríander verið notað sem meltingarelexír og græðandi krydd í þúsundir ára, með vísbendingar um notkun þess allt að 5000 f.Kr. Þess er getið í Sanskrít textum, fornegypskum ritum, Gamla testamentinu og ritum gríska læknisins Hippókratesar. Rómverski herinn flutti kóríander til Evrópu, þar sem það var notað til að varðveita kjöt, og Kínverjar töldu það vinna gegn matareitrun. Það er mikið til í því.
Steinselja er önnur heilsueflandi jurt og rík uppspretta nokkurra mikilvægra vítamína, þar á meðal A-vítamín, C-vítamín og kalíum. Steinselja og ilmkjarnaolía hafa verið notuð sem náttúruleg afeitrun, þvagræsilyf og sótthreinsandi og bólgueyðandi efni um aldir í ýmis konar alþýðulækningum.

Grænmeti
Reyndu okkur nú, þjóna þína, í tíu daga.
Gefðu okkur grænmeti til matar og vatn að drekka.
(Daníel 1;12)
Í stað þess að borða lostæti Babýloníumanna báðu Daníel og vinir hans um að lifa á grænmetisfæði. Þegar kominn var tími til að koma þeim fyrir konung urðu Nebúkadnesar og allir leiðtogarnir undrandi þegar þeir sáu að hinir fjórir ungu vinir voru hæfari og litu betur út aðrir ungir menn sem borðuðu babýlonsku réttina. Gjarnan síðan nefnt Daníels fastan. 
Af öllum fæðuflokkum er grænmeti án efa næringarmesta gjöf jarðar, eða býr yfir mestri næringarþéttni og er jafnframt öruggasta fæðan. Það hlýst engin skaði af því að borða mikið magn af grænmeti. En ávaxtaát allan daginn gæti aukið á tannskemmdir og hækkað blóðsykurinn

Grænmeti er raunar mjög áhrifaríkt, sérstaklega grænmeti af krossblómabætt (spergilkál, grænkál, blómkál, sinnepskál, radíusur, rósakál, vatnakarsi ofl) vegna þess að það er ríkt af glúkósínólötum (stór hópur glúkósíða sem innihalda brennistein). Þykir jafnvel vinna gegn skæðustu sjúkdómum. Grænmeti hefur verið undirstaða fæðu um allan heim í þúsundir ára. Vísindamenn hafa m.a. fundið varðveitt fræ frá Brassicaceae fjölskyldunni í Kína frá 4000 og 5000 f.Kr. 

Hrátt hunang
hunangFinnir þú hunang fáðu þér nægju þína
svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og spýir því upp.
(Orðskviðirnir 25:16)
Það er engin furða að hrátt hunang sé nefnt „fljótandi gull. Góð áhrif á húð og líkama virðist nær takmarkalaus. Hrátt hunang er enda hlaðið lykilnæringarefnum. Rannsóknir hafa staðfest að hunang inniheldur m.a. flavónóíða. Auk þess að vera frábær staðgengill orkudrykkja fyrir íþróttamenn og sannarlega fyrir þá sem þarfnast smá uppörvunar. Þá ýtir hrátt hunang einnig við vöxt góðgerla í meltingarvegi þar á meðal Bifidobacteria. Annar heillandi eiginleiki hunangs er hæfni þess til að bæta ofnæmisheilsu. Gakktu úr skugga um að þú kaupir gott hunang og helst beint frá býli.

Gleðilega páska!


Ps: Hér var bara stiklað á stóru því það er heill hellingur af annarri fæðu nefnd í biblíunni og bráðhollri.

Nokkrar heimildir:
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/30487558/

https://fdc.nal.usda.gov/fdc-app.html#/food-details/169134/nutrients
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/20043077/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/23519910/

https://fdc.nal.usda.gov/fdc-app.html#/food-details/169414/nutrients
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4252429/
https://canal.ugr.es/prensa-y-comunicacion/medios-digitales/perishablenews-eeuu/study-proves-that-goat-milk-can-be-considered-as-functional-food/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/23281145/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/33207780
https://pubs.acs.org/doi/abs/10.1021/jf025692k
https://pubs.acs.org/doi/abs/10.1021/jf025692k
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3145055/
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/34559743/

 

 

 

 


Heilsutrendin 2024. Hvað er í kortunum?

 

Hvernig lítur heilsa og vellíðan út fyrir þig? Kannski er það að hjóla í búðir frekar en að keyra, taka stigann í stað lyftu eða skipta út áfengum drykk fyrir óáfengan? Undanfarin ár hefur fólk svo sannarlega verið til í endurskoða nálgun sína á heilsu og vellíðan. Árið 2024 munum við líklega sjá skýrara hvernig eftirköst undanfarinna ára; heimsfaraldurs og kreppu hefur mótað líf okkar.
Svo má auðvitað spyrja; hvað er trend? Trend er ekki endilega það sama og bóla sem springur! Trend þróast. Frá því ég hóf að skoða strauma og stefnur í heilsumálum fyrir margt löngu stunduðu fáir hugleiðslu á Íslandi. Í dag, 10 árum síðar, segjast 22% Íslendinga hafa hugleiðslu sem hluta af lífi sínu, skv. könnunum. Sem þýðir að tugir þúsunda stunda hugleiðslu.
Heilsuþróunin er sannarlega andleg ekki síður en líkamleg og margt liggur í loftinu. En hvað er líklegt að vaki fyrir fólki eða haldi fyrir fólki vöku 2024?

Meltingarheilsan
ProbioticsAf öllum þeim þáttum sem eru mikilvægir fyrir fólk þegar það kaupir mat hefur orðið „probiotic“ vaxið mest og sala á drykkjum sem innihalda góðgerla aukist gífurlega. Heilsuvandamál í þörmum eru býsna algeng og margskonar mataræði og streituvandamál hafa yfir langan tíma haft neikvæð áhrif á meltingu okkar. Fjöldi Bandaríkjamanna sem segjast finna fyrir ógleði, uppköstum eða niðurgangi reglulega/oft hefur aldrei verið meiri frá því mælingar hófust. Og aldrei hafa fleiri fæðubótarefni fyrir meltingarheilbrigði verið seld þar í landi. Fullyrða má að svipuð þróun hafi átt sér stað á Íslandi. Margir leggja nú meira á sig en nokkru sinni áður við halda þörmunum heilbrigðum og munu áfram leita allra leiða til að hressa þá við.

Mjólkurvörur koma inn aftur
Áratugur veganisma var kærkomið trend og færði okkur grænmetið aftur. Alltént sá angi hennar sem lagði upp úr góðu grænmeti. Fylgifiskur var minnkandi áhugi á mjólkurvörum. En nú er fólk að reyna að finna leiðina til að nota aftur einfaldar og hollar mjólkurvörur. Ekki að ástæðulausu. Þegar allt kemur til alls bæta mjólkurvörur rjóma, próteini og nostalgíu við mat sem erfitt er að endurtaka í öðru formi. En mjólkurvaran sem við mörg erum að sækjast eftir nú er ekki fituskert og sykurhlaðin, heldur hin náttúrulega “sæta” mjólkurafurð úr ekki svo fjarlægri fortíð. Áhuginn beinist að mólkurvörum sem eru framleiddar á sjálfbæran hátt, þeim sem hafa gagnlega fitu og eru stútfullar af lifandi góðgerlum. Eftir vikulega grænmetiskasssa undanfarin ár má allt eins búast við því að matarkassar næstu ára innihaldi meira úrval af mjólkurvörum (jógúrt, ostum, kotasælu og smjöri) sem færa okkur nær daglegu próteinmarkmiðum okkar. Gott er að vona að áhugi á sjálfbærum, lífrænum búskaparháttum muni valda breytingum á mjólkuriðnaði á þann hátt sem það getur gagnast heilsu okkar og um leið heilsu jarðarinnar. Með hærri styrkjum sem veittir voru til íslensku bændastéttarinnar nýverið er kannski von?

Vonarstjarnan 2024 er kotasælan.
KotasælaVaxandi vinsældir kotasælunnar endurspegla líklega gríðarleg áhrif samfélagsmiðla á hegðun neytenda. #cottagecheese hafa fengið yfir 663 milljónir áhorfa á TikTok.
Kannski liggur þarna undir þrá eftir jafnvægi. Kotasælan rokselst víða um heim. Eftir margra ára framleiðslu “mjólkurvara” úr jurtaríkinu vilja nú margir snúa aftur í vöru eins og kotsælu sem hefur einkar aðlaðandi næringargildi. Kotasæla er stútfull af próteini, kalki og nauðsynlegum vítamínum og er í raun ansi snaggaralegur skyndibiti. Hluteysi kotasælunnar og skemmtileg áferð býður upp á að hennar sé notið með margvíslegum hætti. Ofan á eða í brauðið, í pastarétti, með morgunmatnum, í sósuna, ofan á pístuna (jú minnir svolítið á blómkálsbitana), með indversku réttunum, eða bara ein og sér. Það góða við kotasælu er líka að hún er janvíg með einhverju sætu og ósætu. Og ekki svo hitaeiningrík próteinbomba.

Heilinn
Sögulega séð voru fjölvítamín allt sem fólk þurfti til að bæta heilsuna. Það hefur breyst. Haltu samt áfram að taka fjölvítamín og hafðu þau framúrskarandi. Mest spennandi flokkur samtímans eru Nootropics (frá grísku „noos“ og „tropein“ sem þýðir „að hugsa“ og „að leiðbeina“). Sagt er að aldamótakynslóðin og Z kynslóðin sækist í því tilliti eftir drykkjum og dufti sem veita fullnægjandi bragðupplifun, vellíðunartilfinningu og skerpu á sama tími en aðrir vilji sinn þægilega dagskammt til inntöku. Nootropics eru semsé flokkur fæðubótarefna sem sýnt hefur verið fram á að stuðli að vitrænni heilsu. Áður héldu fæðubótarefni fyrir heilann gjarnan koffín og ginkgo biloba. Það er að breytast. Það sem hefur vakið athygli allra kynslóða, ekki síst eldri borgara og íþróttafólks, eru annars skonar. L-theanine er eitt þeirra, sem tengjast ró og máske meiri sköpunargáfu en mestur er áhuginn Brahmi. Brahmi er sannarlega Nootropics og á sér langa sögu sem heilalækningajurt, líka þekkt sem jurt náðarinnar. Breskir læknar og vísindamenn hafa haft um hana stór orð að undanförnu og kalla Brahmi “game changer” í þágu heilans. Brahmi er sagt auka afköst heilans, hugsun og námsgetu og er nú vel vísindalega undirbyggð. Brahmi eykur asetýlkólín. Það er náttúrulegt efni í taugakerfinu sem sagt er auka vitræna úrvinnslu, athygli og minni. Það munar um minna.

Fyrirbyggjandi nær yfir meira
heilsugæslaOrðið fyrirbyggjandi, sem hefur mikið borið á góma í nokkur ár, er að verða skýrara í huga fólks og nær yfir fleiri svið en nokkru sinni. Meðal annars hreyfingu, vellíðan, fæðu og jú bólusetningar. Allt snýst þetta um hið fornkveðna að forvarnir séu betri en lækning. Þessi breyting frá viðbragðsaðferðum yfir í fyrirbyggjandi nálgun er að verða stefnumótandi forgangsverkefni margra heilbrigðisstarfsmanna/stofnanna/ fólks víða um heim. Flestar rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi skapar langtímaávinning fyrir sjúklinga, auk þess að draga úr kostnaði sem fylgir meðhöndlun á heilsuvanda sem hægt er að koma í veg fyrir. Tækniframfarir, þar á meðal gervigreind, munu væntanlega gegna stóru hlutverki í framtíðinni, færa okkur viðvörun fyrr og því skjótari íhlutun. En það má heldur ekki gleyma að gömlu fyrirbyggjandi vísindin eru mörgum hugleikin um þessar mundir og eru sannarlega að gagnast, ásamt því að vera innblástur fyrir vestrænu vísindin. 

Styrktarþjálfun sem sjálfsagt mál
Flest æfingakerfi framtíðarinnar munu sjálfsagt snúast um að byggja upp styrk. Við erum þegar byrjuð á bygga upp styrk. Þó að vellíðunariðnaðurinn hafi oft lagt áherslu á mildari æfingar eins og jóga, sem við þurftum sannarlega að halda áfram með, bendir flest til þess að fleiri muni hefja styrktarþjálfun árið 2024 en áður. Í sjálfu sér er styktarþjálfun ekki lengur bara einhver “æfing” heldur hluti af heilbrigðri vellíðan. Það er mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið, að nýta sér styrktarþjálfun, og þann líkamlega ávinning sem hún hefur í för með sér. Ekki einasta að styrktarþjálfun auki beinþéttni og hjarta- og æðaheilbrigði heldur bætir hún svefn, styður við andlega vellíðan og auðvitað; eykur vöðvamassa. En svo er það þetta með hreyfanleikann.

Hreyfanleikinn í daglegu lífi
SeniorsWalkingSamkvæmt Google leitarvélinni hefur leit að eftir orðinu „hreyfanleiki“ aukist mikið undanfarin ár. Jógabyltinginn hefur sjálfsagt veitt mörgum innblástur. Stirðleiki er ekki óafturkræfur. Þá hefur hækkandi aldur fólks alveg örugglega haft áhrif á löngunina til að verða liðugri. Þó ekki sé nema til sjálfsbjargar. Það að geta klætt sig, komist inn og út úr bílnum, leikið við barnabarn eða barnabarnabarn skiptir höfuðmáli, nú eða til að geta komist í göngutúr. Það að vera sterkur og liðugur er ekki lengur um að taka hörkuæfingu einu sinni til tvisvar viku heldur að koma hreyfingu á daglegt líf sitt, líka heima og stunda um leið sjálfsumhyggju. Hreyfanleiki með áherslu á langlífi er meira en bara trend. Fólk er farið að átta sig á því hvað líkaminn er fær um, með meðvitund um lífsstílsmiðaða hreyfingu. Niðurstaðan er: Líkamsrækt snýst meira um heilsubót og virkni fremur en fagurfræði.

Taugakerfið í sviðsljósið
Bara það að Gjörningaklúbburinn og Sinfó setji Flökkusinfóníuna á dagskrá byrjun árs gefur tóninn fyrir 2024. Taugakerfið með sinni löngu og mikilvægu vagus / flökkutaug verður í sviðljósinu. Það eru margskonar leiðir til að róa taugarkerfið og sjálfsagt hefur öll hugleiðslan hjálpað okkur mest. Hljóðböðin sem einmitt róa taugakerfið eiga vaxandi vinsældum að fagna. Hljóðböð eru nákvæmlega eins og þau hljóma – að baða sig í hljóði. Flestar hljóðbaðstundir fela í sér dauft, hlýtt, ilmandi herbergi þar sem þú getur legið, haft það notalegt og notið hljóðs frá góðum gongspilara. Hljóðböð eru talin bæta slökun og draga úr streitu. Hljóðbað er líka eins konar hugleiðsla. Í heimi sem fyllist sífellt meira af hávaða og örvun frá skjáum okkar er engin furða að fleiri hafi áhuga á að flýja í róandi hljóðbað þar sem tíminn og síminn eru afstæðir. Þetta mun allt á endanum leiða til meiri samkenndar sem vonandi trendar feitt á næstu árum. Sjáum til.

Húðiðnaður skiptir um andlit
jane fondaUndanfarin ár hefur meira og minna allt sem lotið hefur að húðvörum notast við hugtakið „gegn öldrun“. Þetta er nálgun sem er um að leiðrétta “mistök”. Snúa á áður áunnin skaða. Síðan kom hugtakið „fyrirbyggjandi" öldrun, sem fjallaði ekki lengur um að snúa klukkunni til baka, heldur um hvernig á að stöðva öldrunarferlið. Algjörlega. Og á tvítugsaldri. Þó að þessar aðferðir endurspegli tíðaranda eru þær í raun gamaldags. Í leit að ofleiðréttingum eða því að eldast aldrei, hefur fegrunariðnaðurinn oft valið lausnir sem enda með því að stefna heilsu húðarinnar í hættu og búa til andlit sem er svo einkennileg að það sætir furðu. Í raun ómanneskjuleg andlit. Meira að segja Jane Fonda hefur sagt opinberlega að hún sjái ekki eftir neinu meira í lífinu en öllum lýtaaðgerðunum sem hún hefur gengist undir. En að hún verði að lifa með því. Það breytir því ekki að það eru ótal náttúrulegar og heilbrigðar leiðir, gamlar og nýjar, til að hugsa vel um sig og húðina um leið.
Áður fyrr var hugtakið öldrun, þ.e. orðið sjálft, tengt neikvæðni. Nú er það bara staðreynd að langlífi eykst. Því þarf öldrun fjarri því að hafa neikvæða merkingu. Í dag getur fólk elst og átt virkilega fallegt og heilbrigt líf.

Amen!

Heimildir koma héðan og þaðan.

 


Tími tómarúmsins kallar næringu og nokkur ævintýri

Lengsta tíð ársins ársins stendur nú sem hæst. Þetta er tíð tómarúmsins sem mun að líkindum standa yfir hér á landi fram á vor með ýmsum tilbrigðum. Einkenni þessa tímabils eru kuldi, þurrkur, léttleiki, tærleiki, hreyfing, mikið loft en líka hið dularfulla og ævintýralega tómarúm.

Frábær tíð. Svo lengi sem við höldum jafnvægi megum við eiga von á heilbrigðu, skapandi og frjósömu tímabili. Ef, hins vegar frumkraftar þessa tímabils safnast um of í líkama og huga okkar getur ójafnvægið komið fram með líkamlegum eða tilfinningalegum óþægindum. Má þar nefna svefnleysi, þurr húð, liðagigt, hægðatregða, hár blóðþrýstingur og kvíða og þunglyndi.

tómarúmÞessi tíð nefnist vata tími eftir elstu heilsuuvísindum heims, ayurveda og tekur mið af náttúrkröftunum sem nú ríkja.

Það er til mikils að vinna að reyna að halda sér í góðu jafnvægi fram á vor og fylla og næra tómarúmið.

Engir 2 eru eins (Hver ert þú? Taktu prófið). Þeir sem eru viðkvæmar fyrir vata tíðinni eru jafnan sterkar vatatýpur sjálfar. Í þeim er mikið loft og eter/rými en minni jörð og vatn. Svo eru þeir sem eru af allt annarri grunngerð en kunna að vera í ójafnvægi. Því þurfum við ansi mörg að vera vakandi fyrir náttúrukröftunum sem nú eru undir og yfir og allt um kring og í okkur líka.

Hér eru nokkrar hagnýtar hugmyndir um jarðtengingu á þessu síkvika dularfulla og kalda tómarúms tímabili á norðurhveli jarðar. Eitt öflugasta meðalið er matur en miklu meira kemur til.

MATUR:

Borðaðu heitan ferskan og vel eldaðan mat. Forðastu þurran eða ósoðinn mat (sérstaklega salöt og mikið hrátt grænmeti). Segir sig sjálft.

Drekktu mikið af heitum vökva. Heitt vatn og jurtate halda líkamanum rökum. Þú getur útbúið ferskt engifer te með því að setja teskeið af fersku rifnu engifer í hálfan lítra hitabrúsa og fylla hana með heitu vatni.

Borðaðu meira af sætu, sýrðu og söltu og minna af beisku, herpandi og sterku.
Ghee / olíur, avókadó, bananar, mangó, ferskjur, sítrónur, grasker, gulrætur, rófur, aspas, kínóa, hrísgrjón, mung baunir, möndlur og sesamfræ eru nokkur dæmi framúrskarandi vata róandi matvæli. Kryddin sem fara best í maga á þessum tíma árs og losa um tómarúmið / loftið í meltingunni eru kanill, kúmín, engifer, kóríander, fennel, negull, salt, sinnepsfræ, svartur pipar, kardimommur og basil.

Ekki hafa áhyggjur ef matarlystin virðist sterkari en venjulega. Aftur, tómarúm, líka í okkur, er náttúruleg tilhneiging á veturna. Á sama tíma og það er mikilvægt að borða fylli sína á veturna er líka betra að losna við mikla svengd. Hún getur orðið ærandi. En auðvitað, ekki borða alltof mikið. Jafnvægið er málið.

MJÚK EFNI OG NUDD

Fatnaður úr mjúkum efnum í jarðlitum og jafnvel í mildum pastellitum róa vata orkuna. Róandi litir róa orkuna. Haldið ykkur heitum hvort sem er heima eða á vinnustaðnum og klæðið ykkur vel. Forðist dragsúg og gott er að verja eyru og háls sérstaklega vel.

Til að halda ykkur heitum er auðvitað frábært að hreyfa sig en líka gefa sér fluelsmjúkt líkamsnudd flesta morgna upp úr heitri og lífrænni olíu. Það eru bæði gömul vísindi og ný.
Abhyanga sjálfsnudd er magnað tæki til halda sér heilbrigðum. Nuddaðu líka höfuð og fætur.

SVEFN OG FRIÐSÆLD

Það er mikilvægt fyrir vatatýpur að hafa í huga að þetta er fólkið sem kann sér ekki hóf og gengur á gjarnan á sig líkamlega og andlega. Þess vegna þarf að gæta sérlega vel að svefninum. Þetta er líka fólkið sem ætti að hafa hugleiðslu hluta af lífi síni. Fyrir ofvirkan vata huga er hugleiðsla ein besta leiðin til að finna ró og kyrrð og komast í snertingu við ævintýrin. Þær áhugaverðu fréttir bárust nýlega að 22% landsmanna hafa nú þegar hugleiðslu í lífi sínu. Það eru í raun stór tíðindi, ef til vill menningarbylting? Þetta kom fram í þætti RÚV, Svona erum við, 16. nóvember sl.

Lestu meira, róaðu þig. Búðu til afslappandi svefnrútínu. Vertu í nærandi félagsskap. Aðventan er framundan og því tækifærin til að hitta fólk ærin. Góð hvíld á móti er nauðsynleg til jafnvægis.

STEINEFNI, OLÍUR og auðvitað D-vítamín

Bættu vítamínum við daglega rútínu; omega 3 ríkum olíum, d-vítamíni, steinefnum og b12. Það getur hjálpað þér að takast á við líkamlegan og andlegan pirring. B12 vítamín á skilið alveg sérstaka athygli. Það er af mörgum talinn hinn faldi vítamínskortur sem getur valdið mikilli þreytu og ekki síst bólgum í líkamanum. Sjá hér.

Talandi um að halda kroppnum heitum. Járn er aldrei mikilvægara en yfir vetrarmánuðina. Það gefur nefnilega hita. Þó ekki taka inn járn nema að þú þurfir þess. Láttu mæla þig. Ákkúrat vegna þessa er neysla á kjöti meiri yfir vetrarmánuðina (jarðtengjandi og járnríkt) en aðra mánuði ársins. Ef þú ert með kaldar hendur og fætur gæti líka verið gott að skoða sink og magnesíum. Sink styður við ónæmiskerfið og styrkir húð, hár og neglur líka. Sink þarf að taka inn reglulega því líkaminn safnar því ekki upp.

Svo er það hið margumtalaða magnesíum sem er að finna í frumum, vöðvum, beinum, vefjum og fleiru. Magnesíum er okkur lífsnauðsynlegt og styður við hundruð efnahvarfa í líkamanum. Magnesíum hefur verið tengt svo mörgu m.a. lægri blóðsykri, bættri hjartaheilsu (hjartað er viðkvæmara á veturna) og betri frammistöðu í líkamsrækt. Jafnvel þó að það sé mikið af magnesíumríkum matvælum í boði í dag er alls ekki víst að þú fáir nóg.

Máske er tómarúmið ekki svo dularfullt. Það þarf bara nærandi fyllingu og nokkur ævintýri.

 

 

 

 


Nokkur heit haustráð!

Haust. Mörg elskum við þennan árstíma. Eins mikið og við njótum hlýrra, sólríkra daga sumarsins, getum við varla horft framhjá undrum og litadýrð haustsins! Í þessum skrifuðum orðum eru margir að pakka niður sumarfötunum og ná í hlýju yfirhafnirnar. Undirbúningur fyrir kaldari tíð þýðir líka að það er gott að gæta betur að sér eftir notalegt sumarkærleysið.
Hér fylgir góður heilsutékklisti fyrir haustið.
heitt vatn 

Byrjaðu á ónæmiskerfinu

Byrjaðu að huga að þér á þínum. Ef þú átt börn er frábært að spá strax að ónæmisheilsu allra fjölskyldumeðlima og setja C-vítamín og jafnvel sink á dagkskrá. En líka hið sígilda sem við mörg þekkjum svo vel; Ólífulauf og ylliber og auðvitað D-vítamínið og B-vítamínin. Nú er tíminn til að leggjast vörn. Þar sem að minnsta kosti 70% af ónæmiskerfinu liggur í þörmunum er góð hugmynd að styrkja meltingarkerfið með vinalegum meltingagerlum og hafa helst alltaf forlífisgerla (prebiotic) í sömu blöndu.

Farðu í tékk

Vissir þú að fleiri hjartaheilsuvandamál uppgötvast á köldum mánuðum en á nokkurn öðrum tíma ársins? Það er vegna þess að kalt veður getur haft áhrif á blóðrásina og sem gerir vinnu hjartans erfiðari. Haustið er því kjörinn tími til að fara í hina árlegu heilsuskoðun til að tryggja að þú sért við topp heilsu áður en vetrarveðrin hefjast. Einnig inniheldur heilsufarssaga fjölskyldunnar margar vísbendingar sem geta hjálpað þér og þínum lækni / heilsusérfræðingi að byggja upp sterka heilsuáætlun. Ættingjar hafa tilhneigingu til að koma oftar saman yfir haust- og vetrarmánuðina, svo notaðu tækifærið og lærðu meira um heilsuarfleifð þína!!

Kitlaðu bragðlaukana

haustuppskeraHaustið er tíminn til að gæða sér á heilnæmum mat. Njóta uppskerunnar sem komin er í hús. Það er góð leið til að næra bæði líkama og anda af sannkölluðum fjörefnum. Ef þú hefur tök á, keyptu lífrænt og beint frá bónda. Skoðaðu hvað er spriklandi ferskt ákkúrat núna. Borðaðu eins og þú mögulega getur af næringarríku grænmeti. Haustið er líka tíminn til að prófa hollar súpur og gera tilraunir með krydd sem hafa lækningamátt. Má þar nefna t.d. túrmerik, kanil og engifer og allar grænu kryddjurtirnar. Og endilega líttu á hvað er að gerast í ofurfæðistraumunum sem eru oft fullkomnir fyrir kaldari tíma. Beinaseyði er hátt skrifað, andoxunarríka matcha teið líka, að ekki sé talað um alla ofursveppina, eins og ljónslappa, chaga og marga aðra. Kíktu líka á öflugar og nærandi olíur. Sem dæmi er black seed olían afar vinsæl um þessar mundir og skipar sannarlega heiðursess í ofurheimum.

Skoaðu æfingarrútínuna

Skipuleggðu hvernig þú ætlar að hafa úti æfingarútínuna í vetur svo þú guggnir ekki þegar það er orðið skítkalt úti. Hafðu mýktina þó alltaf með. Útivera og jóga? Líkamsræktarprógramm í raunheimum eða netinu? Dansað í stofunni? Finndu þína fjöl. Ef þú hefur ekki þegar gert það notaðu tímann til að finn nokkrar æfingar / teygjur / örhugleiðslur sem geta fylgt þér í vinnunni.

Og svo er það hárið og húðin...

Hefur þú veitt því athygli að húð þín bregst við kulda? Húð fólks verður jafnan aðeins daprari á kaldari og þurrari mánuðum ársins. Og hárið líka. Þetta er ekki ímyndun þín. Um leið og hitinn lækkar úti hækkar hitinn inni og loftið verður þurrt. Skortur er á raka. Þessar andstæður og hlaupin á milli hitastiga hafa sannarlega áhrif á húð og hár sem verður líflaust, þurrt og slappt.

Náðu aftur ljómanum með daglegri þurrburstun og góðum olíum. Svalaðu þyrstu hárinu þinni og hársverði með góðri hárolíublöndu eða hreinni og lífrænni jojoba-, möndlu-, sesam- eða roseip olíu. Nuddaðu líkamann hátt og lágt með hreinni með möndlu- eða sesamolíu eða sérstökum olíublöndum með jurtum sem henta þinni húðgerð. Svo er það hin margumrædda hýlaronicsýra sem er ótrúlegur rakagjafi. Hún dregur raka að húð þinni og viðheldur vökvajafnvægi. Hyalaronicsýra er frábær viðbót við húðkrem og olíur, sem bæði er hægt að bera á sig og taka inn. Í raun undursamlegt rakaboost.

Vökvaðu þig að innan líka

Mikilvægt er að passa upp á vökvajafnvægi líkamans á haustin sem sumrin. Líkamainn þarfnast vökva til svo margra verka. Fyrir meltinguna, steinefnajafnvægið, orkuna, húð, liði og flest annað. 2 til 3 lítrar dag er málið. Fer eftir stærð þinni og þyngd. Það þarf þó ekki alltaf að vera vatn beint úr krananum. Má líka vera te og allskyns góðir vökvar. En mikið vatn engu að síður. Nú bendir flest til þess að það sé miklu betra að hafa vatnið heitt / volgt en kalt. Margir bera mikið lof á það í dag að hefja daginn á stóru heitu glasi af vatni. Heitt vatn á morgnana virkji efnaskipti líkamans og örvi fitubrennslu yfir daginn. Það hreinsar líka þarma og minnkar vindang og bjúg. Það er þess virði að prófa þessa morgunrútínu.

Finndu réttu skammtastærðirnar fyrir þig

Á sumrin og í góðu fríum gleymum við oft hvað við erum vön að borða mikið að jafnaði. Ekki endilega halda þig við sömu stóru skammtastærðinar og í sumar. Mundu eftir hinu gullna jafnvægi á milli próteina, kolvetna og fitu. Bættu heldur í grænmetið sem margir kjósa nú að leggja sér til munns í upphafi máltíðar til að koma í veg fyrir blóðsykursflökt. Skoðaðu næringuna sem þú lætur ofan í þig. Haltu rútinu. Jólin kom áður en þú veist af.

Slökunarrútína

Prófaðu að bæta einhverju nýju inn í slökunarrútínuna þína, eins og t.d. morgunhugleiðslu eða síðdegishlugleiðslu. Komdu þér upp jóga/hugleiðsluhorni á heimilinu. Það gerir slökunina girnilegri. Spáðu líka í góðar aðlögunarjurtir sem gætu hjálpað þér að slaka á. Þær eru t.d. L-theanine, cordyseps, ashwagandha og burnirót. Þessar tvær síðastnefndu hjálpa okkur að takast á við streitu um leið og þær gefa okkur notalega orku.
Svo er annað og gott ráð: Síðdegisgöngutúrinn er betri en svefn. Mundu að náttúran er mesti heilarinn. Það gæti líka verið skynsamlegt að skoð lýsinguna heima og ekki síst hafa D-vítamínið í hávegum. Öll vitum við að líkaminn þarfnast sólarljóss til að framleiða þetta nauðsynlega næringarefni. Skortur á sól gerir það að verkum að þú ert líklegri til að vera með lítið af D-vítamíni, sem getur einnig stuðlað að þreytutilfinningu.

 

Umfram allt, njótið haustsins

Nokkrar heimildir:

Let’s Talk About Health: “Adding Years to Your Life, and Life to Your Years” By Ray Morgan Om.D Ph.D. https://books.google.com/books?id=LDdFDwAAQBAJ (Accessed 2/27/2018)

Cold weather and your heart. British Heart Foundation: https://www.bhf.org.uk/informationsupport/support/practical-support/will-cold-weather-affect-my-heart-condition

Water: How much should you drink every day? MayoClinic. https://www.mayoclinic.org/healthy-lifestyle/nutrition-and-healthy-eating/in-depth/water/art-20044256

https://www.medicalnewstoday.com/articles/319673#risks-of-drinking-hot-water

 

 


Vítamín og bætiefni sem gera sumarið svo miklu betra!

Við tengjum sumrið almennt ekki við veikindi og annasöm dagskrá kann að koma í veg fyrir að þú munir eftir að taka vítamínin þín í sumar. Hafðu samt nokkur vítamín og bætiefni í huga sem í raun geta gert sumarið svo miklu betra og skemmtilegra.

Verjum húðina innan fráSUMAR
Það er frábært að verja húðina innan frá og getað aukið úthaldið um leið. Hið víðfræga astaxanthin er það sem stendur upp úr. Ekki er verra ef blandan sem þú kýst inniheldur líka SOD (Superoxide Dismutase) sem er að finna í hverri einustu frumu líkamans. SOD ver húðina fyrir oxunarálagi og er talið koma í veg fyrir skemmdir á vefjum.

Hylauronic sýra
Hylauronic sýra er að finna í miklu magni í líkamanum þegar við erum ung en minnkar með árunum. Hylaurornic er þessi náttúrulega fjölsykra sem bindur raka kröfuglega í húðinni, en hefur líka góð áhrif á liði og augu. Hiti og þurrkur gengur gjarnan nærri okkar náttúrulegu hylauronic sýru. Það er því gott ráð að taka hana inn og bera hana á sig, ekki síst á sumrin.

Kröftugir góðgerlar skipta höfuðmáli
Ekki klikka á góðum meltingargerlum sem skipta miklu máli á sumrin þegar við erum að flandrast á milli staða, hitta allskonar fólk og þegar við erum að borða mat í ólíkum löndum með ólíkri flóru. Taktu inn daglega viðhaldsgerla en til að forðast sýkingar og eiga frábært ferðasumar mælum við með dúndur gerlinum Saccharomyces Boulardii.

Súper steinefni
Haltu vökva líkamans og vöðvum í toppstandi og hraðaðu endurheimt. Góðar (electrolyte) steinefnablöndur innihalda gjarnan nauðsynleg sölt eins natríum, magnesíum, kalíum og klóríð sem eru frábært rafvökva-eldsneyti fyrir líkamann.

Mjólkurþistill með öflugu sylimarin innihaldi
Mjólkurþistill er sannarlega fyrir þá sem leggja mikið lifrina í mat og drykk yfir sumartímann. Enda ber mjólkurþistill höfuð og herðar yfir aðrar lifrajurtir. Hann er bæði hreinsar og verndar og er besta fáaanlega næringin fyrir lifur. Vert er að minna á að mjólkurþistill er ein af fáum jurtum sem á sér ekkert jafngildi úr heimi hefðbundinna lyfja. Virku efnin í mjólkurþistli eru 4 og þekkt undir samheitinu silymarin og virka einnig á fjóra mismunandi vegu. Þau eur andoxandi, gera frumuhimnu og gegndræpi lifrarfruma stöðugri, hraða nýmyndun lifrarfruma og hægja á myndun kollagenþráða sem myndast við skorpulifur. 

Gættu líka að….
C-vítamíni sem getur verið gagnlegt við að koma í veg fyrir og meðhöndla sólbruna. Það getur einnig stutt ónæmiskerfið og hjálpað til við histamínviðbrögð við árstíðabundnu ofnæmi. Við eyðum meiri tíma utandyra. C-vítamín getur hjálpað til við að berjast gegn sindurefnum og aðstoða við að forðast sumarkvef sem gæti hægja á þér frá því að njóta allrar þessara skemmtilegu útivistar.

D-vítamíni. Þú gætir haldið að vegna þess að þú eyðir meiri tíma í sólinni þurfir þú ekki að taka D-vítamín á sumrin. Ef þú ert að nota sólarvörn (og þú ættir að gera það ) ertu ekki aðeins að koma í veg fyrir sólbruna, heldur einnig sumpart geislana sem skila D-vítamíni til líkamans. Ein rannsókn sýndi að skortur á D-vítamíni var jafn mikill á sumrin og á veturna. Kalsíumupptaka eykst einnig með D-vítamínuppbót, þannig að ef þú tekur kalsíum allt árið um kring, viltu ekki hætta að taka D-vítamín á sumrin.

Gleðilega sumarest!

 



 


Hvernig getum við verið unglegri lengur með einfaldri nálgun

Húð okkar og bein eru það sem birtist okkur þegar við horfum í spegil og líka það sem kynnir okkur fyrir heiminum. Öll erum við gangandi dæmi um áferð húðar, húðlit, lögun og stærð. Með okkar einstöku ásynd og líkama sem tjáir að mörgu leyti hver, eða í það minnsta, hvernig við erum.
Vissuð þið að það eru húðin og beinvefirnir sem næra hormóna okkar og halda okkur unglegum? Þeir styðja við líkamsstöðu okkar svo við getum staðið upprétt og vernda getu taugakerfisins til að taka við snertingu og bregðast við áreiti.

Það er hollt og líka lærdómsríkt að horfa á þessa mikilvægu þætti frá öðru sjónarhorni en við erum vön. Eitt af undirstöðuatriðum ayurvedafræðanna byggir á því hvernig þessi 5000 ára gömlu fræði flokka vefi líkamans í sjö talsins, þekkt undir “seven dhatus”, sem þó ná að taka á öllu því sama og Vestrænu vísindin og gott betur. Alltaf þó með heildrænni nálgun.

Vefirnir sem sjá um uppbyggingu líkamans hafa númerin fjögur og fimm. Fyrstu þrír vefirnir tengjast sogæðum (rasa), blóði (meda) og vöðvum (mamsa). Fjórði vefurinn (meda dhatu) er húð og fitulagið og fimmti vefurinn (asthi dhatu) tengist beinum. Vefur sex (majja) tengist taugum og sjöundi vefurinn (shukra) æxlunarfærum okkar.

OlíunuddEn höldum okkur við húð og bein, eða byggingarefni líkamans (4 og 5 vef), sem eru samofinir fituvefjum úr fitufrumum. Í þessum fitufrumum geymum við orku, viðhöldum ljóma og vinnum með tilfinningar okkar. Það er svo kollagen sem bindur efni húðar og beina saman, eða sameinar smurðu fitufrumurnar svo og úr verður bandvefur, sem festir þá við bein og gefur liðunum þessi gúmmíbandslíku liðbönd.
Húðin og beinin eru svo mikilvæg fyrir almenna heilsu og “hönnun” ásýndar okkar að það er vel þess virði að skoða þau sérstaklega með augum ayurveda til að sjá hvernig við getum stuðlað betur að vellíðan og heilsu okkar.

Meda Dhatu: fituvefurinn
Meda dhatu, eða 4 vefurinn vísar til fitufrumna líkamans sem mynda húðlögin okkar. Þau sem eru hönnuð til að vernda okkur. Orðið "meda" þýðir að smyrja (það er alltaf nauðsynlegt að smyrja líkamann), kjarni og það að veita viðspyrnu. Fitufrumur eru einnig til staðar í vöðvum, mýelínslíðri tauganna, í kringum hvert líffæri og þær umlykja alla sjö innkirtla okkar. Meda dhatu heldur okkur rólegum, köldum og uppteknum. Þetta er vefurinn sem veitir okkur líka nauðsynlega smurningu og frelsi til að hreyfa okkur. Meda dhatu er lykilvefur fyrir taugaboðefni sem búa til skynjun svo við finnum og upplifum heiminn í kringum okkur.

Húð okkar verndar okkur fyrir umhverfinu með sínum svitaholum, svo innri líkami okkar geti andað. Þær eru vissulega líka til þess gerðar að hreinsa úrgang eins og mjólkursýru, umfram fitu og svita. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita að svitaholur okkar geta einnig tekið upp eiturefni úr umhverfinu – bakteríur og allskyns mengandi efni - þar sem þær eru gegndræpar. Þetta þýðir að húðsjúkdómur getur hvort sem er orðið til að innan og brotist út eða utan frá og brotist inn. Enn og aftur smurning og vernd húðar er afar mikilvæg.

Asthi Dhatu: Beinagrindarvefurinn
Asthi eða 5 vefurinn er dregið af orðinu „stha“ sem þýðir að standa hátt. Beinin gera okkur kleift að halla, snúa, beygja og jafnvel að hringa okkur saman í bolta.

Ásamt beinum eru hár, neglur og tennur einnig mynduð af asthi dhatu (með nokkrum flóknari undirvefjum þó). Heilsa þeirra er háð fljótandi næringarefnum sem berast frá sogæðum, blóði, vöðvum og húðlögum.
Asthi dhatu er þó meira en bara byggingartrefjar. Þar býr kjarni okkar, eða það sem tengir okkur við formæður okkar og feður. Því inn í beinum okkar, tryggt þægilega innan í beinmergnum, búa RNA og DNA okkar. Þarna er lífreynsla geymd sem stuðlar að síbreytilegum erfðakóða okkar. Jafnvel þéttasta bein byrjar sem mjúkt brjósk. Þarna býr það sem getur gert okkur heilbrigðari og hamingjusamari með hverjum deginum og frá kynslóð til kynslóðar.

Merki um heilbrigði húðar og beina
Copy of WILDGRACE_novembre-9Þar sem þessir vefir eru á margan hátt sýnilegir með berum augum er hægt að gera sér grein fyrir ástandi þeirra. Einfaldlega með því að gefa því gaum. Til dæmis eru skýrt yfirbragð, jöfn húðáferð, sléttar og hreinar svitaholur og heilbrigður ljómi allt til merkis um heilbrigt meda dhatu. En líka jafnvægi í þyngd (hvorki of né van), slakur kviður (ekki spenntur) og hæfileikinn til að svitna þegar við hreyfum okkur. Í þessi tilliti er fróðlegt að rifja upp OJAS líkamans eða það sem heldur okkur ungum.
En hvað asthi dhatu varðar, þá er hægt að þekkja heilbrigðan beinvef á sterkri líkamsstöðu, góðri beinþéttni og getunni til að hreyfa sig af styrk og snerpu. Sterkar tennur, sléttar neglur og heilbrigt hár eru gjarnan merki um heilbrigð bein.

Hér er vit að staldra við dójurnar þrjár; vata, pitta og kapha og skoða á hvern hátt þær birtast í tengslum við húð og bein. Því þar eru heldur betur að finna ráðin til að halda góðu jafnvægi.

Vata í vefjunum sem er eitt algengasta ójafnvægið
Merki um of mikið vata í húðinni (sem við öll getum verið haldin, sama hver við erum í grunninn) er húð sem eldist um aldur fram, þurr húð, sprungin húð, hreistruð húð, skortur á blóðflæði og ljóma, marblettir koma auðveldlega, þurr hársvörður, dökkir blettir og kaldar hendur og fætur, auk viðkvæmra tauga.
Merki um vataójafnvægi í beinum: Stífleiki, sprungnir liðir, veik eða brothætt bein, þunnt eða brothætt hár, rendur í nöglum, viðkvæmni fyrir snertingu og hljóði.

Finndu jafnvægi: Sjálfsnudd/ Abhyanga (er lang besta meðalið): Stundaðu sjálfsnudd með vandaðri lífrænni líkamsolíu sem innihalda jurtir sem næra húðina. Má líka vera hrein sesam eða – möndluolía. Þetta er mjög mikilvæg aðferð sem í raun nærir alla sjö vefi líkamans. Gott að gera að minnsta kosti 4 x í viku. Góð húðburstun og náttúrulegur saltskrúbbur koma líka að góðu gagni.
Næring: Vandað kollagen, prótein og hyaluronic sýra, eða matur sem geymir mikið af þessum efnum, er málið og líka inntaka góðrar olíu. Allt þetta gerir okkur unglegri. Það er t.d. mikið magn bæði af kollageni og hylaronic sýru í beinaseyði. Og haldið ykkur fast því kartöflur og sætar kartöflur eru eitt hylaronic ríkasta grænmetið sem völ er á, sem og hreinar sojaafurðir.
Jurtir: Drekkið hlýja, endurnærandi jurtadrykki t.d. Með möndlum, döðlum og kardimommum. Ashwgandha er ein frábærra jurta sem hentar vel þeim sem eru í vataójafnvægi.

Pitta í vefjum
Merki um pittaójafnvægi í húðinni: Roði í húð, erting í húð, útbrot, viðkvæm eða pirruð húð, mikil svitamyndun.
Merki um pittaójafnvægi í beinum: Óþægindi í liðum, viðkvæmni fyrir meiðslum, viðkvæmar tennur, rautt eða pirrað tannhold, feitt hár og ljósnæmi.

Finndu jafnvægi: Sjálfsnudd/ Abhyanga: Notaðu kælandi olíu til sjálfsnudds. Sú best þekkta er lífræn kókosolía. Hún er alls ekki fyrir alla en er mjög gagnleg þeim sem glíma við pittaójafnvægi og eru með of mikinn hita í líkamanum. Það er líka til gagns að fara í epsomsalt bað með haframjöli sem róar húð og taugakerfi.
Næring: Drekktu t.d. aloe vera safa til að róa umfram hita.
Jurtir: Drekktu róandi, kælandi te eins og myntu te og CCF, blanda af kóríander, fennel og kúmíni hentar alltaf, raunar öllum líkamsgerðum.

Kapha í vefjum
Merki um of mikið af kapha í húðinni: Bjúgur safnast fyrir, bólgin augu, húðþurrkur, ofþyngd, svitna ekki við áreynslu, fitusöfnun á sérstökum svæðum líkamans, stíflaðar svitaholur, marblettir koma auðveldlega.

Merki um of mikið af kapha í beinum: Stækkun beina, uppsöfnun kalks, tannsteinn, viðkvæmni fyrir breytingum, bragði og lykt.
Finndu jafnvægi með: Sjálfsnudd/ Abhyanga: Notaðu hitagefandi og lífræna olíu með góðum jurtum til að verma og endurræsa líkamann og næra djúpt inn í vefi hans. Annað ráð er að þurrbursta húðina hressilega og/eða notaða saltskrúbb til að hreinsa húðina. Hér betra að þurrbursta oftar og nota olíu sjaldnar.
Sviti: Það er mjög mjög mikilvægt fyrir þá sem eru kapha ójafnvægi að ná að svitna reglulega með hreyfingu og /eða sauna og gufubaði.
Jurtir: Drekktu hreinsandi og öflug jurtate.

Húðumhirða opna

 

 

 


Hreinsum til og finnum sæta blettinn í okkur öllum!

 

Vorið er handan hornsins. Nýtt upphaf. Endurfæðing. Frost er að fara úr jörðu og fræin undirbúa komu sína. Á meðan þetta ástand varir er jörðin þung og blaut og þannig verður hún í fáeina mánuði í viðbót. Það er því ekki af ástæðulausu að vorhreinsun í víðasta skilningi þess orðs er mörgum hugleikin ákkúrat núna.

Kapha tímabilÞessi mót veturs og vors eru að mörgu leyti dásamlegur tími. Tilhlökkun liggur í loftinu. Þó er ekki víst að orka allra sé upp á sitt allra besta. Þegar horft er til þess að manneskjan er hluti af náttúrunni finna margir einmitt fyrir bjúg og þreytu og sumir miklu orkuleysi. Líkt og jörðin erum við mörg þurr og svolítið grá að utan en blaut/rök að innan. Þetta er ástæðan fyrir því að margar menningarþjóðir kjósa að huga sérstaklega að meltingunni á sama tíma og jörðin er að hreinsa sig og vakna til lífsins. Þetta tímabil kallast kapha í indversku lífsvísindum, Ayurveda, á meðan sumarið er að mestu pitta (eldur og vatn) og haust/vetur vata (loft og ether/rými). Að mæta vorinu í góðu jafnvægi er líklega ein dásamlegasta orkan (komum betur að því) en þegar kapha, sem vel að merkja býr í okkur öllum, er ekki í jafvægi getum við orðið pirruð, þung og hæg og með lélegan meltingareld.

Hvað bera að hafa í huga á vorin þegar kapha eykst í náttúrunni og okkur sjálfum?

Kapha orkan er allt í senn mjúk, svöl, stöðug, hæg, þung og olíu- og slímkennd frá náttúrunnar hendi. Margt af þessu eru mjög eftirsóknarvert en annað getur reynst krefjandi. Þessi eiginleikar geta birst með margvíslegum hætti í náttúrunni og líka í líkama og anda hverrar manneskju. Sumir af erfiðari þáttum kapha tímabilsins getur falið í sér þunga tilfinningu, svefnhöfgi og lága lífsorku. Birting kapha orkunnar er þó mismunandi í okkur flestum og á meðan sumum finnst gaman að vinna með vororkuna finnst öðrum hún nær óyfirstíganleg.

Tilfinningar sem fylgja kapha í ójafnvægi geta komið fram í áhyggjum, uppnámi og jafnvel sárri móðgunartilfinningu. En í hina röndina er að kapha orkan okkur mjög mikilvæg og stór þáttur í vellíðan okkar. Kapha í sinni fegurstu og bestu mynd byggir okkur upp, færir líkamanum mýkt og okkur myndi sannarlega skorta samúð og ljúfleika ef ekki væri fyrir kapha / vororkuna. Okkur myndi jafnframt vanta tilfinningu fyrir jarðtengingu, stöðugleika og sannri nærveru í lífi okkar. Við myndum missa af miklu. Þannig að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að gefa kapha orkunni gaum og koma henni í jafnvægi sem allra fyrst.

Gjafir kapha í jafnvægi eru kærleikur og samkennd

Fólk sem er sterkt kapha í líkams /hugargerð (taktu prófið) er jafnan fólkið sem er í góðu jafnvægi og mjög kærleiksríkt. Það býður kærkomin faðmlög sem er um leið grunnurinn til að jarðtengja vata orkuna og mýkja pitta orkuna. Flestir dýrka þessi faðmlög og kærleikann sem ósar af þessu hlýja fólki. Þetta er fólkið sem opnar heimili sín og gerir ekki upp á milli fólks. Kapha er elementið þar sem þokkinn býr sem flestir væru til í að bera.

Annað er að kapha (aftur í sínu besta formi) er traust. Kapha hefur sterkan strúktur og gefur okkur form, eins t.d. byggingu líkamans. Kapha er formið. Án kapha orkunnar í veröldinni myndi allt fljóta. Í samsiptum er enginn tryggari en kapha sem er raunverulegur vinur. Þegar kapha opnar sig þá er það vinátta fyrir lífstíð. Kapha er öguð. Hún fyrirgefur. Það skiptir líka öllu að kapha elementið gefur okkur smurningu, það er mænuvökvinn og nærir heilann. Kapha er djúsinn sem gerir okkur ungleg og slímhúðin sem verndar meltingaveginn. Líkt og jörðin fyrirgefur sterk kapha allt og að sjálfsögðu er sá sem er með mikið kapha mesti náttúruunnandinn. Ef þú ert að halda í gremju og getur ekki sleppt skaltu reyna að finna kapha orkuna í þér og fyrirgefa sjálfum þér og öðrum.

Hvernig er gott að ná kapha í jafnvægi

Núna er tíminn til að taka fallega á móti kapha orkunni eða vorinu, sem er þessi sæti blettur í okkur öllum. Það getur verið í formi örvandi athafna og hreyfingar en líka með því að hreinsa líkamann og borða léttari fæðu en við erum vön. Umskipti hafa átt sér stað. Vetrarfæðan hentar ekki lengur. Við þurfum líka að muna eftir því að halda líkama okkar heitum, þurrum og mjúkum. Til þess er hægt að nota t.d. allskyns jurtir sem eru sterkar, beiskar og herpandi og rífa sig í gegnum kerfið og örva það. Um leið er lag að minnka sætu og salt (sjá brögðin sex í Ayurveda).

Allt sem þú þarft að gera á þessum tíma árs er að koma kapha-nu í þér í jafnvægi og lifa þannig í sátt og samlyndi við náttúruna. Það sem kemur t.d. í veg fyrir að kapha sé of blaut á þessum tíma árs eru þurrar og herpandi jurtir eins og túrmerik og engifer sem draga úr bjúg og slími í líkamanum og það er gott að fá sér svartan pipar og græna fæðu ofl. sem örva meltinguna. Jurtablöndur sem geta reynst sérlega hjálplegar á þessum tíma árs eru triphala, sem er hin milda hreinsun og góðar grænar jurtablöndur. Þá er gott að þurrbursta húðina sem aldrei fyrr. Burtaðu hana bleika, myndi einhver segja. Og ef húðin á þér er eins og þurrt gras er frábært að bera á sig olíu. Hresstu við sogæðakerfið eins og þú mögulega getur og hreyfðu við vökvum og vessum líkamans.
Mundu líka að faðma fólk og rækta í þér það besta.

selfcare 2

Í stuttu máli: Það sem heldur kapha í góðu jafnvægi er meira og minna öll fæða sem er beisk, sterk, samandragandi og súr. Kíktu á kryddin, aspasinn, kirskuberin, kitsaríð og allt það. Það sem kemur kapha úr jafnvægi á vorin er of mikið sætt (það á líka við um mjólk og kjöt) og of þungur og einhæfur matur.

Gleðilegt kapha tímabil!

 

 

 


Að leggja sig, eða ekki leggja sig. Það er spurningin?

 

Hvern langar ekki að leggja sig um miðjan dag eða síðdegis á köldu og myrku mánuðum ársins?

Svefninn hefur verið mikið rannsakaður síðustu misseri vegna mikillar aukningar á svefntruflunum og megin niðurstöðurnar á lélegri nætursvefni er truflun á dægursveiflu, sem kölluð hefur verið líkamsklukkan. Þetta vita margir. Svo almenna svarið við því hvort æskilegt sé að að leggja sig á daginn er nei.

En hvað hafa gömlu lífsvísindin um málið að segja?

Ayurveda eru auðvitað náttúruvísindi. Ef vestrænu vísindin eru skoðuð með tilliti til svefns þá hafa gömlu og nýju vísindin komist að sömu niðurstöðum sem er að við erum öll háð líkamsklukku / dægursveiflu. Í raun er manneskjan eins og blóm. 

Ayurveda fræðin eða vísindi lífsins hafa annars þetta um málið að segja:
Svefn er mikilvægur hluti lífs okkar. Magn og gæði svefns hefur mikil áhrif okkur. Og stundum úrslitaáhrif á heildarorkustig okkar og daglega líðan. Í ayurveda eru 3 stoðir sagðar standa undir góðri heilsu. Það eru svefn, mataræði og orkustjórnun. Þegar öllum þessum stoðum er sinnt gætilega er lífið í jafnvægi og jafnvel auðvelt. Í hinum klassísku ayurveda textum Astanga Hrdayam segir: "Hamingja og óhamingja, næring og örmögnun, styrkur og veikleiki, kynferðislegt atgervi og getuleysi, þekking og fáfræði, líf og dauði - allt er háð svefni."
Það er því greinilega mikil pressa á manneskjunni að fá góða næturhvíld!

Leggja sig

En hvað ef svefninn kemst ekki fyrir í einni nóttu, eða ef þú ert einfaldlega örmagna? Ættir þú að gefast upp fyrir öllum hneykslisröddum um hvíld á daginn? Þar sem ayurveda á svar við flestu fer það eftir ýmsu. Meira úr fornu textunum: „Svefn á óviðeigandi tíma, umfram eða alls ekki, eyðir hamingju (heilsu) og má líka við kalaratri (gyðju dauðans).“
Þetta er stór orð.

Almennt ráðleggja ayurfræðin að fólk leggi sig ekki daginn, ekki frekar en vestrænu svefnvísindin hafa að undanförnu ráðlagt með gagnreyndum rannsóknum.

Ef þú finnur fyrir þreytu síðdegis settu kannski fæturna upp við vegg eða farðu í gott jóga nidra (stundum er kallaður jógískur svefn) sem losar um streitu og bætir gæði nætursvefns. Farðu jafnvel út að ganga í síðdegissólinni eða þeirri birtu sem í boði er. Það getur hindrað losun melatóníns, syfjuhormónsins.

Semsé síðdegissvefn eða dagssvefn er ekki góður ávani fyrir heilbrigða fullorðna manneskju í venjulegu lífshlaupi. Engu að síður eru nokkur sjúkdómstilvik þar sem ayurveda bókstaflega ávísar dagsvefni, þ.e. ef það er ekki orsök vandans.

Þetta er þó kannski ekki alveg svona klippt og skorið. Ef þú þráir síðdegissíestu er skásti kosturinn fyrir dagssvefn heitir sumardagar á fastandi maga. Þegar næturnar eru stuttar (við þekkjum það vel hér) fer vata (loftið/ether) orkan gjarnan úr jafnvægi og líkaminn þornar.

Talað er um að svefn á daginn auki kapha eða jarðar- og vatnsþætti líkamans sem eykur raka og smyr vefi líkamns. Dagsvefn getur því verið fullkomið móteitur við vata þurrki á sumrin.

Á öðrum árstíðum, þegar vatns- og jarðarþættirnir eru sterkari (hugsaðu um síðla vetrar og byrjun vors), mun svefn á daginn auka kapha á þann hátt sem er ekki er talið æskilegt. Þú gætir vaknað í slefpolli - köld, þrútin og syfjuð og með löngun í kökusneið.

Asanas ullarmotta hvít 3

Kjarni málsins? Ef þér líður illa á hundadögum sumarsins gefur ayurveda þér leyfi til að fá þér lúr. Restin af árinu? Farðu út og láttu náttúruna gefa þér orku eða farðu í jóga nidra.

 

 


Sjálfsumönnnarstraumarnir. 10 áhugaverðustu heilsutrendin 2023.

 


Að halda sér í formi og heilbrigðum fellur aldrei úr gildi en hvernig við náum heilbrigði og vellíðan er alltaf að þróast. Rétt eins og aðrar atvinnugreinar er þróun í heilsu- og vellíðan stöðugt að breytast. Þegar tækninni fleytir fram, þekkingin eykst og nýjar aðferðir eru kynntar verða breytingar á því sem verður vinsælt. En líka þegar við enduruppgötvum fornar hefðir sem virka um leið og skiljum við hvers vegna þær virka.
Nú eru sérfræðingar á sviði heilsu- og sjálfsumönnunar hver af öðrum að spá í strauma og stefnur fyrir árið 2023.

Áður en lengra er haldið er áhugavert að skoða þessa strauma með tilliti til kynslóða. Hvað hver kynslóð vill fá út úr sinni heilsurækt? Nýlegar erlendar kannanir sýna nefnilega að hugmyndir kynslóðanna um góða heilsu eru ekki endilega nákvæmlega þær sömu. T.d. segir kynslóðin sem nú er á aldrinum 18 til 24 ára aðalastæðuna fyrir sinni heilsurækt vera andlegs eðlis. Þau vilji fyrst og fremst halda geðheilsunni góðri. Þeir sem eru 60 ára og eldri horfa gjarnan í hjartalínuritið. Sú kynslóð sem er í miðið einblínir meira á efnið. Þar snýst flest um að styrkja kroppinn, spá í hrukkur og líta sem best út. Þetta er auðvitað ekki klippt og skorið því fólk á öllum aldri spáir í andann og aðrir meira í efnið. Þetta gefur þó ákveðnar vísbendingar um ólíkar hugmyndir kynslóðana.

En óhætt er að segja að heilsu- og sjálfumönnunarstraumar 2023 séu allskonar því þeir spanna allt frá andlitsjóga að batakokteilum og frá reiki jóga og efnaskiptabyltingu til djúprar ástar og tengingar við náttúruna.
tré

 

Hungur eftir dýpri tengingu / lækningu
Byrjum á reiki, því það vill svo til að núverandi heilsu- og vellíðunaráhuginn beinist þangað. En hvað er reiki? Það vita nú þegar ansi margir. Það er ákveðin tegund af orkutækni sem gefur fólki færi á að slaka á og margir vitna um að reiki dragi úr streitu og kvíða. Allt með mildri snertingu. Þetta getur verið frábær leið til að létta á langvarandi verkjum og spennu, stuðla að sjálfsheilun og til örva ónæmiskerfi líkamans. Þær sem eru fróðastar um reiki segja það leiða okkur inn í meðfætt jafnvægi og þann heilunmátt sem við öll búum yfir. Þegar við lifum þessa visku erum við það sem kallað er í vakandi vitund og um leið afslappaðri. Þá á sjálfsheilunin sér stað.

 

Reiki og jóga – saman? Já, takk!

Reiki rennur inn í jóga! Jóga- og hugleiðsluaðferðir eru síbreytilegar. Undanfarið hafa yin jóga, jóga nidra og tónheilun, allt þetta mjúka, fest sig í sessi (ekkert “one hit wonder” hér) og að sjálfsögðu hefur allskonar hugleiðsla náð mikilli útbreiðslu. Margir kjósa að gera meira af endurnærandi æfingum sem eru hægar, meðvitaðar og andlegar. Þetta er málið um þessar mundir. Þá er bara spurningin; hvers vegna ekki að sameina reiki og jóga? Praktísk reiki heilun og jóga gæti verið verið ávísun á eitthvað nýtt og spennandi.

Andlitsjóga

Nýtur vaxandi vinsælda. Þökk sé andlitsjógakennaranum Koko Hayashi. Andlitsjóga felur í sér nudd og æfingar sem örva vöðva, vefi, húð og sogæðakerfi. Andlitsjóga mýkir og slakar á andlitsvöðvunum og dregur úr spennu, streitu og áhyggjum. Margir húðlæknar taka undir og segja að andlitsjóga sé að verða mjög vinsælt hjá fólki sem vill bæta húðheilsu sína.

Snjalltæknin og svefninn

Um snjalltæknina þarf vart að fjölyrða og heldur ekki um hversu mikið henni fer fram. Þess er ekki langt að bíða uns tæknin verður viðurkennd heilsufarsmæling í heilbrigðiskerfinu. Við í Systrasamlaginu getum t.d. staðfest að margir hafa leitað til okkar undanfarið með ákveðnin bætiefni og vítamín í huga sem þau mæla svo með ýmis konar snjalltækni. Það er gaman að segja frá því að mörg hafa komið vel út í þessum mælitækjum (t.d. á snjallúrunum), sérstaklega þau sem snúa að því að róa, bæta blóðrás, draga úr streitu og bæta svefn. Þá erum við komin að hugtakinu dægurheilsa og ein af undirstöðum hennar er svefninn. Suðið í kringum svefninn hefur haldið fyrir okkur vöku. Áherslan á að fá góðan nætursvefn hefur þegar leitt til breyttra venja hjá mörgun. Má þar telja fjölgun óáfengra drykkja á kostnað áfengra, bætt mataræði, betri svefnrými og færri skynjara í svenherberginu. Svefn flokkast loks sem hluti af dægurheilsu. Það eru sjálfgefin mannréttindi að fá að sofa vel og flestir leita allra leiða. Í dag á ekki nokkur manneskja að þurfa að missa svefn yfir svefninum.

Óáengir batakokteilar!

Hér er alls ekkert nýtt á ferð. En staðreyndin er sú að þessir kokteilar halda áfram að bæta líðan fólks. Óáfengur kokteill með bataívafi? Þeir sem framleiða heilsusamlega óáfanga drykki og kokteila segjast aldrei hafa séð eins stórkostlegan vöxt. Kannski er það vegna þess að betri óáfeng drykkjarmenning dregur úr félagslegum þrýstingi á þá sem kjósa að hvíla sig á eða drekka ekki áfengi. Góðum batadrykkjum er fagnað um allan heim sem skemmtilegum samkvæmis drykkjum, hvort sem er á kaffihúsum, eftir æfingar, upp á fjöllum eða í partýum.

Náttfatatískan nær flugi

Talandi um svefninn sem er máske er að festa sig í sama mikilvæga sessi og vökustundirnar. Mörg tískuritanna hafa fullyrt að það verði skollin á dúndur náttfatatíska vorið 2023 og margir af þekktustu hönnuðum heims eru að leggja sig fram um að hanna falleg náttföt. Hér er auðvitað verið að vísa í að náttföt séu alls ekki bara til að sofa eða kósa sig í (þótt það megi líka). Heldur séu þau hugsuð til daglegra nota. Ekki síst til að skemmta sér í. Það verður í góðu lagi að sofna í fallega djammgallanum árið 2023.

Biophilíkar æfingar fyrir líkama og anda

Orðið biophilia er upprunnið úr grísku og “philia” þýðir “ást á”. Margir kannast við orðið af samnefndri plötu Bjarkar Guðmunsdóttir frá 2011 sem leiddi til kyngimagnaðs samstarfs hennar við David Attenborough. Biophilia þýðir bókstaflega ást á lífinu eða lífverum. Þetta eru manneskjur sem hafa djúpa rótgróna ást á náttúrunni sem þær byggja á því innsæi og þeim náttúrulega drifkrafti sem er innprentað í DNA-ið okkar. Þá erum við komin að því sem málið fjallar um varðandi þetta heilsutrend sem er græn athöfn og meðvitaðar hreyfingar í náttúrunni. Með þessum grænu athöfnum sækjast iðkendur eftir heildrænni skynjun. Líkamsþjálfum með útsýni yfir vatnið, fjallasýn, birtuna og alvöru fossa og ekki síður vilja þau finna jörðina undir fótum sér, lyktina af grasinu, moldinni og blómunum og heyra gnauðið í vindinum.

Efnaskiptabyltingin

Flest ef ekki allt heilsuspáfólkið er fullvisst um það að það verði bylting í efnaskiptaheilbrigði árið 2023. Við lærðum árið 2022 að borða (aftur) prótein, kolvetni og fitu í einni og sömu máltíðinni. Eitthvað sem gömlu heilsuvísindin hafa flest mælt með. Þegar allt kemur til alls er ekki víst að allir efnaskipasjúkdómar séu skrifaðir stjörnurnar. Bætt efnaskiptaheilsa er rétt handan hornsins og möguleikarnir fleiri en nokkru sinni áður. Nú er farið að bera á því að fólk geti fylgst með öllu þessu sjálft (sem er langt umfram BMI stuðulinn), þ.e. eigin líkamsástandi, heilbrigði beina, efnaskiptahraða, hjartaheilsu, næringarástandi og hormónajafnvægi.

Tenging við eitthvað ennþá meira

En aftur að andlegu heilsunni því líklega er hún ekki bara um leitina eftir jafnvægi. Á sama tíma og markaðssetning geðlyfja hefur aldrei verið meiri (og gífurlegar breytingar liggja loftinu) hefur sjamanismi sprungið út. Hinn óséði heimur er svo áhugaverður fyrir marga vegna þess að mörgum þykir það sem við skynjum í okkar efnislega heimi alls ekki nóg. Tenging við eitthvað svo miklu miklu meira liggur í loftinu.

Sjálfsuppgjör og hófsemi

Þegar öllu er á botnin hvolft hafa síðustu áratugir snúist um svokallaðan sjálfsvöxt. Flest viljum við verða betra fólk. Uppgjörin munu halda áfram. Að sjálfsögðu. En kannski muntu vaxa meira með því að vilja ekki vaxa? Kannski er það að samþykkja og njóta hinn nýi vöxtur. Það gæti nefnilega verið fræðilegur möguleiki á því að með því að sætta okkur við minna verður okkur boðið upp á svo miklu meira. Að samþykkja og einfaldlega njóta verður máske hinn nýi vöxtur.
Við munum sætta okkur við minna því það býður upp á meira.

 

Heimildir og innblástur: Héðan og þaðan.

 


HAUSTIÐ OG VINDGANGURINN Í MELTINGUNNI

 

Haustið er mætt með tilheyrandi lægðum og “vindgangi”. Með tilliti til frumalfanna í náttúrunni má segja að haustið einkennist af þurrki, hreyfanleika, svala og sumpart léttleika. Ef við, þ.e. líkami okkar og hugur, eða lífstíll endurspeglar nákvæmlega þessa eiginleika (sem hann gerir hjá mörgum) eru meiri líkur á því að við tæmum „lífsbrunninn“ (ojasið) okkar. Ef við hins vegar gerum það sem er andstætt þurrki, “vindgangi” og svala getum við viðhaldið orkunni. Þannig verðum við áfram mjúk, liðug, orkumikil, með ljúfa meltingu og án vindgangs. En endilega höldum í léttleikann nema í matnum.
VindverkirHaustið er tíminn til að hugsa um það sem nærandi og notalegt og það sem hlýtt og jarðtengir okkur.

Hér eru nokkur einföld ráð til að styðja við gott jafnvægi einmitt núna, en líka hvenær sem er ársins þegar haust/ vata orkan (lofti og eter/rými) tekur yfirhöndina.
Þessi góðu ráð eiga uppruna í ayurvedafræðum sem eru fyrir löngu orðin sígild vegna þess að þau virka.

 

  • Haustið er tími heitrar og jarðtengjandi fæðu. Súpur, sætar kartöflur, pottréttir, hafragrautur, allskyns kornmeti, olía og ghee er það sem margir sjá í hyllingum núna. Þá er innsæið að öllum líkindum rétt stillt. Það á einnig við ef þig langar í eitthvað sætt. Láttu sætuna endilega eftir þér en beindu sjónum þínum heldur að lífrænum döðlum, hunangi og hlynsírópi. Sæta nærir vefi okkar, gerir okkur safarík og minnkar loftið í meltingunni. 

  • Bættu verk- og vindeyðandi kryddum við í matinn þinn; kryddum sem verma án þess að vera of sterk. Notaðu kryddin bæði í heitan og kaldan mat, eins og súpur, kássur, grauta, langelduðu ofnréttina en líka þeytinginn. Kryddin sem fara best í maga á þessum tíma árs og losa um loft í meltingunni eru kanill, kúmín, engifer, kóríander, fennel, negull, salt, sinnepsfræ, svartur pipar, kardimommur og basil. Úff, hvað meltingin verður miklu notalegri. 

  • Forðist þurran og lítinn eldaðan mat eins og þið mögulega getið. Safakúrar, salöt, búbblur og hráfæði eru ekki endilega málið á þessum tíma árs.

  • Svefninn skiptir höfuðmáli á haustin. Þegar “óregla” og vindgangur er í veðri og meltingu er mikilvægara en áður að hafa fasta svenrútinu. Fara snemma að sofa og vakna snemma og gæta þess að fá í það minnsta um 8 klukkustunda svefn. 

  • Það er líka mikilvægt að borða reglulega og hér er gott plan. Morgunmat ætti að borða á milli 7:00 og 8:30, hádegismat milli 11:00 og 14:00 og kvöldmat milli 17:30 og 19.00 en þó frekar fyrr en seinna. Hádegismaturinn ætti í raun alltaf að vera stærsta máltíð dagsins. Það eru bæði gömul sannindi og ný að vel samsettar og regulegar máltíðir viðhalda blóðsykursjafnvægi og minnka loftgang. 

  • Stundið sjálfsnudd daglega með góðri lífrænni olíu, hvort sem er með hreinni eða jurtablandinni. Einbeitið ykkur sérstaklega að fótum, þ.e. ef þið náið ekki að nudda allan líkamann nuddið þá allavega fæturnar. Það jarðtengir. Sjá hvernig þú berð þig að.
     

  • Íhugið daglega. Það getur verið í formi lesturs, hugleiðslu, göngutúra eða annarra rólegra tíma. Það viðheldur góðri orku í gegnum haustið og alveg fram yfir jól.

 

Þekktustu jurtirnar til að draga úr haust/vata vindgangi í meltingu eru blanda af kóríander, fennel og kúmíni, svokallað CCF te.

Kóríander: Kælir allar brennandi heitar tilfinningar í líkamanum. Róar pirring í meltingarkerfi. Styrkir meltingu. Lægir vindgang og uppþembu.

Kúmín: Sanskrítheiti þess þýðir einfaldlega „að stuðla að meltingu. Meðhöndlar slaka meltingu. Hjálpar til við frásogun næringarefna. Lægir uppþembu og loftgang.

Fennel: Hitar meltingu, kemur í veg fyrir þrengsli og stöðnun í meltingunni. Hjálpar til við meltingaróþægindi, krampa, ógleði, vindgang og almennt slæma meltingu.

Gott að hella upp á/sjóða góðan slatta daglega. Drekktu þetta te heitt í byrjun dags og svo volgt fram eftir degi. Skoða.

Einnig gæti hjálpað að taka inn Digestive Aid, Betanine HCL og ekki gleyma mjólkurþistli. Sjá allt um það í þessarri Smartlandsgrein. 

Feykigott ráð við haustlægðum og vindgangi er að bregða sér í 3ja daga endurræsingu Systrasamlagsins því nú er lag að mæta sér með heitum, kærleiksríkum og notalegum hætti. 3ja daga endurræsing lægir heldur betur öldurnar í líkama og sál.

 

Njótið.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband