Færsluflokkur: Bloggar

OM gegn ennis- og kinnholusýkingum

Hið forna hljóð OM, upphafshljóð allra hljóða og æðsta mantra jóganna er sannarlega mögnuð. Hún róar hugann og færir okkur inn í núið en hefur líka aðrar mjög áhugaverðar hliðar sem vísindamenn við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi komust að fyrir nokkru. Þeir sem söngla OM reglulega halda nefnilega ennis- og kinnholunum hreinum, segja vísindamennirnir. Gott að vita í miðri kvefpestatíð.

Ljósmynd af vef Women´s HealthÞað er umfram allt hljóðið eða víbrarnir sem OM-ið/ymurinn gefur sem heldur ennis- og kinnholum hreinum. Vísindamennirnir Jon Lundberg og Eddie Weitzberg komust fyrir tilviljun að því að ymur (humm/OM) opnar eða loftræsir ennis- og kinnholurnar. Þetta sáu þeir þegar þeir rannsökuðu öndun í tengslum við nítríð oxíð, sem einnig skilaði þeirri merku niðurstöðu að þeir sem söngla með þessum hætti losa köfnunarefni við útblástur fimmtánfalt meira samanborið þá sem anda út án hljóða. Jafnframt gáfu mælingar á útöndun þeirra sem eru með heilbrigðar ennis- og kinnholur skýrar vísbendingar um meira súrefni flæði á milli ennis- og kinnhola og nefs.

Sænsku vísindamennirnir skilgreindu OM-ið sem útöndun með hljóði og munninn lokaðann. Um leið gerðu þeir grein fyrir því að OM hefur nákvæmlega sömu áhrif og það að humma og söngla. Því allt í senn OM, ymur, söngl og humm skapa kjörskilyrði fyrir flæði súrefnis fram og til baka um ennis-, kinnholur og nefgöng. Þannig nær öndunin að opna agnarsmáar holur sem geyma mikið magn bifhára. Þessar holur tengja nefið við ennis- og kinnholurnar. Við það ná bifhárin að þorna sem minnkar líkur á sýkingum.

Fyrir þá sem ekki vita eru ennis- og kinnholurnar settar saman úr fjórum pörum af loftgötum sem liggja bakvið og í kringum nef og augu. Þeirra hlutverk er að sía loftið og halda sýklum í skefjum og frá því að komast niður í lungu. Til að koma í veg fyrir að vírusarnir orsaki kvef bólgna ennis- og kinnholurnar upp en ef slímhúðin þornar ekki byrja sýklarnir að fjölga sér. Það getur valdið þrálátri ennis- og kinnholusýkingu sem er líka þekkt sem skútabólga.

Árlega leitar ört vaxandi fjöldi Íslendinga til lækna vegna ennis- og kinnholusýkinga og niðurstaðan er gjarnan ávísun á sýklalyf. Sýklalyf hafa vissulega kosti, en líka marga galla sem tengjast í flestum tilfellum röskun á meltingaflóru. Þó eru margir íslenskir ofnæmislæknar meðvitaðir um það og mæla fremur með notkun Nefpotts, sem á líka rætur í indversku jógafræðunum, en sýklalyfjum. Það er spurning að þeir fari að benda fólki á kosti OM-sins einnig?

Prófessors Lundberg mælir alltént með daglegu OM-i, hummi, söngli eða ymi.

ganpati mehndi designs 9Um Om (Aum):

OM er æðsta og helgasta mantra (hljóð) austrænnar speki. Deilt er um merkingu hennar í smáatriðum, en til að flækja ekki málin er hún einfaldlega tákn alls sem var, er og verður. OM samanstendur að þremur atkvæðum sem tákna jörðina, andrúmsloftið og himininn. Indverskir heimspekingar trúa því að almættið hafi í upphafi skapað þetta hljóð og að alheimurinn hafi vaxið af því.

Heimildir m.a. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/18951492


Önnur sýn á sætu!

ayurveda healthy dietSykurlaus September. Sannarlega verðugt viðfangsefni. En það eru líka fleiri hliðar á því sæta og margar mjög áhugaverðar. Vissuð þið að þegar formæður okkar og -feður fundu sæta bragðið af matnum voru þau öruggari um að hann væri ekki eitraður eða skemmdur? Náttúrulegur sætur matur er okkur jafn nauðsynlegur og önnur bragðgæði lífsins. Og almennt talinn sá allra næringarríkasti.

Í Ayurveda, systurvísindum jógafræanna eru bragðgæði lífsins sögð sex talsins. Öll okkur jafn nauðsynleg. Mælt er með að við neytum allra bragða í hverri máltíð, eins og ég hef þegar skrifað um hér. Þetta eru súrt, salt, sterkt, herpandi, beiskt og sætt. Já, sæta bragðið er jafn mikilvægur þáttur lífsins og allt hitt. Færri vita að hin náttúruleg sæta (þó ekki unninn sykur) geymir jafnan langmestu næringuna. En hefur að auki marga aðra mjög mikilvæga kosti.

Þeir sem hafa kynnt sér þó ekki sé nema lítinn hluta Ayurveda fræðanna vita að við erum sett saman úr þremur megin dosum sem flokkast sem vata, pitta og kafa. Element sem þurfa að vera í jafnvægi fyrir betri líðan og meiri lífsgæði.

Til þess að gera langa sögu stutta flokkast sætt innan þessarra marga alda gömlu fræða sem kælandi fyrir líkamann og fullnægir gjarnan þörfum okkar (með einhverjum undantekningum þó). En auk þess að vera yfir höfuð mjög nærandi færir sætan okkur jarðtengingu. Hið sæta þykir því sérlega góð haust- og vetrarfæða (þegar vata orkan, sem nú er ríkjandi með sínu sveiflukennda veðri og vindum, nær hámarki). Ef góðrar sætu er neytt er sagt að hún ýti undir langlífi, efli þrótt, komi jafnvægi á vökvabúskap líkamans og styrki vefina. Það er í raun bara bragðið sem getur blekkt okkur til að borða of mikið. Ef við borðum of mikið sætt kemst kafa orkan í okkur (sem kennd er við frumefni vorsins, þetta blauta og þunga) í ójafnvægi og við þyngjumst. Sætan er jú vissulega þung, ólíukennd og rakagefandi. Þess vegna getur hún hægt á meltingunni. En hér er eitt það allra skemmtilegasta úr Ayurveda fræðunum. Í vissum tilfellum, ef fólk vill léttast, er mælt með því að það borði eftirréttinn fyrst (sem mig hefur alltaf dreymt um að verði sett í lög). Sætan getur nefnilega í senn verið næringarrík og saðsöm og dregur því sannarlega úr matarlyst um leið og hún gefur góða fyllingu. En nú er komið að kjarna málsins: Hvað er það sem flokkast sem sæt fæða með augum Indversku lífsvísindanna? Það eru heilir ávextir, hunang, döðlur, mable síróp, molassi, lakkrísrót, mjólkurmatur, kjöt, fiskur, olíur, korn, hnetur, möndlur, sesam- og sólblómafræ og hrísgrjón. Allt þetta þarf þetta þó að vera heilt og óunnið. Svo það liggur í augum uppi að hin sætu bragðgæði lífsins eru bráðholl.

Það er líka þannig að hver bragðflokkur hefur langtímaáhrif á efnaskipti okkar eftir að meltingunni lokið. Það er gott að hafa í huga því öll næringarefni setjast að í vefjum okkar. Í Sanskrít er til orðið vipak en það vitnar um dýpri næringu fæðunnar. Þannig færir vipak sæturnnar okkur djúpa næringu og uppbyggingu, vipak hins súra eykur meltingareldinn og vipak þess sem er beiskt eykur hreinsun.

Þó er ekki allt sem sýnist og margt fíngert í lífinu sem áhugavert að skoða nánar. Dæmi um ólíkar hliðar hins sæta er að sætur mangó er hitagefandi og eykur brennslu á meðan t.d. medjool döður, sem eru sannarlega sætar, eru kælandi og hægja á meltingunni. Við erum semsé lengur södd af döðlum en mangói.

Megin vandamál Vesturlandabúa með augum indversku lífsvísindanna er hreint ekki sæt fæða, heldur að 93% af fæðu okkar er sæt. Það bitnar á öðrum bragðgæðum lífsins. Þó er sannarlega í lagi að borða mikið af sætri fæðu svo fremi sem önnur bragðgæði lífsins fylgi með. Því enn og aftur, það sem er náttúrulega sætt er næringarríkast. Þetta merkir líka að við getum nýtt sæta fæðu til að rétta okkur af ef okkur skortir næringu, erum kraftlaus og líka ef við glímum við veikindi sem ganga nærri okkur. Sæt fæða flýtir mest allra bragða fyrir endurreisn skaddaðra vefja og vefja sem eru þurrir og stífir. Góðar olíur byggja upp taugaslíðrin, mýkja stífa liði og ýta undir frjósemi. Og hér enn ein góða sætufréttin: Samkvæmt efnafræði Ayurveda hlutleysir beiska bragðið það sæta. Það kemur til að því að sætan býr yfir sömu eiginleikum og vatn og eldur og beiskt bragð eru af sama meiði. Vatn og eldur eru andstæður. Það er því góður siður að finna jafnvægi milli þess sæta og beiska í lífinu almennt.

Samantekt um sætu: Hið sæta bragð getur sannarlega verið varasamt fyrir holdið, ef rangt er með farið. Það er augljóst. Hitt er að sætan ýtir undir endurnýjun og viðhald vefja. Fremst í flokki sætu bragðgæðanna eru flókin kolvetni og góðar olíur. Í sumum tilfellum getur sæt fæða ekki einungis lagað taugaslíður og byggt upp vefi heldur einnig unnið bug á þurrki hárs, húðar og liða. Það sem flokka má sem sæta fæðu samkvæmt Ayurveda fræðunum kemur jafnvægi á hormónanna og hjálpar okkur að gróa sára okkar eftir skurðaðgerðir og meiðsli og ýtir undir frjósemi. En umfram allt þarf sæta fæðan að vera heil og óunninn og gæðin góð. Auk þess sem hana þarf að borða með því beiska og öllu hinu. Þannig njótum við ávaxta sætunnar okkur til góðs.

 

 

.

 


Þarftu sterkar verkjatöflur? Hvernig væri að prófa hugleiðslupúðann?

cushions2Verkur í hálsi, vöðvabólga og spennuhausverkur eru afar algeng vandmál, sérstaklega meðal okkar stressuðu Vesturlandabúa. Nú merkja nokkrir sérfræðingar í heilbrigðisvísindum að í hugleiðslu sé líklega að finna lausn á vandanum.

Flestir hafa einhvern tímann glímt við vöðvabólgu og stífni í hálsi, spennu, hausverk og verki sem erfitt getur reynst að losna undan. Stundum eru verkirnir viðvarandi en stundum koma þeir og fara. Verkjatöflur hafa oft reynst illskásta skammtímalausnin gegn þessu óþolandi ástandi. Hitt er svo annað mál að líklegt er að langtímalausn á vandamálinu gæti legið á hugleiðslupúðanum.

Vísindarannsókn sem birt var fyrr á þessu ári í því merka riti The Journal of Pain komst einmitt að því að stærsta hluta lausnarinnar væri að finna í hugleiðslu. Með reglulegri hugleiðslu væri hægt að koma í veg fyrir síendurtekna eða króníska verki á þessu svæði. Vísindamennirnir komust að því að mikill meirihluti þátttakenda í rannsókninni sem þeir framkvæmdu - þátttakendur sem sannarlega þjáðust - fundu umtalsverðan mun á sér. Og ekki bara á verkjum í hálsi heldur líka tengdum verkjum (hausverk, vöðvabólgu) eftir aðeins átta vikna lotu jvoti hugleiðslu. Jyoti er hefðbundin indversk hugleiðslutækni sem felur í sér að endurtaka möntrur og beina athyglinni í þriðja augað.

Hvernig hugleiðsla dregur úr verkjum?

“Viðvarandi verkir eru æ oftar tengdir við streitu, og verkir í hálsi við streitu á háu stigi,” segir Andreas Michalsen, M.D., prófessor við Charité háskólann í Berlín og einn af rannsakendum málsins.
Michaelsen getur sér þess til í tengslum við rannsóknina að allskyns tegundir af hugleiðslu dugi til að draga úr samskonar verkjum. En hvernig? Jyoti og nútvitundarhugleiðsla hafa nefnilega áhrif á þann hluta heilans sem gefur frá sér merki um verki og kemur þeim boðum áfram eftir þar til gerðum taugabrautum. Hugleiðsla leysi upp þetta ferli.
“Það kom okkur á óvart hversu mikil áhrif hugleiðslan hefur á verkina, en við sáum ekki með hvaða hætti,” segir Michaelson og bætir við: “Mergur málsins er hugmyndin um “þjáninguna” sem afleiðingu verkja. Úr því dregur með iðkun jyoti hugleiðslu en ekki endilega rót vekjanna.”

Að breyta upplifun á verkjum?

“Ég hef séð nútvitundar hugleiðslu gagnast við allskonar sálfræðilegum og líkamlegum verkjum,” segir Sharon Salzberg höfundur bókarinnar Lovingkindness and Real Happiness at Work. Salzberg segir að fyrir það fyrsta þurfi að greina líkamlega verki frá hugrænum þjáningum, sem hanga á hugmyndum eins og “Þetta mun aldrei breytast.” “Enginn annar þjáist eins og ég”, “Ég er ein/n í heiminum”, “Þetta er allt mér að kenna”. Núvitundar hugleiðslutækni kenni fólki að vinda ofan af vafningi neikvæðra hugsanna og sleppa þeim frá sér. Um leið kenni núvitundaugleiðsla aðferð til að leysa upp verki í stað þess að um sé að ræða viðvarandi ástand sem tekur yfir hluta líkamans.

 

cushionsHvernig er best að nota hugleiðslu til að slá á verki?

Marie Chapman sem er sálfræðingur með áherslu á núvitundarfræðin, segir hugleiðslu geta dregið hvort sem er úr þrálátum líkamlegum og hugrænum verkjum, allt frá höfðuðverk til vöðvabólgu og frá mígreniverkjum til fyrirstíðaspennu. Ef til vill sé ekki hægt að komast að rótinni en það megi sannarlega draga úr þjáningunni. Chapman mælir með þessarri aðferð:

Taktu eftir verkjunum

Notaðu hugann til að finna verkinn, hvernig er tilfinningin og hvernig bregst líkaminn við verknum?

Vertu viðstödd/staddur

Hvettu sjálfa þig til að vera hér og nú. Byrjaðu á því að einbeita þér að önduninni. Þú getur ýmist andað djúpt niður í maga eða beint atyglinni að inn- og útöndun. Finndu hvernig líkaminn þinn tengist jörðinni og færðu svo athyglina upp eftir líkamanum, á hvern líkamspart fyrir sig.

Farðu alla leið

Skoaðu verkina, eins og þú sért að upplifa þá í fyrsta sinn. Settu alla þína athygli í verkina eins og þeir koma fyrir á þeirri stundu. Þarna skiptir núið mestu máli. Því meira sem þú verður forvitin um tilfinninguna, því minni áhyggjur hefur þú af verkjunum. Þ.e. þetta virkar nefnilega þannig að því minni áhyggjur sem þú hefur af “hvað ef” því minni verður þjáningin.

Æfðu þig reglulega
Hvaða form af hugleiðslu sem þú velur er mikilvægt að iðka reglulega. Með tíð og tíma kemstu í æfingu með að draga úr verkjunum. Þetta virkar nefnilega.

Heimildir:

The Journal of Pain: http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1526590014009961

Sjá líka greinina Hugleiðsla frá A-Ö um þær fjölmörgu tegundir af hugleiðslu sem til eru.

Ljósmyndirnar eru fengnar að láni af: www.huggermugger.com


Mikilvægi hins logandi meltingarelds


Frumefnin í Ayurveda.Fátt hefur verið meira í umræðunni í heilsugeiranum þetta sumarið en meltingin. Ástæðuna má sjálfsagt rekja til margs en þó aðallega tímamótaviðtals Rásar 2 við Sigurjón Vilbergsson meltingalækni og umkvörtunnar æ fleiri sem kjósa heildræna nálgun gegn lélegri meltingu. Í þessu ljósi er áhugavert að horfa á meltinguna með augum elstu heilbrigðisvísinda veraldar, Ayurveda, eða indversku lífsvísindanna.

Sigurjón sagði í viðtalinu spennandi að vera magalækni í dag því margt sé að gerast í fræðunum. En um leið “skammaði” hann kollega sína og finnst leiðinlegt að heyra frá þeim að mataræði skipti ekki máli. Sigurjón hafði líka á orði, það sem margir í “óhefbundna heilsugeiranum” hafa talað fyrir um lengi, sem er mikilvægi þess að borða hreina og óunna fæðu og spyrja gagnrýnna spurninga um hvar og hvernig er maturinn okkar er búinn til. Það kemur heim og saman við hugsunina að baki Ayurveda. Viðtalið við Sigurjón má hlusta á í heild sinni hér.

Í Ayurveda fræðunum, sem eiga vaxandi fylgi að fagna (og nýstofnað ráðuneyti á Indlandi) er horft með heildrænum hætti á manneskjuna. Áhugavert er að geta þess að„Ayur“ þýðir „líf“ og „veda“ þýðir „vísindi eða þekking“. En hugtakið „ayu“ felur í sér fjóra undirstöðuþætti eða samþættingu hugar, líkama, tilfininga og sálar. Í þessum stórmerku fræðum er litið á meltingareldinn sem uppsprettu lífsins og sagt er að enginn maður verði eldri en meltingareldur hans. Í Ayurveda er orðið “agni” notað um hinn logandi meltingareld. Hann nær þó ekki eingöngu til meltingarinnar heldur alls þess sem við þurfum að vinna úr í lífinu, þ.e. úr mat; reynslu, minningum og annarri upplifun sem fer í gegnum skynfæri okkar. Ekki nóg með að meltingareldurinn sjái um að vinna næringu úr fæðunni og lífinu heldur líka að brenna burtu því sem við þurfum ekki á að halda (agni er rót enska orðsins ignite sem þýðir kveikja).

Ef meltingareldur okkar logar glatt, eigum við auðvelt með að melta fæðu og tileinka okkur öll lífsins gæði. En ef meltingareldurinn er daufur eigum við erfttt með að melta fæðuna og upp safnast það sem kallast “ama” eða óþarfi/eitur sem setst að í frumum okkar.

Í Ayurveda segir að sterkur melingareldur leiði til góðrar heilsu á öllum sviðum. Á meðan uppsöfnun ama hægi á okkur og valdi hnignun líkama og sálar sem á endanum geti leitt til sjúkdóma. Þá er minnst á að vanhæfni til að vinna úr tilfinningum skilji eftir sig jafn mikið af “eitri” og léleg melting. Litið er svo á að innibyrgð reiði, óunnin sorg og langvarandi sektarkennd séu “ómeltar” tilfinningar sem eru jafnvel mun meira lamandi og “eitraðri” en ómeltur matur. Úr því megi vinna m.a. í gegnum jógafræðin sem eru einn angi Ayurveda.

Ojas: hunangslögur lífsins

Ef við þráum umfram allt góða heilsu fer best á því að eyða “ama” eða eiturefnum úr líkamanum og einbeita okkur að því að framleiða það sem kallað er ojas, sem vísar til lífsorkunnar. Ojas er orð úr Sanskrít og þýðir kraftur/þróttur. Ojas er hreint og fíngert efni/orka sem kemur úr fæðu okkar þegar við höfum melt hana og allt er eins og það á að vera. Ojas orkan fer hringrás um líkamann, vefi okkar og hjarta, og eflir þrótt, gefur skýrleika og jafnvægisstillir tilfinningar okkar. Í stuttu máli, þegar líkaminn framleiðir ojas – stundum kallaður hunangslögur lífsins - finnum við til sælu. Þá erum við að fá þá næringu sem við þurfum á að halda.

Til þess að komast í tengsl við ojasið í okkur mælir Ayurveda með hreinni fæðu og það sem kallað er sattvískri (jákvæðri og nærandi). Mest sattvíski maturinn er t.d. sesam, hunang, heil hrísgrjón, ávextir og grænmeti og líka lífrænar mjólkurafurður. Ennfremur er ghee, eða smjörolía hátt skrifað í Ayurveda, sem og allar lækningajurtirnar (en auðvitað margt annað líka). Öllu erfiðara fyrir líkamann er að vinna úr kjöti og fiski, en þó einkum mikið og illa unnum ónáttúrulegum mat. Fæða sem er of sölt eða súr, niðursoðin og frosin geymir ekki eins mikla næringarorku. Og talað er um að áfengi dragi úr lífsorkunni og geti jafnvel eyðilagt hana.

Þegar heilbrigt ojas flæðir um líkama okkar vöknum endurnærð, húðin ljómar, tungan er hrein og bleik, við finnum karftinn (ljósið) innra með okkur á öllum sviðum, og hugsunin er skýr, meltingin sterk og við ilmum.

Merki um ama, hökt í líkama okkar, sem er sannarlega til ama, eru andremma, skán á tungu, lítil matarlyst, viðkvæm melting, stífni í líkama og sál, pirringur, þyngsli, þreyta, óskýrleiki, orkuleysi og þegar fólk er oft lasið.

Að næra öll skilningavit

Ayurveda mælir með nokkrum einföldum ráðum til njóta matar betur en við mörg hver gerum. Þar sem ojasið er fíngerð og viðkvæm orka þurfum við að búa til nærandi andrúmloft í kringum matatríma okkar og nota öll skilningavit. Bragð, ilm, sjón, hljóð og snertingu. Til að vera í góðu jafnvægi. Hér eru góð ráð:

Alls ekki borða á hlaupum, í bíl, fyrir framan sjónvarp. Borðaðu meðvitað.

Ekki borða þegar þér líður illa eða ert stressuð/aður

Sestu niður og njóttu matarins.

Borðaðu bara þegar þú er svöng/svangur.

Hvorki borða of hratt né of hægt.

Borðaðu hæfilega blöndu af hráfæði og heitum mat.

Ekki drekka kalda drykki með mat. Heldur volga fyrir eða eftir mat.

Hafðu sérhverja máltíð ALLTAF setta saman úr öllum sex bragðgæðunum (sæta, súra, herpandi, beiska, sterka og salta), sjá hér grein um bragðæði Ayurveda.

 

Viðbótarfróðleikur:

Til eru sögulegar heimildir um Ayurveda í fornum ritum sem kölluð eru einu nafni Vedaritin. Í einu þeirra, Rig Veda sem er talin rituð fyrir meira en sex þúsund árum, er að finna yfir 60 þúsund lækningaaðferðir við hinum ýmsu sjúkdómum og kvillum. Ayurveda fræðin eru samt talin vera mun eldri og það er ekki litið á þau eingöngu sem lækningakerfi, heldur sem „vísindi lífsins“. Við erum öll hluti af alheiminum og eins og dýr og plöntur eigum við að lúta lögmálum alheimsins.

 

 


Týndi hlekkurinn fundinn!


týndi hlekkurinnHver stórfréttin í læknavísindum rak aðra í síðustu viku. Um tvær framúrskarandi uppgötvanir var upplýst á þessu sviði. Annars vegar var frétt um þróun byltingarkenndrar krabbameinsmeðferðar, svokallaða ónæmismeðferð sem hjálpar líkamanum að ráðast á eigin æxli. Sú meðferð mun vonandi bjarga mörgum mannslífum í framtíðinni. Frá henni var m.a. greint í sjónvarpsfréttum RÚV sl. föstudagskvöld. Hin fréttin, sem ívið minna bar á - en er ekki síður stórmerkileg - mun breyta öllu kennsluefni í læknisfræði framtíðarinnar. Báðar fréttirnar snerta ónæmiskerfi mannslíkamans sem er ennþá afar flókið viðfangsefni vísindamanna.

Á vef ScienceDaily var hreinlega haft á orði að týndi hlekkurinn á milli heila og ónæmiskerfis mannsins væri loks fundinn. Vísindamenn hafa, svo ekki verður lengur um villst, fundið beina tengingu á milli heilans og ónæmiskerfisins í gegnum æðar sem þeir töldu áður ekki vera til staðar. Þessi stórmerki fundur, sem ef til vill má líkja við landafund, veldur mjög líklega byltingu í skilningi sérfræðinga og almennings á sjúkdómum á borð við MS, Alzheimer og einhverfu.

“Í stað þess að spyrja: Hvernig rannsökum við ónæmiskerfi heilans? Af hverju ræðst ónæmiskerfið á MS sjúklinga? Getum við nálgast viðfangsefnið mekanískt. Heilinn er eins og hver annar vefur, tengdur efsta hluta ónæmiskerfisins í gegnum sogæðar í heilahimnu, ” sagði Dr. Jonathan Kipnis prófessor við taugavísindadeild UVA (University of Virginia Health System) í viðtali við ScienceDaily.

Prófessorinn sagði þetta algjörlega breyta sýn þeirra á víxlverkun tauga- og ónæmiskerfins. Þeir vissu fyrir að eitthvert “dularfullt” samband væri þarna á milli en gerðu aldrei ráð fyrir því að geta skoðað þetta samhengi eins og hverja aðra mekaník.

Nú trúa vísindamennirnir því að þessar æðar leiki stórt hlutverkum í sérhverjum taugasjúkdómi sem hefur tengingu inn á ónæmiskerfið. Ekki sé lengur erfitt að ímynda sér að þessar fíngerðu æðar séu annað en tengdar taugasjúkdómum.

Mannslíkaminn enduruppgötvaður
De. Kevin Lee, PhD, forstöðumaður taugavísindadeildar UVA lýsti viðbröðgum sínum þannig að héðan í frá þyrfti að breyta öllum kennslubókum í læknisfræði. Það hafi aldrei verið gert ráð fyrir því að sogaæðakerfi og miðtaugakerfi mættust, eins og hafi verið svo augljóst í rannsókninni. Þetta muni því gjörbreyta hvernig litið verður á samspil miðtaugakerfis og ónæmiskerfis í framtíðinni.

Eins og gefur að skilja voru vísindamennirnir við Háskólann í Virginíu mjög undrandi. Þeir töldu að búið væri að greina mannslíkamann í frumeindir. Að allt sem við þyrftum að vita hefði verið komið fram um miðja 20. öld. En það er aldeilis ekki raunin.

Mjög vel falið
Það var Dr. Antoine Louveau starfsmaður Kipnis rannsóknarstofunnar sem gerði þessa framúrskarandi uppgövun (og verður líkalega næsti Nóbelsverðlaunahafi í læknisfræði, telja margir). Hann segir að í raun hafi allt legið ljóst fyrir eftir að hann veitti athygli vökva í dreifðu æðamynstri ónæmisfrumnanna. Þannig náði hann tökum á viðfangsefninu. Og það ótrúlega kom í ljós. Hvernig sogæðavökinn í heilannum hefur farið framhjá vísindamönnum í öll þessi ár stafar af því hversu vel æðarnar voru faldar. Sogæðarnar fylgja jafnframt stóru æðunum alveg að ennis- og kinnholum. En þar sem þær liggja svo þétt að blóðæðunum fóru þær framhjá vísindamönnum.

Alzheimer, einhverfa, MS og óendanlega margt annað?
Þessi nýfundna nærvera sogæðanna í heilahimnunni vekur upp ógrynni spurninga sem nú þarf að svara. Sem dæmi um það er Alzheimer sjúkdómurinn. Varðandi Alzheimer er vandamálið uppsöfnun stórra prótein klumpa í heilanum sem skaða taugafrumur. Nú telja vísindamennirnir að klumparnir safnist þar saman vegna þess að þessar nýuppgötvuðu sogæðar losa þá ekki út. Þeir tóku jafnframt eftir því að æðarnar líta mismunandi út eftir aldri fólks. Það þarf líka að skoða nánar. Síðan er ógrynni annarra taugasjúkdóma sem þarfnast frekari rannsókna með hliðsjón af þessum nýja sannleika. Allt í meira lagi áhugavert.

 

 

 

 


Hugleiðsla frá A-Ö

hugleiðslaNú þegar fjölmargar vísindalegar rannsóknir styðja að hugleiðsla getur auðveldlega dregið úr daglegri streitu, fært okkur innri frið og bætt líkamlega og andlega líðan okkar, er ekki svo galið að skoða nánar hver áhrifin geta verið og nefna dæmi um hvernig hægt er að hugleiða með lítilli fyrirhöfn, líka þegar við þurfum mest á því að halda. Hugleiðsla er til í ýmsum myndum og á rætur í flestum menningarsamfélögum.

Ef streita veldur þér hræðslu, óróa og/eða áhyggjum ættir þú að íhuga hugleiðslu. Aðeins örfárra mínútna hugleiðsla á dag getur raðað öllu í réttar hillur, róað og fært innri frið. Allir geta iðkað hugleiðslu. Það er einfalt og ódýrt og krefst í raun engra sérstakra hæfileika. Það sem er jafnvel meira um vert er að hugleiðsla þarfnast heldur engrar sérstakrar umgjarðar. Hægt er að stunda hugleiðslu hvar og hvenær sem er – hvort sem þú ert á göngu, í strætó, á biðstofu, í sundi (á floti) og jafnvel á erfiðum viðskiptafundum.

Hugleiðsla hefur verið stunduð í þúsundir ára. Upphaflega svo fólk kæmist í djúpa snertingu við helga og dulræna krafta náttúrunnar, en í dag miklu fremur til að ná slökun og kyrra hugann, þótt annað og meira geti sannarlega hangið á spýtunni.

Hugleiðsla gengur fyrst og fremst út á að beisla streymi óstýrlátra hugsanna sem geta haft áhrif á andlega burði okkar, stíflað hugarflæði okkar og valdið streitu. Í búddismanum er gjarnan talað um apaheilann sem dæmi um hvernig óstýrlátar hugsanir mannsheilans geta hegðað sér, nánast án þess að við fáum nokkuð við ráðið. Líkt og þær hoppi og skoppi á milli trjágreina og unni hvorki sér (huganum) né okkur (líkamanum) hvíldar.

Með regulegri hugleiðslu getur fólk gert ráð fyrir því að andleg og líkamleg vellíðan aukist. Mjög líklegt er að hugleiðsla færi ekki bara ró og frið heldur líka tilfnningalegt jafnvægi. Það kemur okkur ekki bara til góða rétt á meðan við hugleiðum heldur hefur reglubundin hugleiðslu áhrif á daglegt líf okkar. Iðkun hugleiðslu er afar líkleg til að tappa af yfirfullum huganum sem kann að valda okkur streitu frá degi til dags.

Hér eru nokkur dæmi um áhrif hugleiðlu á tilfinningar og veikindi/sjúkdóma:

Áhrif á tilfinningar:

Þú hættir að ofhlaða og setja tilfinningar í allar hugsanir þínar.

Meiri ró og vellíðan

Þú veitir athygli aðstæðum sem geta valdið streitu og þannig komið í veg fyrir þær.

Þú getur degið þig í hlé í erfiðum aðstæðum.

Áhrif hugleiðslu á sjúkdóma/ veikindi:

Hugleiðsla hentar ekki síður þeim sem eru að fást við líkamleg en andleg óþægindi og í sumum tilfellum veikindi eða sjúkdóma. Sumir líkamlegir sjúkdómar eru nefnilega þannig að þeir versna undir andlegu álagi. Í dag styðja fleiri og fleiri vísindalegar rannsónir góð áhrif hugleiðslu á líkamleg veikindi, þótt ennþá séu vísindamenn sem telja að ekki sé hægt að draga miklar ályktanir enn sem komið er. Með það í huga hafa vísindalegar rannsóknir sýnt að hugleiðsla dregur úr:

Kvíðaröskun

Asma

Hliðarverkunum krabbameina

Þunglyndi

Hjartasjúkdómum

Verkjum

Svefnvandamálum

Þó ber að hafa í huga að hugleiðsla læknar ekki þessi veikindi/sjúkdóma en gagnast sannarlega við að draga úr óþægilegum einkennum þeirra.

Til eru óteljandi leiðir til að hugleiða. Hér eru þær allra helstu og sennilega þekktustu:

Leidd hugleiðsla:
Stundum er talað um leidda myndframsetningu eða sjónsköpun (visualization) þar sem hugleiðslan fer fram á því formi að kallaðar eru fram myndir í huga af stöðum eða aðstæðum sem þér finnast róandi. Þar eru notuð eins mörg skilningavit og mögulegt er, eins og lykt, sýnir, hljóð og áferð. Oft eru leiðbeinendur eða kennarar sem stjórna för.

Hugleiðsla með möntru:
Í þessarri tegund af hugleiðslu er farið með endurtekna þulu í huga eða upphátt til að koma í veg fyrir truflandi hugsanir.

Núvitindarhugleiðsa:
Þessi hugleiðsla byggir á að vera hér og nú, eða auka meðvitund og samþykkja að vera í viðstaddur þá stundina. Í nútvitundarhugleiðslu má segja að þú breikkir meðvitund þína. Þú beinir sjónum að því sem þú upplifir á meðan á hugleiðslunni stendur, t.d. eins og andardrættinum. Þú getur virt fyrir þér hugsanir þínar og tilfinningar en sleppir þeim svo lausum án þess að dæma þær.

Qi gong:
Æfingin samanstendur almennt að hugleiðslu, slökun, hreyfingu og öndun í þeim tilgangi að ná og halda jafnvægi. Qi gong er hluti af kínversku alþýðulæknisfræðinni.

Tai chi:
Er eitt form af mjúkri kínverskri sjálfsvarnarlist. Í Tai chi ferðu hægum skrefum í gegnum röð æfinga eða hreyfinga, tignarlega um leið og þú æfir djúpa öndun.

Innhverf íhugun. TM:
Transcendental meditation, þekkt sem innhverf íhugun hér á landi. Byggir á einfaldri náttúrulegri tækni. Innhverf íhugun byggir á persónulega aðsniðnri möntru/þulu, hljóðum eða frösum sem farið er með upphátt og í hljóði. Þessi hugleiðsla færir okkur djúpa slökun. Flestir öðlast hvíld og rólegan huga án sérstakrar áreynslu.

Jóga og hugleiðsla:
Jóga er grundvallað á æfingum og öndun til að ná liðleika, losa um stíflur og róa hugann. Um leið og farið er í gegnum æfingar sem krefjast jafnvægis og einbeitingar eru jógaiðkendur gjarnan hvattir til að leggja vinnu og streitu daglegs lífs til hliðar til að einbeita sér að líðandi stund. Allt veltur þetta auðvitað á þeim jógakennara sem hver velur sér.

Hér koma tvö dæmi um þá hugleiðslu sem fólk getur fengið út úr jógaiðkun:

Gjörhygli/núvitund
Vakandi athygli, eða það að vera á staðnum, hér og nú, er almennt talinn kjarni góðrar hugleiðslu. Það er vera hér og nú er það sem ýtir undir frelsun hugans undan truflunum sem valda streitu og áhyggjum. Hægt er að beina athyglinni hvort sem er að mynd, hlut, möntru eða öndun, eða jógaæfingunum.

Slakandi öndun:
Þessi tækni geymir djúpa og jafnvel taktfasta öndun þar sem notast er við þindina til að þenja út lungun. Tilgangurinn er að hægja á önduninni og taka inn meira súrefni, slaka á í öxlunum, hálsinum og efri brjóstvöðvum á meðan þú andar, svo að öndunin verði skilvirkari og dýpri.

Þögnin:
Ef þú er byrjandi í hugleiðslu er þögnin oft þörf, og þá betra að slökkva á öllu í kringum sig, eins og sjónvarpi, útvarpi og síma. En eftir því sem þú þjálfar þig betur áttu auðveldara með að hugleiða hvar og hvenær sem er, jafnvel í mjög streituhlöðnu umhverfi. Eins og í mikilli umferð, röð í stórmarkaði og í starfinu þínu, við nánast hvaða aðstæður sem er.

Í þægilegri stellingu:
Þú getur stundað hugleiðslu, hvort sem þú liggur, situr, stendur eða gengur. Aðalmálið er að láta fara vel um sig hvar og hvenær sem er. En ekki láta hugmyndina um “réttu aðstæðurnar” trufla þig. Margir kjósa að sækja hugleiðslumiðstöðvar eða jógastöðvar sem bjóða upp á sérstaka hugleiðslutíma með leiðbeinendum. Það er frábært til að ýta sér af stað. Það er hins vegar auðvelt að stunda hugleiðslu einn og sjálfur og aðlaga það eigin lífsstíl og aðstæðum. Margir koma sér upp daglegri hugleiðslurútínu. T.d. með því að hefja hvern dag eða ljúka á hugleiðslu. Eina sem þú í raun þarft er þinn gæðatími, þess vegna bara fáeinar mínútur á dag.

Hér koma nokkur dæmi um nokkrar einfaldari tegundir hugleiðslu, eitthvað við flestra hæfi:

Andaðu djúpt:
Þessi tækni hentar byrjendum einna best. Allir þurfa jú að anda. Gott er að setja alla einbeitingu á öndunina og skoða tilfinninguna og hlusta á þegar andað er inn og út í gegnum nefið. Andið djúpt og rólega. Þegar hugurinn fer á flug er best að ná honum blíðlega til baka og byrja upp á nýtt.

Renndu yfir líkamann:
Þegar þessi tækni eru notuð er best að renna yfir ákveðna líkamshluta, líkt og gjarnan er gert í jóga nidra (það er fullt af góðu jóga nidra á youtube). Með þessarri tækni verður þú vör/var við ólíka líðan eða tilfinningu í mismunandi líkamshlutum, hvort sem það snýr að verkjum, spennu, hita eða slökun. Blandaðu því saman að skanna líkamann um leið og þú finnur hitann og slökunina streyma inn og út um ákveðna líkamshluta. Þetta er ekki erfitt.

Endurtaktu möntru:
Þú getur hannað eigin möntru, hvort sem hún er veraldleg eða trúarleg. Það getur hvort sem er verið bæn, om, söngl eða fallegar staðhæfingar, úr vestri eða austri. Bara það sem hentar þér.

Gönguhugleiðsla:
Að blanda saman göngutúr og hugleiðslu er áhrifarík hugleiðsluaðferð, heilsusamlegt og slakandi. Hægt að notast við í hvaða göngutúr sem er. Út í náttúrunni eða í miðri borginni. Þessi tækni byggir fremur á að ganga hægt en hratt og beina sjónum að hverju skrefi. Ekki horfa á umhverfið. Einbeittu þér að hreyfingu líkamans, þegar þú lyftir upp fætinum og snertir svo jörðina.

Gríptu til bæna:
Líklega eru bænir þekktasta form af hugleiðslu. Til í öllum heimsálfum og trúarbrögðum. Þú getur hvort sem er búið til þína eigin eða leitað uppi það sem hentar þér, líka hjá íslensku ljóðskáldunun. Þar er eftir nægu að slægjast.

Upplifuðu og veltu fyrir þér innihaldinu:
Margir hafa vitnað um að ljóðlestur eða lestur á fornum helgum textum ásamt því að íhuga innihaldið og merkingu þess sé mjög nærandi og gefi það sama og góð hugleiðsla. Þetta á líka við um helga tónlist, upplestur annarra, tónleika og margskonar list. Það getur líka verið gefandi að tala um upplifun sína við aðra eða skrifa niður þær tilfinningar sem kunna að koma upp.

Gefðu kærleika og þakklæti gaum:
Einbeittu þér að kærleika og þakklæti. Það að íhuga það góða í tilverunni, djúpa tilvist okkar, kærleika, þakklæti og samkennd ásamt því að hleypa ímyndunaraflinu lausu, horfa í logann, loka augunum eða bara að vera meðvitaður og vaska upp eitt glas í einu, getur allt verið mjög gefandi í þessum tilgangi.

Hugleitt í vatni:
Síðast en ekki síst er það alíslenska flothettan sem gerir okkur kleift að hugleiða í þyngdarleysi í vatni. Máske stærsta gjöf Íslands til hugleiðslu umheimsins. Einn af helstu ávinningum reglubundins flots af þessu tagi er að hægt er að ná stöðugu svokölluðu þeta (theta) ástandi á skömmum tíma en það er sama ástand og munkar ná eftir margra ára hugleiðsluþjálfun. Frábær hönnun sem sprottin er úr okkar miklu vatnsauðlegð.

Aðalmálið er kannski bara að forðast að dæma þá hugleiðsluaðferð/ir sem þú kýst. Hugleiðsluþjálfun tekur tíma, líkt og við þurfum að þjálfa upp “hugleiðsluvöðvann”. Hafðu í huga að órólegur hugur er sammannlegur og líka í hugleiðslu. Smám saman gerist þó það að við náum tökum á þeirri hugleiðslu sem við veljum okkur. Æfingin skapar hugleiðslumeistarann. Sumir notast við fleiri en eina tegund hugleiðslu. En flestir hefja ferðalagið á einni tegund. Það er ekkert rétt og rangt. Langbesti ávinningur hugleiðslu er minnkuð streita og betri líðan.

Heilmargar heimildir:

  1. Meditation: An introduction. National Center for Complementary and Alternative Medicine. http://nccam.nih.gov/health/meditation/overview.htm. Accessed Jan. 27, 2014.
  2. Seaward BL. Essentials of Managing Stress. 3rd ed. Sudbury, Mass.: Jones & Bartlett Publishers; 2014:226.
  3. Keng SL, et al. Effects of mindfulness on psychological health: A review of empirical studies.
  4. Hassed C. Mind-body therapies — Use in chronic pain management. Australian Family Physician. 2013;42:112.
  5. Elkins G, et al. Mind body therapies in integrative oncology. Current Treatment Options in Oncology. 2010;11:128.
  6. Sood A, et al. On mind wandering, attention, brain networks, and meditation. Explore. 2013;9:136.
  7. Meditation programs for psychological stress and wellbeing. Agency for Healthcare Research and Quality. http://effectivehealthcare.ahrq.gov/search-for-guides-reviews-and-reports/?pageaction=displayproduct&productid=1831. Accessed Jan. 29, 2014.
  8. Complementary, alternative, or integrative health: What's in a name? National Center for Complementary and Alternative Medicine. http://nccam.nih.gov/health/whatiscam. Accessed Jan. 24, 2014.
  9. Goyal M, et al. Meditation programs for psychological stress and wellbeing: A systematic review and meta-analysis. JAMA Internal Medicine. In press. Accessed Jan. 29, 2014.
  10. Sood A. The Mayo Clinic Guide to Stress-Free Living. Philadelphia, Pa.: Perseus Books Group; 2013:262.

Víðtæk vorhreinsun

 

Í Ayurveda er vorið tími endurnýjunnar. Alveg hárrétti tíminn til hreinsa líkama og sál og byggja sig upp eftir veturinn. Þetta er hefð í mörgum menningarsamfélögum. Þótt indversku lífsvísindin mæli með sítrónu í volgu vatni, notkun á tungusköfu og nefpotti og heilbrigðri andlegri og líkamlegri næringu frá degi til dags - árið um kring - leggja fræðin sérstaka áherslu á að farið sé dýpra inn á við á vorin.

vor

Vorið flokkast sem kafa (kapha) og eru frumefni þess jörð og vatn. Þar sem kafa orkan eykst í líkama okkar flestra í takti við árstíðina, eigum við það til verða þung (eins og blaut jörðin) og bjúguð (eins og vatn í leysingum). Þessu getur verið gott að mæta með því að leggja áherslu á það sem er beiskt, sterkt og herpandi. Bragðflokkana sem rífa sig í gegnum stíflur líkamans og létta á okkur, ekki síst andlega 

Sjálfri er mér kunnungt um marga hópa sem safnast saman á þessum ártíma til að hreinsa líkama og sál. Sumir gefa eftir í viku en aðrir taka sér lengri tíma. Í nokkur ár hef ég tilheyrt hópi fólks sem tekur þriggja vikna vorhreinsun, sem felst aðallega í því að sleppa öllum dýraafurðum, sykri, hvítu hveiti, geri, jafnvel glúteni og borða ríkulega af lífrænu grænmeti og ávöxtum. Síðan hittumst við vikulega og hugleiðum saman. Svo fer það eftir hverjum og einum hvort hann/hún vilji taka nokkra safadaga í miðri hreinsuninni eða sleppa því.
Þar sem Ayurveda á svör við nánast öllu og sér hlutina í víðu samhengi eru hér nokkur viðbótaratriði sem gott er að hafa með í hreinsunni. Í raun hvaða hreinsun sem er:

Tunguskafan
Tunguskafan er sögð eitt mikilvægasta fyrirbyggjandi heilsuverkfæri indversku lífsvísindanna. Jafnvel enn mikilvægari en tannburstinn. Á tungunni geta nefnilega safnast fyrir toxísk efni, nefnd “ama”. Þau eru talin geta ýtt undir óþægindi eða jafnvel sjúkdóma (eru til ama), séu þau ekki hreinsuð burt reglulega. Þannig er sagt að ef á miðju tungunnar myndast skán sé það merki um að magi og smáþarmar þurfi hreinsun en ef skánin er aftast á tungunni sé það ristillinn sem þarf sérstaka aðgát. Strjúkið mjúklega yfir tunguna frá afasta hluta hennar til þess fremsta, allt að 7 til 14 á hverjum morgni, meðan á hreinsunni stendur. Það hjálpar til. Hitt er að það má auðveldlega venjast því að nota tungusköfu á hverjum einasta morgni.

Nefpotturinn
Er í raun að verða vinsælli og vinsælli hér sem víðast hvar á Vesturlöndum. Það kemur líka til að því að margir ofnæmislæknar -líka íslenskir- eru farnir mæla með notkun hans. Sérstaklega fyrir þá sem þjást af frjóofnæmi eða langvarandi ennis- og kinnholuvandamálum. Nefhreinsun sem þessi hefur verið notuð í þúsundir ára í indversku fræðunum og skilar sannarlega árangri. Í Ayurveda er öndun í gegnum nef sögð leiðin að aukunni meðvitund og sjálfri prönunni (lífsorkunni). Og þar með betri heilsu.

Þurrburstun
Það er bæði gömul saga og ný að það að bursta líkamann hátt og lágt ýtir undir hreinsun líkamans. Mikilvægast er að notast við húðbursta með náttúrulegum hárum. Þurrburstun eykur blóðfæði og fjarlægir dauðar húðfrumur. En það sem er meira um vert er að þurrburstun örvar sogæðakerfið sem á drjúgan þátt í hreinsun líkamans. Hefjist handa við hjartað og fylgið ferðalagi sogæðavökvans upp og niður líkamann. Gott er að anda inn og út um nef þegar þurrbustun er framvæmd. Það eykur meðvitund.

Nudd
Nuddið líka líkamann hátt og lágt, helst upp úr heitri olíu. Það er næstum óendanlega notalegt. Ekki er verra að notast við olíu sem hentar ykkar líkamsgerð (vata, pitta, kafa). Þó duga góðar lífrænar sesam- eða möndluolíur líka vel. Á meðan þið þurrbustið líkamann er gott að hita olíuna eilítið, t.d. undir heitri vatnsbunu eða yfir heitu vatnsbaði. Öflugt nudd á kafatímum (vorin) eftir þurrburstun er ein besta leiðin til að ýta uppsöfnuðum eiturefnum út úr vefjum líkamans inn í meltinguna þaðan sem þau hreinsast út. Það heitir líka að losna við “ama” í Ayurveda.

Te og jurtir
Drekkið mikinn vökva meðan á þessu tímabili stendur. Sérstaklega af góðu tei með hreinsandi jurtum á borð við rauðsmára eða rauðrunna. Gott ráð er að leggja vítamíninntöku til hliðar á meðan á hreinsun stendur. Þó er talsvert vit í því að verða sér úti um nokkrar jurtir sem ýta undir hreinsuna. Þar mæli ég persónulega með mjólkurþistli sem er lifrarhreinsandi, túnfífilsjurt sem örvar gallið og er um leið mjög vatns- og bjúglosandi. Síðast en ekki síst mæli ég með króklöppurót sem er mjög beisk jurt og er líka sögð hreinsa gallið. Í vedísku handritunum er minnast króklöppu sem drottningu allra blóðhreinsandi jurta.

Fótabað
Fátt er jafn endurnærandi og gott fótabað með steinefnaríku Epsom salti. Það er í senn róandi og gefur fótunum orku sem streymir upp allan líkamann. Í miðri hreinsunni eigum við mörg hver til með að missa niður orku og þá er enginn skyndibiti bragðbetri er notalegt Epsom salt fótabað.

Krydd
Lífræn eðalkrydd er ekki eingöngu spennandi og gefa áhugavert bragð af matnum okkar heldur eru þau mörg hver einnig flokkuð sem lækingajurtir. Notaðu svartan pipar, túrmerik, kóríander, kúmín, kardimommur, engifer og sinnepsfræ. Öll þessi krydd bæta meltinguna og flýta fyrir hreinsun líkamans.

Dagbók
Það hljómar kannski þreytandi að halda dagbók í miðri matarhreinsun en reyndu samt. Ekki til að fylgjast með því sem þú ert að borða heldur þeim tilfinningum sem kunna að koma upp og gagnlegt er að skoða. Við öfluga vorhreinsun á líkama kunna allskyns tilfinningar að leysast úr læðingi. Skrifaðu þær niður, það getur orðið áhugavert lesefni. Líka síðar meir.

 

 


Ertu vata, pitta eða kafa?

ayurvedaFyrir fáeinum dögum komst það í heimsfréttirnar að forsætisráðherra Indlands hefði stofnað ráðuneyti sem hann tileinkar jóga og hinni fornu Ayurvedísku lækningahefð. Það má því með sanni segja að Indverjar séu fyrstir til að stofna “óhefðbundið” heilbrigðisráðuneyti. Með því vill leiðtoginn styrkja þessi 5000 ára gömlu reynsluvísindi sem njóta vaxandi vinsælda og eru ennþá stunduð um allan heim. Líklega hafa þau sjaldan verið vinsælli en nú.

Sjálfur segist forsætisráðherran, Narenda Modi, iðka jóga á hverjum degi og stefnir að því að bjóða öllum ríkisstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra fría jógatíma. Með því að stunda jóga segist hann hafa tök á því að vinna langa vinnudaga og takast á við streitu og erfið verkefni. Næst á dagskrá í þessum málaflokki er að fá alla ríkisstjórnina til að stunda jóga. Þegar er ákveðið að fyrstu jógatímarnir fari fram í apríl. Einnig er stefnt að því að 21. júní verði alþjóðlegur dagur jóga. Indverjar lifa merkilega tíma.

Þetta eru góð tíðindi fyrir jógaunnendur og ekki síður þá sem hafa heillast af systurvísindum jógafræðanna, Ayurveda, sem hafa ekki eingögnu verið nefnd vísindi lífsins, heldur líka vísindi langlífs. Það er þó alls ekki víst að allir þekki Ayurveda, en vissulega fleiri og fleiri. Til gefa ákveðna vísbendingu byggir hugmyndafræðin fyrst og fremst á fyrirbyggjandi aðferðum. Ayurveda á ráð við öllu og notar til þess mataræði, jurtir, nudd, hugleiðslu, jóga, möntrur en fer líka inn á fíngerðari svið tilverunnar eins og ilmi, liti, orku og tónlist.

Ayurveda horfir á mannslíkamann út frá því sem kallað er dosur (dosha), þ.e. hver manneskja eða hver hugar/líkamsgerð er sett saman úr þremur dosum. Fíngerði orku sem kallast vata, pitta og kafa. Til að gera langa sögu stutta, stendur vata fyrir frumefnin loft og eter (rými), pitta fyrir eld og vatn og kafa fyrir jörð og vatn. Semsé Ayurveda eru vísindi sem sjá manneskjuna sem hluti af náttúrunni. Ein dosan er jafnan ríkjandi í hverri manneskju, en í sumum tilfellum tvær. Mjög sjaldgæft er að allar þrjár dosurnar séu jafnar í byggingu okkar. Þó ku það vera til í dæminu.

Hin ríkjandi dosa í hverjum og einum skapar það sem við erum í grunninn; hvernig líkamsbygging okkar er og hvernig við hugsum. Það hefur áhrif á allt okkar lífshlaup, allt frá því hvaða starf við kunnum að kjósa okkur, hvaða mat okkur líkar, til hvaða tegund af jóga & hugleiðslu hentar okkur. Þetta er heildrænn pakki! Og þótt við séum um margt lík, erum við líka mjög ólík. Það sama hentar alls ekki öllum. Það er útgangspunktur Ayurveda.

Þar sem streita er eitt af því sem Vesturlandabúar eiga hvað erfiðustu glímuna við er áhugavert að stikla á stóru um hvernig streitan birtist í indversku lífsvísindunum með tilliti til hverrar hugar/líkamsgerðar. Hver dosa hefur sína tegund af jafnvægi og ójafnvægi sem framkallast bæði í hugar- og líkamlegum einkennum. Að sjálfsögðu er hugur og líkami óaðskiljanleg eining í Ayurveda.

Hér að neðan eru áhugaverðar vísbendingar um hverja dosu:

VATA:

Eiginleikar vataorkunnar: Þurr, létt, köld, hrjúf, fíngerð, hreyfanleg og tær. Eins og vetrarorkan hér á landi.

Fólk sem er ríkjandi VATA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Uppfullar af sköpunarkrafti og fljótar að hugsa.

Úr jafnvægi: Þráhyggja, hræðsla, áhyggjur, grennist, gnístir tönnum, svefnleysi, harðlífi.

Vinveitt fæða: Hitagefandi, eins og hrísgrjón, mjólkurvörur og heilhveiti, hnetur. Eða heitur, súr, sætur og saltur matur.

Forðist: Hráfæði, salöt og þurran og loftkenndan mat eins og poppkorn. Já, hráfæði hentar síst þeim sem eru vata í grunninn sem ættu að borða beiskan, herpandi og sterkan mat í hófi

Lækningajurtir: Engifer, kanill, pipar og kardimommur. Allt sem er hitagefandi án þess að vera of sterkt.

Ilmir sem næra: Ylang Ylang, sæt appelsína, frankincense.

Jóga sem mælt er með: Rólegt, hugleiðsluæfingar og æfingar sem innihalda fjallið, tréð, barnið, frambeygjur og plóginn. Fókusið á: Ujjayi öndun til að kyrra hugann.

Önnur góð ráð fyrir vata er að notast við mjúka tónlist og leidda hugleiðslu og bera á sig heita olíu áður en farið er í sturtu og á iljarnar fyrir svefinn.

PITTA:

Eiginleikar pittaorkunnar: Olíukennd, skörp, heit, létt, hreyfanleg og fljótandi, eins og sumarið.

Fólk sem er ríkjandi PITTA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Skýr, orkumikil, hnitmiðuð, vakandi, skörp og þrautseig.

Úr jafnvægi: Skapsveiflur, gagnrýnin, mígreni, magasár, bólgur í húð, sjóðheitar hendur og fætur.

Vinveittur matur: Kælandi, eins og gúrkur, melónur og döðlur. Semsé sæt, beisk og herpandi fæða hentar pitta.

Best að forðast: Mikið kryddaða, súra og salta fæðu eins og chili, radísur, tómata, trönuber og greip.

Lækningajurtir: Kanill, kóríander, kardimommur og fennel eru í lagi en allt sem er of hitagefandi ætti að borða í hófi.

Ilmir sem næra: Jasmína, lavender, fennel, rós og sandalviður. 

Jóga sem mælt er með: Milt hatha, þægilegt vinyasa, endurnærandi flæðandi jóga sem inniheldur vindur og sitjandi og standandi frambeygjur. Pitta líkamsgerðin ætti að forðast hotjóga og jóga á heitasta tíma dagsins (sorrý, hotjóga á alls ekki við alla, ekki heldur konur sem eru að ganga í gegnum hitabylgjur breytingaskeiðsins).

Önnur ráð fyrir pitta er að kæla sig niður með því að anda inn í gegnum vinstri nös sem er kælandi og út í gegnum þá hægri sem gefur frá sér hita.

KAFA:

Eiginleikar kafa orkunnar: Þung, hæg, mjúk, köld, stöðug, olíu-og slímkennd. Eins og leysingar að vori.

Fólk sem er ríkjandi KAFA líkams/hugargerð:

Í sínu besta formi: Trygglynd, jarðbundin, ástrík og þolinmóð.

Úr jafnvægi: Þrjósk, dauf, þunglynd, borðar mikið og situr föst.

Vinveitt fæða: Þistilhjörtu, eggaldin, spergilkál, kirsuber, perur, trönuber ofl.

Best að forðast: Sætindi, hnetur og of einhæfan mat.

Lækningajurtir sem henta: Í raun allar nema þær sem eru of saltar eða sætar. Undantekning er hunang sem er sögð henta kafa mjög vel.

Ilmir sem næra: Rósmarín og frankincense, piparminta, jukalyptus og basil.

Jóga sem mælt er með: Hitagefandi, kröftugar hreyfingar, þar á meðal sólarhyllingin, bakbeygjur og snúningar. Æfingar sem opna brjóstkassann, eins og boginn, kameldýrið og æfingar sem opna hjartað eins og fiskurinn sem er sagður fyrirbyggja þunglyndi.

Önnur ráð: Pranayama tæknin getur reynst hjálpleg, eins og kapalabhati öndun; öndun leidd í gegnum hægri nös (öndun inn um hægri nös gefur hita) og út um vinstri. Chanting/söngl á vel við kafa týpur, sérstaklega ef þær þjást af deyð.

Hér er aðeins örlítil innsýn inn í reynsluvísindaheim Ayurveda. Nám í Ayruveda lækningum tekur allt að sjö ár. En ef þetta vekur forvitni er hér á eftir að finna spurningar/próf sem geta skorið úr um hvaða dosa er ríkjandi í þér og hvað er til ráða. Gjarnan er bent á það í þessum fræðunum að aðeins örlítil innsýn geti hjálpað mikið. Hér er slóð inn á fyrirtaks próf: http://www.banyanbotanicals.com/info/prakriti-quiz/

Ps: Ef þið hafið aldrei heyrt um pranayma, kapalabhati og allar þessar öndunar- og jógaæfingar er að finna endalausar upplýsingar og leiðbeiningar t.d. á youtube.

 


Bragðflokkarnir sex og ójafnvægið

Börgðin í AuyrvedaEftir því sem jóga vex ásmegin meðal almennings og vísindamanna fjölgar þeim sem hafa áhuga á systurvísindum jógafræðanna, Ayurveda, sem ýmist eru kölluð vísindi lífsins eða indversku lífsvísindin. Í þeim fræðum, sem að nokkru hafa verið vísindalega rannsökuð, einkum það sem snýr að lækningajurtum, er að finna heilstætt kerfi og hafsjó upplýsinga um nánast allt á milli himins og jarðar. M.a. um tengsl manneskjunnar við náttúruna og hvernig mismunandi árstíðir og bragðflokkar hafa ólík áhrif á lífsgæði okkar.

Fyrir þremur árum, eftir að ég sótti námskeið í þessum stórmerku reynsluvísindum hjá Kripalu jógastofnunni í Bandaríkjunum - en hafði þó lesið mig mikið til um þau áður - varð ég margs vísari. Þá rann m.a. upp fyrir mér af hverju Vesturlandabúar eru gjarnan að glíma við þreytu, ofþyngd og bjúg. Á því eru sjálfsagt nokkrar skýringar. En fáar eins áhugaverðar og að í okkar heimshluta er borðað meira af söltu og sætu en víðast hvar annars staðar. Samvæmt indversku lífsvísindum skapar það einmitt þessa tegund ójafnvægis. Í vedísku frumritunum er upplýst að ekkert sé mikilvægara heilsu mannsins en heilbrigð meltingargló, kölluð agni.

Það sem skortir allnokkuð upp á í okkar mataræði er það sem flokkast sem súrt, sterkt, herpandi og beiskt. Bragðflokkarnir sem við eigum að horfa í til að halda jafnvægi eru sem semsé í heildina sex. Þótt mikil vitundarvakning hafi orðið um hollara mataræði vantar enn talsvert upp jafnvægi milli bragðflokka. Þetta misserið sjáum við t.d. sveifluna í þá átt að margir eru hættir að borða sætu. Þannig á það ekki vera. Sæta er jafn mikilvæg og allt hinir bragðflokkarnir. Þar erum við að tala um hollari sætu úr heilum óunnum mat. En líka sætu eins og t.d. úr döðlum eða góðu lífrænu hunangi, sem telst ein sú albesta. Stundum er meira að segja minnst á það í Ayurveda að þeir sem eru í ofþyngd, sérstaklega ákveðnar líkamsgerðir, geti notað nærandi sætu í réttu samhengi til að léttast á sál og líkama. En það er efni í aðra grein.

Hér má í stuttu máli sjá bragðflokka indversku lífsvísindanna og hvaða gagn er af þeim og ógagn:

Sætt: Í góðu hófi getur hið náttúrulega sæta gefið okkur ánægju, lífskraft, styrkt vefjafrumuefnin, taugakerfið og einfaldlega gert okkur sætari. Undir sætt flokkast heilir ávextir, hunang, döðlur, mjólkurmatur, kjöt, fiskur, korn, hnetur, möndlur, sesam- og sólblómafræ, hrísgrjón og fleira. En um leið og náttúruleg óunnin sæta er talin geta nært milta og briskirtil getur ofgnótt sætu, sérstaklega unnin sæta, skaðað þessi líffæri líka.

Salt: Viðheldur vökvajafnvægi í líkamanum og örvar meltinguna. Ef við borðum of mikið salt, sérstaklega af næringarsnauðu salti, sem ekki geymir fjölda góðra steinefna, (á jafnan við um Vesturlandabúa), getur það skaðað nýrun og líka aukið hrukkumyndun. Besta hugsanlega náttúrusaltið er himalayasalt og nokkrar góðar tegundir sjávarsalts, t.d. þetta íslenska. Annað sem er saltað frá náttúrunnar hendi er t.d. sjávargrænmeti og sellerí.

Beiskt: Hið beiska bragð skortir einna mest á hjá Vesturlandabúum. Það er útvíkkandi, hreinsar óhreinindi úr líkamanum, nærir lifur og ljáir húðinni líf. Dæmi um beiska fæðu sem gott er að neyta reglulega er sítróna (ekki bara súr skv. Ayurveda), og guði sé lof fyrir kaffið og súkkulaðið (lífrænt, 70%) því annars væri líklega mikill skortur á beisku bragðgæðunum. Annað sem telst m.a. beiskt er grænkál, spírur, klettasalat, rabarbari, iceberg, túrmerik, lakkrís og sesamfræ (sem eru bæði sæt og sölt). Of mikið af beiskri fæðu gæti skaðað hjartað.

Sterkt: Örvar blóðrás og meltingu, þurrkar, losar stíflur, er hitagefandi og gerir okkur skýr í hugsun. Í þessum bragðflokki eru t.d. rauður pipar, laukur, kardimommur, engifer, radísur, sinnepsfræ, laukur og hvítlaukur. Of mikið sterkt er sagt geta skaðað ristilinn.

Súrt: Örvar matarlyst og bætir meltinguna. Dæmi um súra fæðu eru t.d. plómur, jarðaber, tómatar, sítrusávextir, óþroskaðir ávextir, tómatar, miso og gerjaðir ostar. Of mikið súrt er sagt geta haft slæm áhrif á lifrina.

Herpandi/samandragandi: Slíkar fæðutegundir er að finna víða í náttúrunni og erum við Íslendingar að verða ágætlega sett þar. Dæmi um herpandi fæði eru epli (sem eru líka sæt), kartöflur og grænt grænmeti, blómkál, kanill, kardimommur, túrmerik, granatepli, trönuber, bláber, kóríander, linsur og baunir. Herpandi fæða færir okkur skerpu, dregur úr bólgum, græðir magasár, er róandi og dregur úr flæði líkamsvessa. Ef hennar er ekki neytt í hófi er hún sögð geta skaðað ristil.

Líkt og í jóganu ganga Ayurvedafræðin út á að finna jafnvægi. Því ætti hver og einn að neyta fæðu úr öllum þessum fæðuflokkum daglega, helst í hverri einustu máltíð. Þótt engin boð og bönn séu í indversku lífsvísindunum er jafnvægið þar hávegum haft. Fæða skv. þessum fræðum hefur ekki síður áhrif á okkur andlega en líkamlega.

ATH: Sama fæða, krydd, eða lækningajurt getur flokkast undir einn eða fleiri bragðflokk. Því fleiri bragða sem ein tegund nær til þeim mun heilnæmari telst hún vera. Listinn yfir fæðuna í hverjum flokki er alls EKKI tæmandi en gefur góða mynd.


Vísindin á bak við jógað


Tilraunin leiddi ennfremur í ljós að reynslumiklir jógar sem söngla OM upphátt hafa enn virkari og styrkari flökkutaug en þeir sem söngla í hljóði. Við sem ástundum jóga vitum öll að það gerir líkama og huga gott eitt. Engin hefur þó fram að þessu getað sett fingurinn nákvæmlega á hvers vegna. Og þaðan af síður af hverju jóga dregur úr þunglyndi, depurð, ótta, sykursýki, verkjum og jafnvel flogaveiki og áfallastreitu.

Fyrir röskum tveimur árum lagði hópur vísindamanna við Boston University School of Medicine mikið á sig við rannsókn málsins og komst á sporið um leyndardóminn á bak við jóga. Í grein sem birt var í Medical Hypotheses Journal undir heiti sem er nær ómögulegt að skrifa í einni bunu (sjá neðst í grein) lögðu Chris Streeter, PhD og hans vísindahópur fram kenningu þess efnis að jóga kæmi jafnvægi á taugakerfið og ekki nóg með það heldur sögðu þeir til um hvernig: Með því að virkja flökkutaugina elfdi það getu líkamans til að bregðast við streitu. Flökkutaugin er hluti af parasympatíska taugakerfinu (sefkerfinu). Fyrir þá sem ekki vita er flökkutaugin mjög löng taug sem sem liggur frá heila og hefur mikil áhrif á starfsemi ýmissa líffæra, svo sem hjarta, lungna og maga.

Hvað er flökkutaug?
Flest okkar hafa ekki hugmynd um að í okkur býr flökkutaug og þaðan af síður að það þurfi að virkja hana og styrkja, en það er sannarlega ráð.
Flökkutaugin er lengsta og mikilvægasta heilataugin sem á upphaf sitt í botni höfuðkúpunnar og liggur í gegnum allan líkamann. Hún hefur þannig áhrif á öndunina, meltinguna og taugakerfið. Gjarnan er litið á hana sem “umferðarstjórnandann”, þar sem flökkutaugin hefur áhrif á alla mikilvægustu þætti líkamstarfsemi okkar. Andardrátt, hjartslátt, meltingu sem og hæfileika okkar til að upplifa, vinna úr og fá botn í reynslu okkar. Þetta er allt beintengt við flökkutaugina.

Við finnum með margvíslegum hætti og á mörgum “levelum” þegar flökkutaugin er styrk og virkar eins og hún á að gera. Það er þegar meltingin er góð, hjartslátturinn er eins og hann á að vera og geðið í jafnvægi. Við eigum auðvelt með að fara úr álagi yfir í ró og getum tekist á við áskoranir lífsins með hæfilegri blöndu af krafti, stefnufestu og hægð. Þegar við náum að halda þessum sveigjanleika í daglegu lífi er flökkutaugin sterk.

Vanvirk flökkutaug leiðir til einskonar tæmingar. Melting okkar verður hæg og þung, hjartsláttur eykst, skapið verður óútreiknanlegt og erfitt að hemja. Það kemur því ekki að óvart að vanvirk flökkutaug sé líffræðilega beintengd þunglyndi, stöðugum verkjum, flogaveiki og jafnvel áfallastreitu. Of svo vill til að það dregur helst úr þessum einkennum við iðkun jóga. Þannig drógu vísindamennirnir þá ályktun að örvun og styrking flökkutaugarinnar með jógaiðkun dragi úr fyrrnefndum einkennum.

Til þess að sanna tilgátu sína rannsökuðu vísindamennirnir æfingar sem þeir höfðu trú á að hefðu áhrif á flökkutaugina. Til dæmis komust þeir að því að öndunaræfingar með viðnámi, eins og ujjayi pranayama, auka svörun líkamans við slökun og breytileika hjartarsláttar (sem er til marks um gott þanþol). Tilraunin leiddi ennfremur í ljós að reynslumiklir jógar sem söngla OM upphátt hafa enn virkari og styrkari flökkutaug en þeir sem söngla í hljóði.

Vísindarannsóknir eins og þessar eru bara rétt að ná að svipta hulunni af því hvernig jógaæfingar hafa lífræðileg áhrif á okkur með ólíkum hætti.

Ps: Eitt af því áhugaverða sem komið hefur fram við taugarannsóknir á undanförnum árum og þvert á það sem flestir töldu, þá liggja 80% taugabrauta ekki frá heila til hjarta heldur öfugt, frá hjarta til heila. Þannig má í raun segja að hjartað sé að stórum hluta upplýsingamiðill fyrir heilann um hvað á sér stað í iðrum okkar. Semsé þegar fólk segist tala frá hjartanu, þá er það raunverulegt.

Rannsónin ber titilinn: The Effects of Yoga on the Autonomic Nervous System, Gamma-aminobutyric-acid, and Allostasis in Epilepsy, Depression, and Post-traumatic Stress Disorder. Sjá nánar úrdrátt hér: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/22365651

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband